25.04.1927
Efri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forseti (HSteins):

Það hefir verið beiðst úrskurðar forseta um það, hvort ákvæði 1. málsgr. 47. gr. og 2. málsgr. 68. gr. þessa frv. komi ekki í bága við gildandi stjórnarskrá, og af þeim ástæðum beri því að vísa þessum ákvæðum frá. Jeg hefi nú athugað þetta og borið saman við stjórnarskrána, og verður þá úrskurður minn á þessa leið:

Með því að skilja þykir mega ákvæði 1. málsgreinar 47. gr. fyrirliggjandi frv., um að bankastjórar megi ekki vera alþingismenn, sbr. og 2. málsgr. 68. gr., á þá leið, að þau ákvæði eigi ekki við aðra en þá bankastjóra, sem skipaðir verða eftir gildistöku laganna, virðist eftir atvikum ekki ástæða til að vísa þeim ákvæðum frá, og heldur atkvgr. þá áfram.