07.03.1925
Efri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (2415)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Jónas Jónsson:

Jeg vildi, við 1. umr., segja fáein orð um þetta mál, með því að það er í raun og veru nokkuð stórt mál, og það er til bóta, að hv. flm. (JJós) segi ef til vill enn skýrar en hann hefir gert frá aðstöðu Vestmannaeyjabæjar í þessu efni.

Það er ekki hægt að neita því, að Vestmanneyingar hafa ekki minni rjett til að fá sínar eyjar keyptar heldur en einstakir ábúendur kirkju- og þjóðjarðir, en það hefir verið mikið álitamál um það, hvort þessi aðferð sje rjett, að landið hefir nálega rúið sig áð þessum eignum. Og víst er um það, að þetta hefir oft ekki orðið ábúendum þessara jarða til góðs, nema þá kanske fyrstu kynslóðinni. T. d. má taka jörðina Hrafnagil í Eyjafirði; hún var seld, þegar prestssetrið var lagt niður; þá var jörðin seld fyrir ca. 4000 krónur. Fám árum síðar var hún seld fyrir hjer um bil 40 þús. kr. Afleiðingin er sú, að ríkissjóður hefir tapað á þessari sölu stórmiklu fje; ríkið hefir þannig gefið þeim manni, sem keypti, stórmikinn höfuðstól. Reyndar er þetta dæmi alveg einstakt í sinni röð. Jeg hefði þó alveg látið það vera, þó að ríkið hefði gefið ábúandanum svona mikið fje, en nú er þess að gæta, að það er ómögulegt að renta það verð, sem hún var seld fyrir, og væri þar nú bygt upp fyrir svo sem 20 þúsund krónur, þá yrði óbúandi á henni, og þá er svo komið, að það er ólán fyrir þá, sem búa á þessari jörð, að hún er ekki þjóðeign lengur.

Jeg býst við, að það skýrist í nefndinni, hvort það er ekki skaði ríkissjóði að gera þessi kaup; vildi jeg þegar benda hv. þdm. á, að það gæti farið svo, að þessi kaup yrðu alls ekki Vestmanneyingum til góðs, og vil jeg í því sambandi minna á, að ef lóðirnar hjer í Reykjavík hefðu verið landsins eign og ekki verið leyft að fara í „spekulationir“ með þær, þá hefði verið minni dýrtíð hjer. Jeg vil t. d. taka lóðina, sem er á móti Landsbankanum, hún hefir stundum verið boðin föl fyrir 100 þús. kr. Það er enginn vafi á því, að sú háa leiga, sem hlýtur að koma á hús, sem bygt er á þessari eign, hlýtur að þyngja á þeim, sem notar það, t. d. sje höfð verslun þar, verður að selja dýrara í þeirri búð, af því að húsgrunnurinn hefir komist í óhæfilega hátt verð. Hjer í Reykjavík er lóðaleiga eitt af því, sem þyngir mest á bænum og ríkissjóði; hjer þarf að borga starfsmönnum ríkisins miklu hærra kaup, vegna dýrtíðar þeirrar, sem hjer er.

Nú veit jeg, að hv. þm. Vestm. (JJós) getur svarað því, að lóðirnar í Vestmannaeyjum gangi í „spekulationum“, eins og þær væru einstakra manna eign, og býst jeg við, að þetta sje að nokkru leyti fyrir handvömm hjá Alþingi og stjórn. Jeg býst við, að það, sem gera þyrfti í þessu, væri að koma því á, að lóðirnar væru bæjar- eða ríkiseign, svo að með lóðirnar yrði aldrei „spekulerað“, heldur að þær væri lágt leigðar, en að öll sú verðhækkun, sem á þær kæmi, lenti aðeins til bæjarfjelagsins eða ríkissjóðs. Jeg vil benda á það, að jeg hygg, að best væri að ríkið hjeldi áfram að eiga lóðirnar, þar sem það leigir þær mjög ódýrt, miðað við leigu hjá einstökum mönnum. Jeg vil þessvegna skjóta því til hv. flm. (JJós), hvort hann geti ekki hugsað sjer, vegna Vestmanneyinga, að breyta frv. í það form, að landið eigi lóðirnar áfram, en að það verði trygt, smátt og smátt, að leigan verði eftir skynsamlegu mati og að ríkissjóður fái þessa leigu, en að henni verði hinsvegar haldið hóflega niðri, til þess að vinna með þeim hætti á móti dýrtíð í Vestmannaeyjum.