25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Hákon Kristófersson:

Jeg á brtt. við þetta frv. á þskj. 229. Hv. frsm. (JörB) hefir nú farið um þær nokkrum orðum og lýst því, að hv. nefnd gæti ekki fallist á þær. Hún um það, jeg verð að halda því fram, að mín skoðun eigi ekki minni rjett á sjer fyrir því. Hv. frsm. sagði fyrst, að æskilegt væri, að brtt. kæmu fram fyr en við 3. umr. mála. Jeg fæ nú ekki sjeð, hvaðan hann ætti að hafa vald til að takmarka tillögufrelsi manna. (JörB: Jeg þykist ekki hafa það). Þá var líka aths. hv. þm. óþörf. Jeg veit ekki betur en að 3 umr. sjeu hafðar um mál til þess, að þau sjeu sem gaumgæfilegast athuguð og mönnum gefist sem lengstur tími til að koma fram með brtt. sínar. Þess vegna vona jeg, að hv. þm. (JörB) álíti sig ekki stórlega móðgaðan, þótt jeg þykist hafa óbundnar hendur um það, hvenær jeg kem fram með mínar brtt.

Eins og sjá má á þskj. 229, legg jeg til, að í stað 5 kr. komi 3 kr., og til vara 4 kr.; eru það laun oddvita fyrir hvern tug hreppsbúa. Jeg hefi áður bent á, og get nú endurtekið það, að fyrir fáum árum voru oddvitalaunin aðeins 2 kr. fyrir hvern tug. Fyrir skömmu voru þau hækkuð upp í 3 kr. og hefir, að því er jeg veit, ekki bólað á neinni óánægju út af því, að þau væru of lág. Það er vitaskuld rjett hjá hv. frsm. (JörB) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að oft gengur erfiðlega að fá starfhæfa menn, sem vilji taka þetta að sjer. En dettur nú nokkrum lifandi manni í hug, að það hafi þau áhrif á betri menn hvers sveitarfjelags, að þeir sjeu fúsari til að vera oddvitar, ef þeir fái 5 kr. frekar en 4 í laun fyrir hvern tug hreppsbúa? Og þótt aðalstarfið í hreppsnefndum kunni oftast nær að hvíla á oddvita, þá er þó oft margskonar starf á öðrum nefndarmönnum, án þess að þeir fái grænan eyri fyrir. Mjer finst vera dálítið ósamræmi í þessu. Frá mínu sjónarmiði eru þessi störf eins og hver önnur kvöð, sem menn verða að taka að sjer, a. m. k. í 3 ár. Og ef menn mega sjá af tíma sínum til þessara starfa, býst jeg við, að flestum sje jafnljúft að fórna sjer fyrir sitt sveitarfjelag, hvort sem þeir fá krónu meira eða minna fyrir ómak sitt. Þó það komi ekki þessu máli beinlínis við, má þó benda á það til samanburðar sem dálítið hliðstætt dæmi, að fóðurgæslumenn hreppanna hafa aðeins 2 krónur á dag fyrir vinnu sína, og er auðsætt, að það er engin borgun, og væri nærri því viðfeldnara að borga alls ekki neitt. Þó að oddvitalaunin sjeu ekki há, eru þau þó konungleg á móti þessu. — Það, sem mig furðar mest, er, að nú skuli horfið að því ráði að hækka þetta, þó að engin kvörtun sje fram komin um það, að illa sje borgað. Þó er enn undarlegra, að hv. Ed. vill um þetta ganga enn lengra en hæstv. landsstjórn, og háttv. Nd. kannske allra lengst. Í þessu sambandi verð jeg að minnast á brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um, að oddviti skuli fá hundraðsgjald fyrir innheimtu útsvara. Hv. þm. (ÁÁ) gengur eflaust gott til með þessari brtt. sinni, það efast jeg ekki um. En þar fyrir álít jeg, að gengið væri út á mjög hála braut, ef farið væri að greiða innheimtulaun af útsvörum, án þess að innheimtumaðurinn ábyrgðist þá jafnframt greiðslu allra útsvaranna. En eftir frv. og brtt. hv. þm. (ÁÁ) skilst mjer, að engin ábyrgð eigi að hvíla á oddvita um þessa greiðslu, enda væri lítil sanngirni í því. Jeg verð að öllu athuguðu að segja hv. deild það, að mjer er ómögulegt að fylgja þessari brtt. Mjer skildist háttv. frsm. (JörB) láta svo, sem hann vissi þess dæmi, að innheimtulaun væru borguð af útsvörum. Það er nú kannske af því, að jeg er ólögfróður, að jeg veit ekki, hvar er heimild til slíkra útborgana. (Atvrh. MG: í 28. gr.). Í 28. gr., segir hæstv. ráðherra. En sú útborgun hlýtur að vera bundin nánari skilyrðum, sem alment eru ekki fyrir hendi, og því er ómögulegt að ganga út frá þeim. Annars talaði jeg um heimild gildandi laga, en ekki það, sem er í þessu frv. — Þá sagðist hv. frsm. (JörB) þekkja, að oddvitum væru borguð meiri laun en lagaákvæði skipa fyrir. Jeg hefi sama að segja um þetta, að jeg veit ekki um lögmæti slíkra útborgana úr sveitarsjóði og kannast ekki við nema ein fyrirmæli um þetta. Eða kannske þeir hv. herrar laumi þessu líka undir 28. gr. þessa frv.? — Um þessa brtt. mína er hið sama að segja og aðrar till., er jeg flyt; hún byggist á þeirri fylstu sanngirni, sem jeg hefi vit til. Og það vona jeg, hvað sem öðru líður, að ekki verði sagt, að till. mínar sjeu fram bornar af hlutdrægni eða „partisku“ (ef hv. þm. skilja það orð betur), því að sjálfur mætti jeg búast við töluverðum hagnaði af því, ef oddvitalaun hækkuðu. í þessu sambandi vil jeg benda á það, að þó að jeg hafi þessa aðstöðu gagnvart launum oddvita, þá er það ekki af því, að jeg álíti þau í sjálfu sjer of há, heldur af því, að jeg tel hreppana ekki færa um að borga meira, svo og því, að aðrir hreppsnefndarmenn fá enga borgun.

