06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. fyrri kafla (Þórarinn Jónsson):

Það var hvorttveggja, að jeg vildi ekki þurfa að hafa langa framsögu, enda þarf þess ekki, er svo vel vill til, að í mínum hluta fjárlagafrv. er ekki um margar nje verulegar breytingar að ræða í þetta sinn.

Jeg ætla þá að víkja í fám orðum að því, hvernig fjárlagafrv. fór hjeðan úr deildinni, hver áhrif brtt. nefndarinnar hafa á það og hvernig það yrði, ef samþyktar yrðu allar brtt. einstakra þingmanna.

Eins og hv. þm. mun kunnugt, kom þetta frv. fyrir þingið úr höndum stjórnarinnar þannig úr garði gert, að áætlaður var tekjuafgangur um 16000 kr. En við uppprentun frv. eftir 2. umr. kom í ljós prentvilla, er nam 1420 kr., svo að raunverulegur tekjuafgangur var ekki nema 14700 kr. Samkv. brtt. fjvn. til 2. umr. var ráð fyrir gert, að tekjuafgangurinn yrði ekki meiri en 4020 kr. vegna hækkana fjvn. á ýmsum útgjaldaliðum fram yfir hækkanir nefndarinnar á tekjuhlið frumvarpsins. En við 2. umr. fóru svo leikar, að frv. fór úr deildinni til 3. umr. með 91259 kr. tekjuhalla, og nokkrum aurum meir. Samkv. brtt. meiri hl. fjvn. hækkar frv. nú alls um 69880 kr., og yrðu þær samþyktar, færi tekjuhallinn upp í 161109 kr. Í þessum kafla fjárlagafrv. nema hækkunartillögur meiri hl. nefndarinnar 28750 kr., en brtt. einstakra þingmanna samtals 158800 kr. En allar hækkunartill. á útgjaldahlið frv. nema kringum 400000 kr. Aftur nema tillögurnar um tekjuhækkun 225 þús. kr., og yrði því mismunurinn eða tekjuhallinn 175000 kr., ef allar fyrirliggjandi till. yrðu samþyktar, og færi þá frv. hjeðan úr deildinni með ca. 270 þús. kr. halla. Þá má geta þess, að þótt einhverjar frekari brtt. til hækkunar tekjuhliðinni hafi komið fram, þá megi samt vænta tekjuhalla eigi undir 200 þús. kr. Jeg ætla ekki að fara frekar út í þetta að sinni, en mjer virðist þó varkárni hv. þm. ýmissa vera á nokkuð öðru stigi nú en á síðasta þingi. Þó geri jeg ekki ráð fyrir, að allar brtt., sem nú liggja fyrir til lækkunar, verði samþyktar, heldur aðeins þær, sem þýðingarmestar og nauðsynlegastar verða taldar, og ræð jeg þetta af því, sem áður hefir verið gert í þessu efni. En um stefnu fjvn. hefi jeg þegar talað við 2. umræðu fjárlagafrv., og ætla jeg því ekki að lengja þessa umr. með því að endurtaka það. Skoðun hennar er í öllu óbreytt enn á þessum málum, og mun því nefndin greiða atkv. á móti allflestum þeim brtt., sem nú eru hjer frá einstökum þm.

Þá ætla jeg að fara nokkrum orðum um brtt. fjvn. á þskj. 290, sem tilheyra mínum kafla. Þar er þá fyrst brtt. TI, að fyrir „límonade“ komi gosdrykkir. Það er um þessa og aðrar svipaðar brtt. í þessa átt, að hjer er verið að laga orðalagið og færa það til betra og íslenskara máls. Sama gegnir og um IV. brtt. á sama þskj. Það er aðeins orðabreyting til hins betra og rjettara, og þá er einnig hið sama að segja um VI. brtt. 1, og ræði jeg þetta því ekki frekar.

