08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2239)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Mál þetta er í raun rjettri svo ákaflega einfalt og svo lítill ágreiningur um það, að jeg held, að best væri að hafa sem allra stystar umræður.

Hv. frsm. minni hl. (BSt) lýsti ástæðum þeim, er til þess liggja, að hann treystist ekki til að mæla með frv., en jeg get ekki sjeð, að þar kæmu fram nokkur rök á móti málinu. Það væri þá helst, að hann teldi það einskonar óþarfa, að setja lög um þetta efni, og að betra yfirlit fengist um fjárhag landsins með því að hafa sem flestar fjárgreiðslur í fjárlögunum sjálfum, en borga minna eftir 24. gr. þeirra. En það er nú svo, að það er aldrei hægt að gera sjer nokkra hugmynd um fjárhaginn án þess að athuga jafnframt 24. gr. fjárlaganna, því að á hverju einasta ári er það svo fjölda margt, sem greiða verður eftir þessari grein. Það mundi því engu breyta um „yfirlit fjárhagsins“, þótt þetta fje yrði á sinum tíma greitt eftir heimild 24. gr. — Það er líka í fullu samræmi við fyrri gerðir þingsins, að ákveða byggingu þessa húss fyrirfram með lögum. Í lögum frá 1919, um húsagerð ríkisins, er t. d. ákveðið að byggja landsspítala, íbúðarhús á Hvanneyri, viðbót við geðveikrahælið á Kleppi, skólahús á Eiðum og húsmæðraskóla á Norðurlandi, og landsstjórninni heimilað að láta reisa þau svo fljótt sem unt er. Öll þessi hús kosta eflaust miljónir króna samtals, en þó var engin hætta álitin því samfara, að fara þannig að, og meira að segja talið langeðlilegast. Reynslan hefir líka orðið sú, að frekar hefir þurft að ýta á eftir landsstjórninni um þessar byggingar heldur en hitt.

Um það, hvort sjerstök þörf sje á að bæta þessu húsi við, má vitna í, að á þingi 1921 var skorað á stjórnina að undirbúa þetta mál í þál., sem borin hafði verið fram af mentmn. þessarar háttv. deildar. Er því eðlilegt, að stjórnin verði við þessum tilmælum, enda má segja, að hún hafi borið málefnið fram áður, þótt í nokkuð öðrum búningi væri. Í stjfrv. um lærðan skóla, sem lá fyrir hv. deild í fyrra, var t. d. gert ráð fyrir heimavistum fyrir ekki færri en 50 nemendur. Varð jeg ekki var við, að það sætti neinum mótmælum í hv. deild. Þvert á móti virtust allir vera sammála um það ákvæði frv. Nú hefir hæstv. landsstjórn ekki álitið heppilegt að bera fram frv. um lærðan skóla, en aðeins lagt fyrir hv. deild frv. til laga um heimavistir. Verð jeg að telja það fyllilega eðlilegt. Bæði hefir þingið áður lýst yfir vilja sínum um þetta efni, og þeir, sem undirbúið hafa ný lagafrv. um mentaskólann, hafa einnig talið heimavistanna mikla þörf. Má vist telja það viðurkent af öllum, sem um málið hafa hugsað, að full nauðsyn sje á byggingu þeirra. Enda veit jeg ekki betur en að vinir Akureyrarskóla telji það einn af hans helstu kostum, hve góðar heimavistir hann hefir.

Um muninn, sem á því er að samþykkja svona lög og að bíða, þar til fært þykir að koma fjárveitingu í sjálf fjárlögin, langar mig til að benda á eitt atriði. Fjárlögin eru jafnan sett löngu áður en hægt er að sjá með nokkurri vissu, hver afkoma þess árs verður, er þau gilda fyrir. En með slíkum lögum sem þessum er landsstjórninni heimilt að byrja á verkinu, þegar fje er fyrir hendi, og gæti það flýtt ögn fyrir framkvæmdum. Annars skil jeg nú varla, að ástæða sje til að óttast, að svo geist verði farið í þessu máli, að þingið komist ekki að með fjárveitingar í fjárlögum, ef það hefði löngun til. Það getur meira að segja verið full ástæða til að samþykkja svona frv., þó að menn byggjust við harðæri. Þá getur oft verið nauðsyn á, að hið opinbera leggi út í einhverjar atvinnubætur. Gæti t. d. verið mjög heppilegt að byrja þá á ýmsum undirbúningi undir verkið, svo sem að grafa fyrir húsinu og viða að efni.

Fyrir alla þá, sem vilja, að heimavistir komist upp við mentaskólann sem fyrst, er einsætt að fylgja þessu frv. Vil jeg þó ekki væna hv. minni hl. um að sitja á neinum svikráðum við málið, en jeg sje ekkert unnið við að samþykkja dagskrártill. hans.

Hv. frsm. minni hl. (BSt) sagðist hafa frjett, að frv. þetta hefði ekki verið borið undir rektor eða kennara mentaskólans. Má vel vera, að það sje rjett, en ákvæðið um heimavistir var í stjfrv. um lærðan skóla í fyrra, og um það fengu rektor og kennarar að fjalla. Það er ekki eins og það sje einhver spánný tillaga, að fara fram á stofnun heimavista. Og jeg veit ekki hverjum hefir verið það meira áhugamál en einmitt rektor og kennurum skólans. Og þó að þeir legðu á móti því — sem ekki kemur til nokkurra mála — held jeg, að ekki kæmi til nokkurra mála að taka þau mótmæli til greina. Þegar farið verður að ræða um fyrirkomulag heimavistanna, er vitanlega sjálfsagt að leita álits hjá kennaraliði skólans, en það liggur ekki hjer fyrir.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) flytur brtt. um það, að binda heimildina ekki endilega við núverand lóð mentaskólans. Meiri hl. mentmn. hefir ekki haft tækifæri til að bera sig saman um þetta atriði, og get jeg því ekkert um það sagt fyrir hans hönd. En í fljótu bragði get jeg ekki sjeð ástæðu til annars en að fallast á þessa brtt.; jeg býst við, að húsið verði bygt þarna hvort sem er, því að þetta er heppilegur staður.

Hv. frsm. minni hl. (BSt) sagði, að það væri unnið með því að samþ. dagskrártill. hv. minni hl., að þá hefði deildin lýst yfir, að hún væri málinu hlynt. En það hefir hún gert svo margsinnis áður, og getur nú gert það enn betur en nokkru sinni fyr með því að samþykkja frv. sjálft.

Leyfi jeg mjer því að mælast til þess við hv. deild, að hún felli hina rökstuddu dagskrá.