01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

1. mál, fjárlög 1927

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg vil taka það fram, að mjer finst, satt að segja, þessar aðfinslur hæstv. fjrh. (JÞ) í garð fjvn. næsta barnalegar og öðruvísi en menn eiga að venjast úr þeirri átt.

Eins og hæstv. ráðherra veit, er nefndin kosin með hlutfallskosningu, og eru því nefndarmenn hvergi nærri samstæðir í skoðunum. Auk þess er það tekið fram í nál. um mörg atriði, að það er ekki öll nefndin, heldur meiri hluti hennar, sem stendur að till. nefndarinnar. Mjer finst þess vegna hæstv. fjrh. ekki hafa getað vænst þess, að nefndin stæði betur saman en hún hefir gert og mun gera í þetta sinn. Það var aðeins þetta, sem jeg vildi taka fram fyrir hönd nefndarinnar út af ræðu hæstv. fjrh.