29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

1. mál, fjárlög 1926

Einar Árnason:

Jeg á brtt. á þskj. 400, ásamt hv. 3. landsk. þm. (HSn), og þó að jeg sje ekki aðalflm. tillögunnar, ætla jeg samt að mæla fyrir henni nokkur orð. Till. er um verðlaun eða styrk til mjólkurniðursuðuverksmiðjunnar Mjallar í Borgarfirði. Það mun öllum vera kunnugt, að inn í landið er flutt árlega geysimikið af erlendri niðursoðinni mjólk og nú um nokkur undanfarin ár hefir verðgildi niðursoðinnar innfluttrar mjólkur numið frá ½–1 milj. kr. á ári. Nú mun og öllum það jafnkunnugt, að allur þessi mikli innflutningur stafar ekki frá því, að ekki sje nóg mjólk framleidd í landinu, heldur stafar þetta frá því, að framleiðslu hjeruðin eru svo sett, að það er ekki hægt að flytja mjólkina til þeirra staða og hjeraða, sem hennar er þörf. Þessar örðugu samgöngur, sem menn eiga víðast hvar við að búa hjer á landi, gera það að verkum, að sumir landshlutar geta ekki fengið fullnægingu þarfa sinna að þessu leyti. Bændur víðsvegar um land á þeim svæðum, sem mikil mjólk er framleidd á, hafa oft nýtt með sjer, hvernig þeir gætu best komið mjólkinni í verð, og hafa því einna helst rent augum til mjólkurniðursuðu og hafa fundið þá nauðsyn, sem er á því, að hjer komist upp mjólkurniðursuðuverksmiðja, sem miðuð væri við þann innlendan markað sem hjer er og nú er notaður af erlendum framleiðendum. En það hefir þó ekki orðið fyr en nú á síðastliðnu ári, að ísinn var brotinn í þessu efni og fjelag var stofnað í Borgarfirði til þess að sjóða niður mjólk. Þetta fjelag sneri sjer til þingsins í fyrra og fór fram á, að það væri styrkt á einhvern hátt, t. d. með ábyrgð ríkisins fyrir láni, sem tekið yrði til að koma verksmiðjunni á fót. Þingið viðurkendi fyllilega nauðsyn þessa máls með því að heimila stjórninni að ábyrgjast alt að 40 þús. kr. lán handa fjelaginu, til þess að verksmiðjan kæmist upp. Nú er þessi verksmiðja (Mjöll) í Borgarfirði komin á fót. En stofnkostnaðurinn hefir orðið talsvert meiri en áætlað hafði verið og varð alls um 130 þús. Af þessu hefir fjelagið lagt fram 90 þús. kr., þar af 60 þús. kr. hlutafje.

Þessi verksmiðja, sem tók til starfa laust fyrir áramótin síðustu, getur framleitt 300–400 þús. dósir á ári, eða sem næst fullan helming á móts við það, sem inn var flutt árið 1922 samkv. síðustu verslunarskýrslum. Þá var flutt inn um 750 þús. dósir. En þessa verksmiðju í Borgarfirðinum má án mikilli breytinga auka svo, að hún geti framleitt alla þá niðursoðna mjólk, sem landsmenn þarfnast.

Að stofnkostnaður verksmiðjunnar fór svo mjög fram úr áætlun, var að ýmsu leyti óvæntum atvikum að kenna, og þó að komist hafi verið fram úr þeim og verksmiðjan sje tekin til fullra starfa, leiðir af þessu, að hún á við allmikla fjárhagsörðugleika að stríða, og er það ekkert nýtt hjer um ýms fyrirtæki, sem eru á byrjunarstigi. Það, sem einna erfiðast hefir orðið viðfangs fyrir þessa nýstofnuðu verksmiðju, er það, að einmitt um sama leyti og hún tók til starfa, lækkaði mjög verð á erlendri niðursoðinni mjólk, sem þá fluttist hingað á markaðinn. Það var að vísu ekki óeðlilegt, að erlendar vörur lækkuðu þá, vegna gengisbreytinga þeirra, sem þá urðu og síðan, en um þessa vöru, niðursoðnu mjólkina, er það að segja, að hún virðist hafa lækkað talsvert meir en nemur gengisbreytingunni, og varð þeirrar lækkunar fyrst vart eftir að fyrsta sendingin frá Mjöll kom hingað á markaðinn. Hvort þessi lækkun á erlendri mjólk stendur í nokkru sambandi við verksmiðjuna Mjöll í Borgarfirði, skal jeg ósagt láta, því að mjer er þetta ekki nægilega kunnugt.

Stjórn verksmiðjunnar hefir því snúið sjer til fjhn. Nd. um einhvern styrk, og öll nefndin virðist hafa verið sammála um, að það bæri að styrkja þetta fyrirtæki, en skildi þó á um leiðirnar til þess, hverjar fara skyldi, og klofnaði fjhn. Nd. um það mál. Vildi meiri hl. nefndarinnar veita fjelaginu 8000 kr. styrk, eins og við 3. landsk. þm. (HSn) leggjum til að nú verði gert, en minni hl. vildi styrkja fjelagið með tollvernd. Áleit minni hl. rjett að setja nýjan toll á innflutta mjólk, og ætti á þann hátt að fást nokkur styrkur handa verksmiðjunni. Báðir hlutar nefndarinnar báru fram brtt. um styrk handa fjelaginu Mjöll, en minni hl. setti það skilyrði, að fjelagið fengi ekki þennan styrk, ef það nyti tollverndar. En þessi tvískifting nefndarinnar varð báðum tillögunum að falli, enda þótt líklegt sje, að meiri hluti deildarinnar hafi verið því samþykkur að veita verksmiðjunni styrk, sem næmi þeirri upphæð, er við nú förum fram á, að verði veitt. En þessi mistök urðu vegna þess, að menn greindi á um stefnur í tollamálunum. En till. um að hækka toll á erlendri niðursoðinni mjólk fjell í gær í Nd., svo jeg held það þurfi ekki að reikna með því, að verksmiðjan njóti styrks á þann hátt.

