29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

1. mál, fjárlög 1926

Jónas Jónsson:

Jeg gleymdi í gærkvöldi að gera athugasemd við þá brtt. hv. fjvn. að fella niður byggingarstyrkinn á Skútustöðum. Eins og allir vita, eru Skútustaðir í þjóðbraut og í þá sveit settir, sem flestir útlendir og innlendir menn heimsækja á ferðum sínum um Norðurland. Erlendir ferðamenn hafa í bókum sínum margsinnis minst á Skútustaði og þann myndarskap, er þeir nutu í gestrisni húsbændanna. Nú er bærinn kominn að hruni, ferðamönnum meinað að gista þar og heimamönnum varla líft í kofunum. Hafa Mývetningar fundið sárt til þess, ef þetta höfuðból sveitarinnar yrði að leggjast í hálfgerða auðn. Þess vegna hafa þeir gefið 5 þús. krónur til þess að byggja upp staðinn, með því skilyrði, að ríkið gæfi aðrar 5 þúsundir. Hv. Nd. skildi nauðsyn þessa máls og samþykti þessa upphæð, sem hv. fjvn. þessarar deildar leggur nú til, að sje feld. Með því að fella þennan styrk getur dregist um óákveðinn tíma að byggja upp staðinn. En vitanlegt er, að fyr eða síðar verður ríkið að hlaupa hjer undir bagga, og er þá óvíst, að sóknarmenn verði jafndrjúgir á gjöfum sínum og nú. Annars mun það einsdæmi, að sóknarbörn bjóðist til að leggja svo mikið af mörkum, enda hafa Mývetningar mikinn sóma af máli þessu. Og gott fordæmi getur það ekki talist, ef hið háa Alþingi hafnar slíku boði.

Þá er það athugasemd háttv. fjvn. um styrkinn til hjeraðsskóla í sveitum, sem jeg vildi lítilsháttar minnast á. Það var nú áður vitað, enda hefir það líka komið fram í umr., að styrkur þessi er ætlaður Sunnlendingum, austan Hellisheiðar. En hitt er líka löngu víst, að sýslurnar austanfjalls koma sjer aldrei saman um, hvar skólinn eigi að standa. Um það hefir verið sá reipdráttur milli Árnes- og Rangæinga um meira en heilan tug ára, að þar er ekki neins samkomulags að vænta. Þess vegna segir athugasemd hv. fjvn. ekki annað en það, að fyrir þennan styrk verði ekki komið upp hjeraðsskóla á Suðurlandi í náinni framtíð, og ætti því að strika aths. út.

Hv. frsm. (JóhJóh) mintist á Seyðfirðinga í þessu efni og benti á, að þeir hefðu komið sjer upp barnaskóla. En hann hefði þá átt að geta þess, að í Árnessýslu er fólksfjöldinn um 6 þús., en á Seyðisfirði eitthvað um 1 þús. manns. Og þó að Seyðisfjörður eigi sinn barnaskóla með mörgum góðum kennurum, þá ætti ekki að neita Árnesingum um að koma upp hjeraðsskóla, og allra síst þegar litið er á það, að barnafræðslan í sýslunni er mjög af skornum skamti og sumstaðar engin.

Það er heldur engin eyðsla, þó að sýslur, sem telja um 4–6 þús. manns, kæmu sjer upp hjeraðsskóla hver í sínu hjeraði. Og þar sem menn yfirleitt trúa á gagnsemi hjeraðsskólanna, þá er undarlegt að gerast Þrándur í Götu slíkra framkvæmda. Annars hefi jeg hugsað mjer, verði brtt. þessi samþykt nú, að koma með aðra brtt. við 3. umr., og færa þá athugasemdina til betra og rjettara máls.

Þá vildi jeg næst minnast á sundlaug Þingeyinga. Hv. fjvn. vill fella niður styrk til hennar. En það er ekki sambærilegt að nefna Reykjaneslaugina í Norður-Ísafjarðarsýslu í sömu andránni, þar sem aðeins er ætlast til, að sund verði kent einhvern tíma vorsins. í sundlaug Þingeyinga á að kenna sund allan ársins hring, jafnt sumar og vetur, og þess vegna verður hún að vera yfirbygð. Enginn maður með viti mundi skipa óhörðnuðum unglingum að synda í opinni laug, þótt volg væri, í hvaða veðri sem er að vetrinum. En það er hægt í yfirbygðri laug. Hv. frsm. (JóhJóh) vill ekki láta fólkið synda alt árið, en heilsufræðingar allra landa telja það mestu hollustu hverjum manni, sem hefir ástæðu til þess. Þess verður heldur ekki langt að bíða, að Reykvíkingar eignist sína yfirbygðu sundlaug, sem áætlað er, að muni kosta um 200 þús. kr.

