31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg get tekið undir ummæli hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um breytingartill. hans. Jeg er hræddur um, að undanþágurnar sjeu orðnar nokkuð margar og að þessar mjög óákveðnu vefnaðarvörutegundir verði til þess að gera framkvæmd laganna ennþá erfiðari en vera þyrfti, og að talsvert meira mundi þá sleppa undan tollinum en fylgismenn þessarar breytingar ætlast til. Jeg ætla því að mæla með því, að breytingartillaga háttv. 3. þm. Reykv. verði samþykt, í trausti þess, að háttv. Ed. sýni málinu sömu velvild sem áður og afgreiði það í dag. En þó að brtt. verði ekki samþykt og frv. nú afgreitt óbreytt, mun stjórnin auðvitað reyna að nota það sem best og beita því, er kemur til vefnaðarvörunnar, sem næst því, er flm. þeirrar breytingar ætluðust til. En jeg býst við, að það muni reynast erfitt.

Við brtt. hv. þm. Str. (TrÞ) hefi jeg ekkert að athuga og tel, að vel mætti samþykkja þær einnig, ef hvort sem er á að endursenda frv. til Ed. Jeg vil því leyfa mjer að beina því til hæstv. forseta (BSv), hvort hann sjái sjer ekki fært að bera fyrst upp brtt. þá, sem hv. 3. þm. Reykv. er aðalflm. að. Verði hún samþykt, er með því fengið hið sama, sem 2. liður brtt. hv. þm. Str. fer fram á, og tel jeg þá ekkert við það að athuga, þó að hinir 2 liðirnir sjeu einnig samþyktir. En verði fyrri brtt. feld, leyfi jeg mjer að vænta þess, að hv. þm. Str. telji ekki þörf á að láta frv. fara aftur til Ed. vegna brtt. sinnar einnar. (TrÞ: Jeg mun þá taka brtt. mína aftur). Stjórnin vill og mælast til þess, að umræðurnar verði ekki mjög langar, svo að tími vinnist til þess að halda fund í hv. Ed. þegar í kvöld, ef frv. tekur breytingum í þessari hv. deild.