Þá er brtt. VI, 2, við 12. gr. 7, b, að orðin „til sama“ falli burt. Þetta á við fjárveitingu til augnlæknisferða kringum land, og þar sem hingað til aðeins hefir verið um einn mann að ræða, hefir þessi styrkur verið bundinn við hann. En nú, þegar hjer eru komnir tveir augnlæknar, vill fjvn. láta þetta laust og óbundið, til þess að þeir geti, ef þeir vilja, skift ferðunum á milli sín. Hefði jafnvel verið rjettara að ákveða þetta fast með brtt., en jeg hafði ekki athugað það fyr en um seinan. Það er svo með þessar ferðir kringum land, að læknirinn fer með strandferðaskipunum og dvelur mest viku til hálfan mánuð eða þar um bil á helstu viðkomustöðunum, en hefir ekki getað komið á aðra staði en þá, sem skipin hafa að viðkomustöðum að staðaldri, en minni háttar hafnir hafa orðið útundan. Jeg vil því skjóta því til hæstv. stjórnar að taka það til athugunar, hvort ekki sje hægt að koma því svo fyrir, að læknirinn komi á fleiri staði en áður, jafnvel þótt hann dveldi ekki þar lengur en 1–2 daga; gæti þetta sparað fjölda manna langar ferðir á læknisfund. Um mörg undanfarin ár hefir læknirinn, eins og jeg tók fram, aðeins staðið við til lengdar á stærstu höfnunum, og verður þá ekki talið órjettlátt, að minni viðkomustaðir verði einnig látnir hafa meiri not þessara ferða en áður, þar sem ætla mætti, að læknisins vœri nú eigi eins mikil þörf þar, sem hann er búinn að koma oft áður og dvelja lengi.

Þá hefir fjvn. gert brtt. um að bæta 2 nýjum liðum við 12. gr. (brtt. VI,4 á sama þskj.). Fyrri liðurinn er um styrk til Skúla læknis Guðjónssonar, til bætiefnarannsókna (vitamin). Þessi læknir hefir nú í tvö ár undanfarið dvalið erlendis við framhaldsnám í heilsufræði og notið til þess styrks úr ríkissjóði. Hefir hann dvalið bæði í Þýskalandi og í Danmörku, og þar er hann nú. Hann hefir stundað þessi fræði bæði á Jótlandi og nú síðast við heilsufræðisstofnunina í Kaupmannahöfn. Hefir hann þar á hendi ýmsar rannsóknir, sem formaður stofnunarinnar, prófessor L. S. Fredericia, hefir falið honum. Er aðalverkefnið vitamina í húðfitu. Þessar rannsóknir snerta ýmislegt, sem viðkemur daglegum lifnaðarháttum og heilsu almennings. Árangur þessara rannsókna hefir þegar orðið allgóður og hafa þær leitt ýmislegt það í ljós, sem mönnum var áður ókunnugt, en þó mikilsvirði að vita. Læknirinn hefir í huga að beina rannsóknum sínum að ýmsu, sem að gagni mætti verða fyrir framleiðslu íslenskra fæðutegunda, og ætla jeg því viðvíkjandi, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hjer nokkur atriði úr brjefi frá honum til fjvn. Alþingis:

„Vil jeg rannsaka vitamin í ísl. fæðutegundum og hversu þau þola þá geymslu og meðferð, sem við notum á Íslandi, svo sem söltun, súrsun, þurkun o. s. frv.

Maður hefir ástæðu til að halda, að íslenskt kindakjöt t. d. sje vitamin-auðugra en algengt er um kindakjöt og annað kjöt; geti maður sannað þetta með rannsóknum, eykur það mjög verðmœti kjötsins. Þetta væri þýðingarmikið og allmikið fjárhagsmál. Það er kunnugt, að Íslendingar lifa mikinn hluta árs af súrsuðum og söltuðum mat; menn vita ekkert um það, hvort vitamin þola þá meðferð. Þetta þarf að rannsaka; það er nauðsynlegt heilsumál.

