14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

5. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Það er aðeins eitt atriði í frv. þessu, sem jeg vildi leyfa mjer að minnast á. Samkvæmt 1. gr. eru flutningabrautir feldar burt sem sjerstakur flokkur vega. En nú er svo, að samkv. frv. eru næstum allar flutningabrautir teknar upp sem þjóðvegir. Jeg held, að aðeins tvær sjeu þar feldar undan og að mjer skilst skildar eftir í algeru greinaleysi, en það eru Eyjafjarðarbrautin og Borgarfjarðarbrautin. Verð jeg að segja það, að jeg skil ekki almennilega, hvað því veldur, að þessar brautir eru feldar burt, en ekki gerðar að þjóðvegum eins og hinar. Það stendur að vísu í greinargerð frv. eitthvað í þá átt, að þegar um flutningabrautir sje að ræða, sem sjeu eingöngu innanhjeraðsbrautir, þá sjeu þær ekki teknar með. En við nánari athugun finst mjer þetta ekki sannast með frv. Jeg álít, að t. d. Hvammstangabrautin og Sauðárkróksbrautin, sem teknar eru upp sem þjóðvegir í frv., sjeu hreint ekki meira til almenningsnota en til dæmis Eyjafjarðarbrautin. Ef hún er eingöngu notuð innanhjeraðs, þá eru þessar það líka, og þeir, sem leggja leið sína um endilangt land, fara ekki þessar brautir frekar en Eyjafjarðarbrautina, og svo mun víðar vera, að flutningabrautir eru teknar upp sem þjóðvegir, þó að þær komi ekki að neitt almennari notum en Eyjafjarðarbrautin, þó að mig bresti kunnugleika til að benda á það nánar.

Jeg skil sem sagt ekki, hvað á að verða um þessar brautir. Sumir kunna að segja sem svo, að þær sjeu sjálfsagðar sem sýsluvegir. En samkv. frv. sjálfu ákveða sýslunefndir, hverjir skuli vera sýsluvegir, og mjer finst það ekki sjálfsagt, að þær taki þessar brautir upp sem sýsluvegi. Jeg hefi ekki komið fram með brtt. um þetta nú, en í hv. Ed. kom fram brtt. þess efnis, að taka Eyjafjarðarbrautina upp sem þjóðveg. Hún var feld. En jeg mun samt við 3. umr. bera fram slíka till. og vonast til, að þessi hv. deild sýni henni meiri góðgirni en efri deild.

Jeg skal ekki fara frekar út í þetta mál, en vil aðeins geta þess, að jeg hefði kosið, að í 12. gr. frv. hefði verið sett ákvæði um, að tilgangurinn og takmarkið væri að gera alla þjóðvegi akfæra með tíð og tíma. Það hlýtur hvort sem er að vera takmarkið, en ekki að láta sjer nægja reiðvegi.