25.03.1924
Efri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

20. mál, kennaraskóli

Guðmundur Ólafsson:

Það kom mjer nokkuð undarlega fyrir sjónir, sem háttv. 1. landsk. (SE) sagði um þá menn, sem gengju í kennaraskólann. Það var að heyra á honum, að þeir menn væru kjarninn úr þjóðinni, framúrskarandi námfúsir og hæfir til náms. En jeg fyrir mitt leyti hjelt nú, að þessir menn væru upp og ofan eins og aðrir.

Þessi ræða hv. 1. landsk. minti mig á aðferð þá, sem venjulega er notuð, þegar verið er að mæla með einhverjum bitlingum eða styrkveitingu til einstakra manna, þá eiga þeir menn ætíð að vera afbragð annara manna að gáfum og iðni. En það hefir að minsta kosti oft, ef ekki oftast, farið svo, að þeir menn, sem þannig hefir verið mælt fram með og fengið hafa styrki, hafa ekki reynst nema rjett í meðallagi.

Hv. 1. landsk. hjelt því líka fram, að áður hefðu verið mestu vandræði að fá hreppstjóra og oddvita. En jeg held, að þetta sje alls ekki rjett, enda er nú ekki mjög langt, ca. 50 ár, síðan oddvitar komu í sveitum, en jeg held, að það hafi ekki heldur verið nein vandræði með að fá hæfa menn til að vera hreppstjórar áður fyr.

Jeg er, eins og hv. þm. Vestm., á þeirri skoðun, að barnafræðslan sje ekki í mikið betra lagi síðan skólarnir komu en hún var áður, meðan heimilin höfðu hana að miklu leyti í sínum höndum. Og jeg held, að í fjölmennu barnaskólunum í kaupstöðunum sje ekki sjerlega glæsilegur árangur af fræðslunni. Og þó að þessi breyting eigi ekki að kosta neitt, þá veit jeg, að þegar búið er að lengja skólatímann í kennaraskólanum, þá kemur næst krafa um það að hækka laun kennaranna, en um það þýðir auðvitað ekki neitt að tala, því þetta fær auðvitað fram að ganga hvort sem er.