Það er nú svo um þetta fyrirtæki, að á miklu getur oltið, hvort það fær staðist samkepnina eða ekki. Því að ef það veltur um koll í ár, má búast við, að öðrum mjólkurframleiðsluhjeruðum þyki ekki árennilegt að stofna til samskonar framkvæmda, og er því hætt við, að sama ástand haldist óbreytt, sem nú er, sem sje, að mjólk verði flutt til landsins í mjög stórum stíl, en mjólkurhjeruðunum verði ekki full not þeirrar mjólkur, sem þau framleiða. Getur það leitt til þess, að þau hjeruð verði að snúa frá búnaðarháttum sínum, nautgriparæktinni. En það væri, að mínu áliti, mjög illa farið, því að nantgriparæktin er ein mesta lyftistöng landbúnaðarins, þar sem ræktun landsins er að miklu leyti undir því komin, að hún fari vaxandi. Það eru nautgripirnir, sem eiga að rækta landið, en ekki sauðfjenaðinum, enda eru mörg hjeruð ágætlega til nautgriparæktar fallin, þar sem fjarri fer því, að sauðfjárrækt geti borið sig.

Jeg álít því, að ekki verði deilt um nauðsyn þess, að eitthvað verði gert til að bæta ástandið í þessum efnum. Auk þess verður einnig á það að líta, að meiri trygging ætti að vera fyrir því, að íslensk mjólk sje að öllu leyti betri en útlenda mjólkin, enda hefir sannast við rannsókn hjer, að sum útlend mjólk hefir verið svikin.

Persónulega get jeg ekki dæmt um gæði mjólkurinnar frá fjelagi þessu, en það gladdi mig að heyra hv. þm. Vestm. (JJós) skýra frá þeirri reynslu sinni, að mjólkin hafi gefist vel. Það er því engan veginn óeðlilegt, að þingið veiti máli þessu stuðning á einhvern hátt, einkum þegar þess er gætt, að öðrum innlendum framleiðsluvörum hefir verið veittur hliðstæður stuðningur, t. d. í tollalöggjöf okkar. Nú hefir verið lagður verðtollur á ýmsar innfluttar matvörutegundir, sem framleiddar eru í landinu sjálfu. T. d. er nú greiddur tollur af fiskmeti, kjötmeti, smjörlíki o. s. frv., sem er flutt inn, vegna þess, að þessar vörutegundir eru framleiddar í landinu. Sama máli gegnir um þær iðnaðarvörutegundir, sem nú er farið að framleiða hjer. Þær eru nær undantekningarlaust verðtollsskyldar. Enn má nefna baðlyf. Innlend framleiðsla þeirra er vernduð á þann hátt, að beinlínis er bannað að flytja inn útlend baðlyf.

Einnig má benda á hliðstæð dæmi, þar sem smjörbúunum voru áður veitt verðlaun fyrir útflutt smjör, og þar sem nú eru veitt verðlaun fyrir útfluttan gráðaost. Alt er þetta stuðningur, veittur innlendri framleiðslu.

Við flm. þessarar till. viljum ekki láta undir höfuð leggjast, að tilraun sje gerð til að rjetta fyrirtæki þessu hjálparhönd. Við álítum, að mikið liggi við, hvort þessi fyrsta tilraun til innlendrar mjólkurniðursuðu lánast eða ekki. Þarf jeg ekki að fjölyrða frekar um þessa brtt., en vænti þess, að hv. deild ljái henni fylgi sitt við atkvgr.

Þá vil jeg aðeins gera örlitla aths. við tvær síðustu brtt. fjvn., þó að það kunni að þykja undarlegt. Þar sem jeg á sjálfur sæti í nefndinni.

Þessar brtt. fara í þá átt að fella niður tvær ábyrgðarheimildir. aðra fyrir Akureyrarkaupstað til hafnarbóta, en hina fyrir tóvinnufjelag Vestur-Ísfirðinga. Í sambandi við þessar brtt. skal jeg geta þess, að jeg hefi verið beðinn að flytja till. um ábyrgðarheimild fyrir Siglufjarðarkaupstað. Það lán á að nota í sama tilgangi og Akureyrarlánið, til byggingar hafnarvirkja.

Þegar þessar ábyrgðarheimildir voru ræddar í fjvn., varð ofan á að leggja það til, að þær heimildir, sem hv. Nd. hafði tekið upp í frv., skyldu feldar niður, eins og umræddar till. sýna. Jeg sá því, að ekki væri til neins fyrir mig að flytja þessa beiðni Siglufjarðarkaupstaðar, en hinsvegar vil jeg láta hv. deild vita, að verði þessar brtt. nefndarinnar ekki samþyktar nú, þá mun jeg flytja brtt. um ábyrgðarheimild fyrir Siglufjarðarkaupstað til hafnarbóta við 3. umr.