25.04.1925
Neðri deild: 64. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Árni Jónsson):

Fyrst vil jeg víkja örfáum orðum að því, sem okkur háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir borið á milli.

Mig furðaði, að hv. þm. (SvÓ), sem jeg hefi aldrei reynt að öðru en sannsögli, skyldi leyfa sjer að halda því fram hjer í dag, að í lögunum um ríkisveðbankann sje til þess ætlast, að sú stofnun hverfi undir stjórn Landsbankans. Þetta sagði hann til þess að verja till. sína á þeim grundvelli, að ræktunarsjóðurinn eigi í rauninni að vera einn þáttur í ríkisveðbankanum, og þar af leiðandi undir stjórn Landsbankans. Mig furðar á þessu, einkum vegna þess, að hv. þm. (SvÓ) átti sæti hjer á þingi þegar lögin um ríkisveðbankann voru sett, og hlýtur því að vita betur en hann segir, nema hann sje farinn að gerast svo gamlaður, að honum sjáist yfir einföldustu sannindi þess vegna. Annars komu vöflur á hann, sem vonlegt var, þegar jeg spurði, hvort nokkrar líkur væru fyrir því, að ríkisveðbankinn tæki bráðlega til starfa. Þó taldi hann það líklegt, en fyrir því er engin sönnun, nema síður sje. Jeg spurði háttv. þm. (SvÓ), hvort hann væri viss um, að stjórn Landsbankans kærði sig nokkuð um að taka á sig þá kvöð að veita ræktunarsjóði forstöðu, þó ekki væri nema til að byrja með. Hv. þm. (SvÓ) taldi engin vandkvæði á þessu, vegna þess að í fyrra hafi samskonar kvöð verið lögð bankastjórninni á herðar í lögunum um búnaðarlánadeildina.

Jeg held nú satt að segja, að Landsbankastjórnin hafi aldrei verið sjerlega hrifin af þeirri kvöð. Yfirleitt gengur öll viðleitni Landsbankastjórnarinnar í þá átt, að engar sjerstakar kvaðir sjeu lagðar á bankann. Annars getur verið, að hv. þm. (SvO) finnist undirtektir bankastjórnarinnar gefa sjerstakt tilefni til, að henni verði falin stjórn ræktunarsjóðs í viðurkenningarskyni. En jeg sje enga ástæðu til að gefa bankastjórninni slíka viðurkenningu.

Hv. þm. Str. (TrÞ) fór ekki alveg rjett með það, sem hann sagði í dag um þetta sama atriði. Hann sagðist leggja mikið upp úr því, að gott samstarf yrði milli stjórnar ræktunarsjóðsins og Landsbankastjórnarinnar, þegar til kæmi. Af þessum ummælum dró jeg þá ályktun, að hann áliti, að ræktunarsjóðurinn ætti að fá yfir sig sjerstaka stjórn, því annars væru þessi orð sögð út í bláinn.

Hv. þm. (TrÞ) sagðist hljóta að tortryggja hæstv. stjórn í máli þessu, vegna þess, að hún vildi ekki skilyrðislaust ganga inn á að skipa gæslustjóra sjóðsins samkv. till. búnaðarþingsins.

Landbúnaðarnefnd hefir átt tal við þá Thor Jensen og Sigurð búnaðarmálastjóra um þetta atriði, og man jeg ekki til, að þeir hafi lagt neina aðaláherslu á það. Þeir leggja mest upp úr því, að sjóðnum verði sjeð fyrir nægilegu fjármagni, og því verður ekki neitað, að frv. gengur nú mjög langt í því efni. Tortryggni hv. þm. (TrÞ) hefir því við engin rök að styðjast. Hann vill einungis á þennan hátt reyna að rjettlæta stefnubreyting sína frá 2. umr.

Þá var hann að gera samanburð á ummælum mínum og hæstv. atvrh. (MG). En það er nógu gaman að bera samar ummæli hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. þm. Str. (TrÞ). Háttv. 1. þm. S.-M. segir, að þetta sje í raun og veru ríkisveðbanki, en hv. þm. Str. gerir ráð fyrir, að búnaðarþingið tilnefni tvo menn sem gæslustjóra. Ef þetta væri ríkisveðbanki, þá væri það ekki Búnaðarfjelagið, sem hefði hjer hönd í bagga, heldur ríkisstjórnin.