27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

1. mál, fjárlög 1926

Þorleifur Jónsson:

Jeg sje mjer ekki annað fært en að mæla nokkur orð með brtt. minni á þskj. 235, um að hækka flóabátastyrkinn með tilliti til Hornafjarðarbátsins.

Þegar fjvn. hafði lokið störfum sínum til undirbúnings 2. umr. fjárlaganna, bólaði ekki á neinum tillögum um samgöngur á sjó frá samgöngumálanefnd. Bjóst fjvn. því við, að slíkar till. myndu bíða 3. umr., eins og vant er. En nú hefir komið fram till. frá nefndinni, og jeg hefi jafnframt hlerað, að hún muni taka lítið tillit til Austfjarðabátsins. Þess vegna hefi jeg borið fram þessa brtt. um að bátastyrkurinn verði alls 90 þús. kr., og þar af fái Hornafjarðarbáturinn 10 þús.

Jeg hafði ekki tíma til að bera mig saman við samgöngumálanefnd með till. þessa. En nú sje jeg á tillögum þeim, sem hún hefir komið fram með í nál. sínu, sem nú er nýkomið, að Austfjarðabáturinn situr mjög á hakanum. Er till. mín því fyllilega rjettmæt.

Það er nú auðsætt, að eitt strandferðaskip getur ekki fullnægt öllum þörfum landsmanna. Það verður því að stefna að því að fá annað strandferðaskip í viðbót. En það mætti vera miklu ódýrara en Esja. Hafa minna farþegarými, en meira rúm fyrir flutning. Myndi þetta bæta mikið úr skák, og líklega geta sparað töluvert af þeim styrk, sem flóabátarnir fá nú. Við höfum nokkra reynslu í þessu efni, því að þegar Vestri og Austri gengu, fullnægðu þeir að mörgu leyti samgönguþörfinni. Að minsta kosti voru þá miklu betri samgöngur milli Austfjarða og Hornafjarðar en síðan. Og þannig var víðar með ströndum fram. Jeg býst nú við, að í þetta sinn verði að sitja við það fyrirkomulag, sem verið hefir, að það verði Esja ein, sem annast strandferðirnar. En svo verði einhverjir bátar styrktir til þess að halda uppi ferðum innfjarða og annarsstaðar þar, sem þörfin er brýnust. Að sjálfsögðu verður Borgarnesskipið látið ganga fyrir, þá Djúpbáturinn, Breiðafjarðarbáturinn og jafnvel Skaftfellingar. Þegar svo búið verður að veita þessum skipum þann styrk, sem þau eru ánægð með og þurfa, þá býst jeg við, að fari eins og vant er, að lítið verði eftir handa Austfjarðabátnum.

Í fyrra fjekk jeg hækkaðan bátastyrkinn um 5000 kr. með tilliti til þess, að Hornafjarðarbáturinn gæti fengið ríflegan styrk. En nú veit jeg ekki, hvað hæstv. atvrh. (MG) sjer sjer fært að veita til hans. En verði það ekki meira en 3–4 þús. kr., þá fullnægir það á engan hátt þeim vonum og kröfum, sem gerðar eru. Í fyrra voru veittar 3000 kr. til bátaferða milli Hornafjarðar og Austfjarða. En það var og er alveg ófullnægjandi, eins og allir sjá. Það er ekki nema tæplega 1/10 af því, sem Borgarnesskipið fær, og ekki nema 1/5 af því, sem Ísafjarðarbáturinn fær. Jeg er nú alls ekki að telja þetta eftir þessum skipum. En það sjá allir, að þar sem það er helmingi verri og erfiðari leið milli Hornafjarðar og Austfjarða en sú leið, sem þessir bátar fara, þá verður afleiðingin óneitanlega, að ekki er hægt að fá nema örfáar ferðir fyrir svona lítinn styrk. Verður því mitt hjerað svo að segja samgöngulaust.

Jeg veit nú ekki, hve mikinn styrk stjórnin veitir í ár til samgangna milli Hornafjarðar og Austfjarða, en jeg vona bara, að hann verði meiri en í fyrra. Þó að hann verði lítið eitt meiri, nægir það ekkert. Þá bætir áætlun sú, sem nýbúið er að prenta um ferðir Esju, ekki úr samgönguleysinu fyrir Hornfirðingum. Eftir henni á skipið að koma sex sinnum á Hornafjörð. Á suðurleið 1. maí, og svo ekki fyr en 16. ágúst og síðast 11. október, en þá má telja víst, að hún komi þar ekki, eða a. m. k. mjög óvíst, þar sem sjór og veður er þá farið að spillast.

