08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í D-deild Alþingistíðinda. (3442)

122. mál, útsalaá Spánarvínum í Vestmannaeyjum

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Jeg hefi nú heyrt undirtektir hæstv. forsrh. (JM) um málið, og þær voru ekki öðruvísi en búast mátti við. Út af því, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði, en hann var þá í stjórn, er samningurinn var gerður, þá efast enginn um, að hann hafi viljað takmarka útsölurnar sem mest. Jeg veit ekki, hvað hann átti við með árásum á sig, en vil hjer með fullvissa hv. þm. um það, að þessi fyrirspurn er engin árás á hann. (SE: Jeg skildi það).

Eins og tekið hefir verið fram, eru þessir samningar við Spánverja gerðir af því, að stjórnin sá sig til neydda. Hæstv. forsrh. sagði nú, að það væri raunar ekki tekið neitt fram um það í samningnum, að útsölur ættu að vera í kaupstöðunum, en stjórnin hefði litið svo á, að minna mætti ekki gera. Að útsala á vínum í Vestmannaeyjum hafi verið sett upp mótmælalaust af hálfu kaupstaðarins, mun vera rjett, enda hefi jeg ekki haldið öðru fram. En hafi bæjarstjórn þar ekki hreyft neinum mótmælum, þá mun það vera af því, að hún hefir álitið, að þetta væri óhjákvæmilegt. (Forsrh. JM: Alveg rjett). Ef bæjarstjórn hefði verið sjer þess meðvitandi, að hún gæti komið í veg fyrir, að útsala væri sett þar, þá er líklegt, að hún hefði gert það.

Jeg hlýt að fallast á þœr ástæður, er hæstv. forsrh. bar fram um það, að stjórnin sjái sjer ekki fært að verða við tilmælum Vestmannaeyja um að leggja alveg niður útsöluna, og verð að sætta mig við það í bili. En jeg þakka honum fyrir, að hann er fús á að koma einhverjum hömlum á útsölu vínanna, til þess að fyrirbyggja ofnautn. Jeg býst við því, að þetta mál verði tekið upp af bæjarstjórn Vestmannaeyja og að hún og hæstv. forsrh. geti komið sjer saman um einhverjar reglur, sem verði til bóta.