06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1926

Hákon Kristófersson:

Jeg á hjer eina brtt. á þskj. 290 um að hækka styrkinn til Halldórs Arnórssonar umbúðasmiðs úr 1500 kr. upp í 1800 kr. Þegar þetta mál var hjer fyrst til umræðu, brast mig kunnugleika til að dæma um það, og fór jeg því nokkru síðar á fund Halldórs, til þess að sjá áhöld þau, sem hann notar, og umbúðir þær, sem hann býr til, og jeg verð að segja, eftir að hafa sjeð það, sem hann hefir á boðstólum, að jeg álít það fullkomlega þess vert, að Alþingi styrki slíkan iðnað. Þessi maður vinnur að því að bæta upp ágalla þeirra, sem fatlaðir eru, og styðja þá, sem veikir eru. Ef jeg t. d. yrði fyrir því að missa fót, veit jeg þó nú, hvar hægt er að fá við því gert, að svo miklu leyti, sem það er hægt að bæta slík óhöpp upp. Þessi brtt. fer fram á að hækka styrkinn til þessa manns aðeins lítið eitt; en þótt þetta sje ekki stór upphæð, er það þó dálítil viðurkenning á starfi þessa manns, og gæti það þá einnig orðið til þess, að hann stæði sig fremur við að selja umbúðirnar vægara verði, og segir það sig sjálft, að það gæti komið mörgu fátæku fólki vel og gert því hægara fyrir að kaupa þessa hluti. En annars býst jeg við, að ekki þurfi að fara fleiri orðum um þetta mál, því að háttv. þm. munu sjá, að þessi styrkveiting fer í rjetta átt, að styrkja þennan smið til þess, að hann geti orðið þeim að liði, sem eru svo óhamingjusamir að þurfa að nota smíðar hans. Þrátt fyrir það, þótt hjer sje farið fram á örlitla útgjaldahækkun, vænti jeg, að undantekning verði gerð í þessu tilfelli og brtt. mín samþykt.

Jeg mun svo ekki tala meira fyrir þessu, en treysti því aðeins, að þessi brtt. hafi samúð hv. þm. og að þeir verði svo góðir að samþykkja hana.

Þá er önnur brtt. á þskj. 290,XXV, sem jeg á ásamt hv. 2. þm. Eyf. (BSt), og hefir hann mælt svo skörulega fyrir henni, að jeg þarf þar engu við að bæta Þarf jeg því ekki að ræða þetta mál nánar, er háttv. 2. þm. Eyf. hefir þegar tekið fram það, sem þarf, um tilgang þessarar brtt., og þarf jeg heldur ekki að skýra það, en læt mjer nægja að taka fram, að jeg undirstrika hvert orð, sem hann þá sagði. Jeg vil ennfremur taka það fram, að fari svo, að hið háa Alþingi vilji ekki samþykkja þessa brtt., skil jeg aðstöðu háttv. þm. á þann veg, að þeir vilji losa viðkomandi hjeruð frá þeim skyldum, sem á þeim hvíla samkvæmt núgildandi fræðslulögum, og jeg tel þá sjálfsagt, að ef til dæmis skólahús vantar í einhverri sveit, eða þó það sje til, er í svo slæmu ástandi, að við það verði ekki notast, og verði því að standa autt, að þá hverfi barnafræðslan aftur í gamla horfið, eða með öðrum orðum, að við henni taki umgangskennarar. Ef hið háa Alþingi hverfur aftur að því ráði, þótt annað hafi hingað til verið ofar á baugi í lögum, þá hefi jeg ekki á móti því fyrirkomulagi. Eins og jeg hefi nú tekið fram, verð jeg að skilja það svo, ef háttv. deild leggur á móti þessari sjálfsögðu brtt., sein jeg tæplega vil trúa, að verði feld við atkvæðagreiðslu þá, sem fram fer að lokinni þessari umræðu, að þá sje það af því, að deildin vill ekki lengur búa við núgildandi fræðslulög, eins og jeg benti á áðan.

Að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. Rang. (KIJ), er hann talaði um XV. brtt. á þskj. 290, um bátaferðir, tek jeg það fram, að jeg hefi ekki neitt sjerlegt að athuga við það, sem hann sagði, en mjer skildist það á framsöguræðu háttv. frsm. fyrri hluta frv. (ÞórJ), að það sýndist vera efasamt, hvort vel færi á því, að hv. samgöngumálanefnd hefði ótakmörkuð umráð yfir úthlutun þess fjár til einstakra hjeraða, sem veitt væri til samgöngubóta. Jeg viðurkenni það alls ekki, að það sje rjett skoðun, að háttv. fjárveitinganefnd sje á nokkurn hátt færari til að ákveða fjárframlög til samgöngumála, hvort heldur er á sjó eða landi, en samgöngumálanefnd, er þau mál hefir sjerstaklega til athugunar. Jeg lít svo á, að þessi hækkun, sem hv. fjvn. ber fram í brtt. XV á þskj. 290, sje borin fram í þeim skilningi, að hæstv. atvrh. hafi þessa upphæð til umráða, og geti því nokkru um það ráðið, hverjum verði veitt af þessu fje, og fjárhæðin sje alls ekki ætluð til hins svo nefnda Hornafjarðarbáts frekar en annara staða. Jeg verð að taka undir það, sem háttv. 2. þm. Rang. (KIJ), form. samgmn., sagði og jeg ekki hefi neitt við að athuga, að það sje varhugavert að skerða svo þessar fjárveitingar, að ekki sje af þeim eftir neitt fje, sem atvrh. hafi til umráða, ef á þyrfti að halda.

Jeg tel ekki þörf að ræða um aðrar brtt., sem hjer liggja fyrir, en atkvæði mitt mun sýna, hvernig jeg lít á þær, er til atkvæðagreiðslu kemur.

Út af brtt. um að veita fje til að gefa út vísindarit í minningu um Eggert Ólafsson tek jeg það fram, að það er ekki laust við, að kvartað hafi verið yfir andstöðu okkar bændaþm. gegn því máli og okkur brugðið um að vilja ekki heiðra minningu þessa mæta manns. Slík orð til okkar bænda töluð verð jeg að telja algerlega ósönn og ómakleg ummæli í garð okkar bænda, að við viljum ekki halda minningu hans á lofti; en hitt segi jeg, að minning og heiður þessa stórmerka manns mun síst falla í gleymskunnar djúp, þó að sú brtt., sem hjer liggur fyrir, verði feld, og jeg álít þessar áður umgetnu aðdróttanir bæði óverðskuldaðar og ómaklegar.