Þá mintist hv. frsm. á brtt. mína við 28. gr. frv. og var henni náttúrlega andvígur. Mjer skildist háttv. allshn. álíta, að næði mín till. framgangi, væri ógurleg hætta á ferðum, er henni hrysi hugur við. Jeg fæ nú ekki sjeð, að þetta sje á neinum rökum bygt. Hjer er ekki verið að draga neitt vald úr höndum sýslunefnda. Jeg vil aðeins trúa hreppsnefndum og hreppsfundum fyrir þeim málefnum, sem ekkert erindi eiga til sýslunefnda og eingöngu varða hreppinn sjálfan. — Hv. frsm. sagði, að betur færi á því að hafa samþykki sýslunefndar í slíkum stórmálum, sem þessi grein talaði um. En þessi viðbára hv. þm. er gersamlega slegin niður af síðustu málsgrein þessarar sömu 28. gr., því að þar er gert ráð fyrir, að lögmætur sveitarfundur geti í þessu efni brotið á bak aftur synjun sýslunefndar. Og hver vill nú halda því fram, að þeim sveitarmálum sje illa til lykta ráðið, sem samþyktir eru gerðar um á lögmætum sveitarfundi, sem rjettilega er til boðað? Þessi ákvæði um samþykki sýslunefndar eru leifar frá gömlum tíma, þegar meiri nauðsyn var slíks eftirlits með málefnum hreppanna. En hinir nýrri tímar fela í sjer, að næsta óþarft er að leita til sýslunefnda með slík mál. — Till. mínar eru ekki fram bornar af því að jeg hafi vantraust á sýslunefndum. Fjarri fer því. En jeg vil leitast við að spara gersamlega gagnslausa skriffinsku. — Jeg þarf ekki að biðja hv. þdm. að lesa 28. gr. frv.; þeir hafa sjálfsagt allir gert það og jafnframt gert sjer ljósa grein fyrir því, að sjálfsagt er, að hreppsfjelagið sjálft hafi æðsta atkvæði í þeim málefnum, sem greinin ræðir um. Enda er svo í greininni eins og hún er orðuð í frv.

Mjer finst merkilegt, að hv. allshn. vill ekki afstýra þeim voða, sem hún sjer í afskiftum manna af málefnum síns eigin sveitarfjelags, með því að fella niður síðustu málsgrein margnefndrar 28. gr. Þar sem nefndin hefir nú ekki gert það, verð jeg að álíta, að aðstaða nefndarinnar hljóti að byggjast á einhverjum öðrum ástæðum en þeim voða, sem brtt. mínar hafa í för með sjer.

Þá er brtt. mín við 30. gr. frv., að greinin falli niður, og til vara, að síðari hluti fyrri málsgr. falli niður. Jeg ætla ekki að fara að þrasa um það við hv. frsm. (JörB), hvort þetta sje rjettmætt. Hv. þdm. verða að gera það upp við sjálfa sig, hvort þeim finst þetta rjettmætt eða ekki. En jeg vil aðeins skjóta fram þeirri spurningu, hvers vegna ekki eru sett tilsvarandi ákvæði um drátt hjá öðrum embættismönnum, ef þessir eiga að gjalda sektir fyrir hann. Hv. frsm. sagði eitthvað á þá leið, að hann vissi ekki til, að þetta ákvæði hafi gefist illa. Það var nú ekki von, að hann vissi það, því að þetta er alveg nýkomið í lög. (JörB: Misskilningur; jeg skal leiðrjetta þetta síðar). Hvaða leiðrjettingar, sem hv. þm. ætlar að koma með, er þetta enginn misskilningur. Jeg hefi ekki sagt neitt um það, að þetta mundi illa gefast í framtíðinni. En það er ólíkt ógeðslegra að hafa svona ógnunarákvæði hangandi eins og sverð yfir höfði manna, ef einhver lítil vanræksla á sjer stað, heldur en það, þótt þeir fái ekki fullkomna greiðslu fyrir allan starfa sinn. Mjer finst það síst sæmandi að hafa lögin þannig, að menn geti búist við þungum búsifjum af þeim. Sumir virðast ganga út frá því, að þessi ákvæði komi aldrei til framkvæmda. En á þá að fara að hafa þau fyrir einskonar grýlur eða ógnun, ef vanræksla kemur fyrir, vanræksla, sem er ef til vill fullkomlega afsakanleg?

Bæði hv. framsögumaður o. fl. hafa gert ráð fyrir því, að slíkum ákvæðum yrði aldrei beitt. Ef svo yrði í framkvæmdinni, sem jeg get líka vel trúað, hvaða þýðingu hefir þá að hafa þessi fyrirmæli í lögunum?

Jeg mun ekki hafa um þetta fleiri orð. Jeg álít, að brtt. mínar eigi fram að ganga og að ekkert sje í þeim, sem grandi öryggi nokkurs manns, hvernig sem á er litið. Legg jeg þær undir dóm hv. deildar. Þá kemur það í ljós, hvort menn meta meira rjettlæti eða ranglæti.