Jeg hefi nú að gamni mínu verið að athuga, hvort nokkurt hjerað, jafnmannmargt og Austur-Skaftafellssýsla, væri eins illa sett með samgöngur, og hefi komist að þeirri niðurstöðu, að svo mundi ekki vera. Þessu til sönnunar skal jeg telja nokkrar hafnir, þar sem ekki eru þó mannmörg hjeruð. Borgarfjörður eystri fær hjá Eimskipafjelaginu 18 viðkomur, bæði Esju og annara skipa. Vopnafjörður fær líka 18 viðkomur, Þórshöfn 18, Hofsós 14 og Flatey á Breiðafirði 13. Þetta eru þær hafnir, sem skip koma einna sjaldnast á, og á flestum þessum stöðum er miklu færra fólk en í Austur-Skaftafellssýslu. Aftur verður því ekki neitað, að sumar hafnir í Suður-Múlasýslu eru mjög illa settar með samgöngur, eins og t. d. Breiðdalsvík, sem fær aðeins 5 Esjuviðkomur, og Stöðvarfjörður, sem fær 6 viðkomur. Bátur milli Hornafjarðar og Austfjarða bætir þar því vel úr skák. Ætti því öllum að vera ljóst, að mikil nauðsyn er á að styrkja þennan bát, bæði vegna Hornfirðinga og Austfirðinga yfir höfuð.

Það er næsta leiðinlegt að þurfa altaf þing eftir þing að minna hv. þm. á hinar vondu samgöngur, sem Austur-Skaftfellingar eiga við að búa. En það væri í sjálfu sjer ekki neitt, ef þeir gætu nokkurntíma skilið það. En eigi að síður verður það gert þangað til augu þeirra opnast svo, að þeir skilji nauðsynina og bæti úr vandræðum okkar. Jeg hefi átt tal um þessi samgönguvandræði okkar við framkvæmdastjóra Eimskipafjelagsins, og hefir hann viðurkent, að á þessu svæði væri stór glompa í samgöngukerfið. Og sagði hann mjer, að hann hefði lagt til við samgöngumálaráðuneytið, að bát yrði haldið úti milli Hornafjarðar og Austfjarða. Tók jeg svo eftir, að hann hefði gert skriflegar tillögur um þetta og að hævstv. atvrh. (MG) hefði tekið þessu vel.

Eins og jeg hefi margtekið fram, er bráðnauðsynlegt, að bátur gangi milli Hornafjarðar og Austfjarða, þrátt fyrir ferðir Esju, helst frá því í mars og það alt fram í októberlok. Mættu ferðirnar gjarnan vera strjálli um mitt sumarið en vor og haust. Myndi bátur sá hafa mikið að gera, bæði við vöruflutninga og fólksflutninga, því að alhnikið þarf að flytja, bæði af vörum og fólki, í veg fyrir Esju til Austfjarða o. s. frv.

Jeg sje, að hv. samgmn. hefir í nál. frá sínu sjónarmiði skift styrknum, og skal jeg ekkert um það segja, hvort hann sje nægur að því er viðkemur hinum ýmsu bátum. En til Austfjarðabátsins eru 4000 kr. alveg ófullnægjandi. Úr því að Ísafjarðardjúpsbátnum eru ætlaðar 16 þús. kr., en hann á aðeins að ganga um Djúpið, sem ekki getur talist erfitt, þá get jeg ekki búist við öðru en að svo yrði litið á, að bátur sá, er gengi milli Hornafjarðar og Vopnafjarðar, ætti að fá 10 þús. kr., ef þeim samgöngum ætti að vera vel borgið.

Hv. frsm. samgmn. (Svo) skýrði málið frá sjónarmiði nefndarinnar og ljet þess getið, að allra lægsta styrkupphæð til flóabáta, sem komið gæti til mála, væri 83 þús. kr. Jeg býst ekki við því, að háttv. samgmn. hafi neitt út á það að setja, þótt fram kæmi till. um hærri styrk í þessu augnamiði, enda fór háttv. frsm. (SvÓ) vingjarnlegum orðum um till. mína. En að endingu spurði hann mig, hvort jeg vildi ekki taka till. aftur til 3. umr. Jeg býst nú ekki við því, að sú atkvgr., sem nú á að fara fram um samgöngumálin við þessa umr. fjárlaganna, verði fullnaðaratkvæðagreiðsla, og get jeg því vel geymt till. til 3. umr., svo að jeg geti borið mig saman við háttv. samgmn. um hana. En jeg mun fylgja henni fram við 3. umr., þótt hún verði ekki lögð undir atkvæði að sinni. Jeg vænti þess, að þegar þetta mál verður rannsakað óhlutdrægt í samgmn., með fullu tilliti til þarfa landsmanna, þá muni það, sem jeg fer nú fram á, reynast í hæsta máta sanngjarnt, saman borið við styrk til annara báta kringum land.

Mun jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta. Jeg lofaði því að vera stuttorður, enda mun jeg ekkert fara út í aðrar till. Hv. frsm. (ÞórJ) mun tala um þær frá sjónarmiði fjvn.