Þá vil jeg minnast á skyrið. Það er að mestu alveg órannsakað, en er merkilegra en frá megi segja, bæði frá vísindalegu og „praktisku“ sjónarmiði. Það er líklegt, að mjög mikið af vitamin sje í skyrinu og að það megi nota ekki einungis sem framúrskarandi góða og holla fæðu, heldur einnig sem læknislyf. Sannaðist þetta með vísindalegum rannsóknum, mætti gera úr því dýrmæta verslunarvöru. Þetta er bæði fjárhags- og heilsumál.“

Þá hefir hann og rannsakað fjöruskjögur, sem talið er að orsakist af vitaminskorti. Þessi sjúkdómur hefir gert vart við sig víða um land, og gætu því rannsóknir þessar haft mikla þýðingu. Hann hefir hugsað sjer að skrifa stutta bók við alþýðuhæfi um rannsóknir sínar. Hann hefir mjög eindregin meðmæli læknadeildar háskólans, og að öllu athuguðu taldi nefndin rjett að veita honum styrk þennan, enda þótt hún treysti sjer ekki til að veita alla upphæð þá, er hann fór fram á. — Nefndin leggur og til að veita öðrum lækni, Valtý Albertssyni, 1500 kr. til náms í lífeðlisfræði. Hann hefir nú undanfarið dvalið 5 mánuði í Óslo og sækir nú um styrk til framhaldsnáms þar eða í Lundi í Svíþjóð. Hann segir svo í umsókn sinni, að hann sje sá eini, er nú leggi stund á þessa fræðigrein, og hafi gert það fyrir áeggjun Guðm. sál. Magnússonar próf., sem einnig hefir mælt eindregið með honum. Meiri hl. nefndarinnar er því samþykkur, að þessi styrkur sje veittur.

Þá er brtt. XII á þskj. 290, fjárveiting til Vaðlaheiðarvegar. Það mál lá einnig fyrir við 2. umr., og var þá farið fram á nokkru hærri upphæð. Sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þann lið, en nefndin er þó ekki öll sammála um hann.

Þá er brtt. XV, við 13. gr. C. 2., um hækkun á styrk til bátaferða. Þessi liður var hækkaður úr 70000 kr. upp í 83000 við 2. umr. Nú er lagt til, að hann verði hækkaður upp í 87 þús., með tilliti til Hornafjarðarbátsins. Nefndin hafði ekki kynt sjer málið nægilega við 2. umr., en meiri hl. hefir nú fallist á þessa hækkun. Annars hafa styrkir til bátaferða til þessa ekki komið fjvn. við, heldur hafa öll erindi um slíkt borist til samgmn. Mun tilætlunin þó hafa verið sú, að öll fjárhagsatriði sjeu fyrst og fremst borin undir fjvn., en í seinni tíð hefir algerlega verið brugðið út af þeirri reglu. Er það þó síst heppilegt, þar sem nefndin kynnir sjer þá ekki þessi mál eins rækilega og skyldi.

Þá er síðasta brtt. við þennan kafla fjárlagafrv., fjárveiting til að kaupa hús og lóð við Garðskagavitann. Þessi brtt. var tekin aftur við 2. umr.; var upphæðin, sem nefndin þá lagði til að veita, alt of lág. Nú hefir nefndin kynt sjer málið og rannsakað mat og önnur plögg, er að því lúta. Er mat á eign þessari langt fyrir ofan söluverð það, sem nú er boðið að selja fyrir. Þykir nefndinni verðið gott og leggur því til, að kaupin gangi fram.

Jeg fer ekki að sinni út í brtt. einstakra þm., en mun fylgja þeirri reglu, sem jeg hefi áður fylgt, að láta þm. fyrst tala fyrir þeim.

Jeg þykist nú hafa verið fremur stuttorður og vona, að aðrir verði það líka. Jeg tel sjálfsagt, að þessari umr. verði lokið í kvöld.