Þá leggur nefndin til, að styrkurinn til Jakobs skálds Thorarensens falli niður. Þessi maður er viðurkendur orðinn sem eitt af okkar bestu og einkennilegustu skáldum og á marga lesendur víða um land. Þessi maður, sem var áður duglegur trjesmiður og vann mikið, hefir nú lengi verið frá verkum og ekki þolað að stunda iðn sína. Hann varð í fyrra að leggjast í sjúkrahús og láta gera á sjer uppskurð, sem að vísu heppnaðist, en hann hefir ekki náð sjer enn og bíður eflaust um stund að hann verði jafngóður. Væri því rjettara og viðkunnanlegra að lofa þessum styrk að standa áfram heldur en að fella hann niður.

Jeg býst ekki við, að jeg hafi mikil áhrif á háttv. þm., þó að jeg fari nokkrum orðum um Stefán skáld frá Hvítadal og reyni að færa nokkur rök fyrir því, að ómaklegt sje að fella styrk þann niður, er samþyktur var honum til handa í háttv. Nd. Eins og kannske margir vita, hefir Stefán frá Hvítadal verið heilsutæpur um margt ár og dvelur nú á Vífilsstöðum sem sjúklingur. Annars er heimili hans vestur í Dölum, og þar dvelur kona hans með fjórum dætrum þeirra kornungum, og er heimilið því forsjárlaust. Er því auðsætt, að hjer er um mjög bágar ástæður að ræða. Og þó að gera megi ráð fyrir, að dvöl hans í hælinu verði greidd að nokkru leyti af hinu opinbera, þá mun honum síst veita af að fá þennan litla styrk, og ætti því að halda honum. Stefán frá Hvítadal er ótvírætt eitt af okkar bestu og ljóðfimustu skáldum. Hann varð frægur af sinni fyrstu bók og vakti þá þegar strax meiri eftirtekt en títt er um ung ljóðskáld. Og hann hefir ekki brugðist þeim vonum, er menn þá gerðu til hans. Nú fyrir skömmu hefir hann látið prenta mjög merkan kvæðaflokk, er hann nefnir „Heilaga kirkju“ og hlotið hefir almenna viðurkenningu bæði innanlands og utan. Og hann mun einnig hafa nú tilbúna ljóðabók að mestu leyti, sem ekki er ósennilegt, að komi út í haust. Þætti mjer því betur fara, ef hv. þdm. sæju sjer fært að láta styrk þennan standa áfram í fjárlögum, því Stefán frá Hvítadal er hans maklegur mörgum öðrum fremur.

Um Staðarfellsskólann ætla jeg ekki að tala svo að neinu nemi, enda hefir mentnm. orðið ásátt um að taka brtt. sínar aftur til. 3. umr. Aðeins finst mjer rjett að þakka hv. þdm. góðar undirtektir þessa máls og samúð þá og rjettan skilning, er þeir hafa í því sýnt. Jeg get þó ekki komist hjá því að skýra frá því, út af því, sem orð fjellu hjá hv. frsm. (JóhJóh), að mentmn. hefir altaf haft málið til meðferðar í vetur og athugað það vel og gaumgæfilega, átt tal um það við hæstv. forsrh. (JM) og marga fleiri. Þó sá nefndin sjer ekki fært að leggja neitt álit fram, fyr en kunnugt var um þá stóru og höfðinglegu gjöf, sem minst var á hjer í gær. Og eins og háttv. 1. landsk. (SE) skýrði frá í gær, þá er það í sambandi við þessa gjöf, að brtt. okkar eru bornar fram.

Hæstv. atvrh. (MG), sem kemur til með að hafa þetta mál með höndum og gera endanlega samninga, hefir fylgst vel með öllu því, er gerst hefir í málinu, og sýnt, að hann er því velviljaður.

Hv. 1. þm. Rang. (EP) hjelt því fram, að lánsheimild til þess að kaupa áhöfn á jörðina mundi þarflaus. En þetta er fram borið samkvæmt bestu heimildum, sem nefndin gat fengið um þá nauðsyn, að bæta þarf ýmsu við þar á Staðarfelli. T. d. þarf að kaupa báta o. fl. til þess að starfrækja eyjarnar. Sá nefndin sjer því ekki fært að krefjast minna fjár en nefnt er í brtt., og þó að þessi liður um ábyrgðina verði samþyktur, er það á valdi hæstv. atvrh. að ganga svo frá samningunum, að ríkið bíði engan skaða þar við, enda efast jeg ekki um, að hann mundi aldrei láta meira fje í búið en rannsókn leiddi í ljós, að nauðsynlegt væri.

Af því jeg lofaði hæstv. forseta (HSteins) að vera stuttorður og liðið er langt á kvöld, læt jeg hjer staðar numið, enda þótt ástæða væri til að minnast á ýmislegt fleira.