17.02.1927
Neðri deild: 8. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í C-deild Alþingistíðinda. (2966)

26. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Kröfurnar í baráttunni fyrir þingræðinu hafa hjer sem annarsstaðar bygst á því, að þjóðin sjálf, allir fulltíða menn hennar, ætti að ráða málum sínum. Þá fyrst er lýðræði komið, er fulltrúar flokkanna á þingi þjóðarinnar eru í rjettu hlutfalli við þann fólksfjölda, er hefir kosið þá. Aðeins þannig getur þjóðin sjálf skipað sína eigin stjórn.

Í stjórnarskrá Íslendinga er ekki lýðræði í þeirri merkingu, sem forgöngumenn þess mundu ætlast til. Að sumu leyti stafar þetta af breytingum í atvinnuvegum þjóðarinnar, en að nokkru er það meinsemd, sem komin er af röngum grundvelli undir skipun kjördæma.

Þessu frv. er ætlað að ráða bót á þessum helstu göllum á núverandi skipulagi kosningarrjettarins og tryggja lýðræðið í landinu. Aðalefni þess er, að komið verði á almennum og jöfnum kosningarrjetti; allir fulltíða menn hafi kosningarrjett án tillits til þess, hvort þeir hafi þegið af sveit, ef þeir eru ríkisborgarar og hafa verið búsettir í landinu í eitt ár. Með þessu móti verður kosningarrjetturinn almennur. Jafn verður hann, ef landið verður gert að einu kjördæmi í stað hinna mörgu, sem nú eru, og hlutfallskosningar hafðar. Þá verður þingið betra verkfæri í hendi þjóðarinnar til að koma fram vilja hennar, og þó verður það enn betur trygt með því, að æðsta atkvæði um ýms málefni liggi hjá þjóðinni sjálfri.

Þá eru í frv. ýms minni háttar atriði, svo sem afnám á undanþágum frá friðhelgi þingmanna, að þingið verði ein málstofa og þingmönnum sje fækkað, ákvæðið um, að milliríkjasamningar sjeu birtir, breyting á ákvæðum um eignarrjettinn og loks, að almennar kosningar eigi fram að fara árið 1929.

Jeg vil athuga þessar breytingar nokkru nánar. Fyrst verður fyrir hinn almenni og jafni kosningarrjettur. Hjer á landi eru nú um 10 þús. manna, sem hafa myndu kosningarrjett í flestum nágrannalöndum vorum, en hafa hann eigi hjer. Það eru þeir, sem þegið hafa af sveit, og þeir, sem fullveðja eru orðnir, en hafa enn ekki náð 25 ára aldri.

Í upphafi mun ákvæðið um missi kosningarrjettar fyrir að þiggja af sveit hafa komist inn í stjskr. sakir þess, að menn hafa álitið, að styrkþegar væru ónytjungar einir og mannleysur. Hjer liggja nú fyrir framan mig skýrslur um fátækraframfæri í Reykjavík árið 1925, um 622 styrkþega utan- og innan-bæjar, sem samtals voru veittar 419 þús. kr. — Fátækrafulltrúarnir hafa rannsakað nákvæmlega ástæðurnar fyrir hverri styrkveitingu, og er niðurstaða þeirra þessi: Vegna elli fengu styrk 15%, heilsuleysis 29%, ómegðar að mestu leyti hjá giftu fólki 38%; til fráskilinna kvenna fóru 4% og af öðrum ástæðum 14%. Mjög svipað þessu mun vera annarsstaðar um landið. — En einn liður er ekki sjerstaklega talinn í þessum skýrslum, þótt alment sje viðurkent, að mönnum verði þar ekki sjálfum á sök gefin, og er það atvinnuleysi. Af þessum sjöunda hluta af „öðrum ástæðum“ er langoftast um atvinnuleysi að ræða; mun ekki um of í lagt, þótt sagt sje, að 10–12% styrkþeganna sjeu það sakir atvinnuleysis. Já eru ekki eftir nema mjög fáir, 2–4% — eða segjum 4–6% — sem hafa þegið styrk sökum drykkjuskapar, ónytjungsskapar eða annarar óreglu. Hitt er alt af ástæðum, er menn ráða ekki við sjálfir, elli, heilsuleysi og ómegð. Er nú nokkurt vit í því að svifta 94–96 menn kosningarrjetti til þess eins, að 4–6 menn fái ekki að njóta hans? Og er nokkru meiri ástæða til að svifta þá menn kosningarrjetti, sem þiggja af sveit sökum ónytjungsskapar, heldur en hinn hópinn, sem drekkur og svallar eða lifir í iðjuleysi, en liggur uppi á ættmennum sínum og kemst þannig hjá sveit?

Það er svo að sjá, sem stjórnarskráin álíti, að fátækt sje glæpur. En af þessum skýrslum, sem jeg hefi lesið upp, má sjá, að fátæktin er þjóðarmeinsemd, sem menn rata oft í af óviðráðanlegum ástæðum. Það má kallast tilviljun, hver fátækur er. Því er það algerlega óverjandi að halda þessum mönnum frá áhrifum á löggjöfina, þessum mönnum, sem mest ríður á umbótunum. Það er og vitanlegt, að með þjóð inni verða kröfur um þetta sífelt háværari.

Hitt atriðið, sem með þarf, til þess að kosningarrjeturinn verði almennur, er, að allir fullveðja menn fái kosningarrjett. Nú munu vera um 7 þús. manna, sem ekki hafa kosningarrjett, þótt þeir sjeu fullveðja, af því að þeir eru ekki orðnir 25 ára. Þetta ákvæði, um 25 árin til kosningarrjettar, er leifar frá þeim tíma, er menn þurftu þann aldur til að vera fullveðja. Nú, þegar stjórnarskrárbreytingar standa fyrir dyrum, er ekki verjandi að varna þessum mönnum rjettar síns lengur. Í því er ekkert samræmi, að menn, sem mega stjórna stórum fyrirtækjum, fái ekki að kjósa fulltrúa á Alþingi, enda er nú svo komið í flestum nágrannalöndum vorum, að kosningarrjettur er miðaður við 21 árs aldur. — En um nokkurn hluta þingsins keyrir þó úr hófi, þar sem 35 ára aldur þarf til kosningarrjettar til landskjörs. Það er hlægilegt, að á þingi sitja nú a. m. k. 5 menn, sem ekki eru álitnir þess verðugir að mega taka þátt í þeim kosningum. Hvað skyldi það vera, sem gerir mennina svo mjög vitrari og betri á þessum 10 árum, frá 25 til 35 ára?

Þá er enn eitt atriði, sem að vísu er minna um vert. Það er að færa búsetuskilyrði ríkisborgaranna til þess að njóta kosningarrjettar úr 5 árum í eitt. Jeg geri ráð fyrir, að sjálfstæðismenn hafi komið þessu í stjskr., til að varna þess, að Danir þyrptust inn í landið. En það hefir sýnt sig, að engin ástæða er til að óttast neitt þvílíkt, og vænti jeg því þess, að jafnvel þeir, sem komu inn þessu, ákvæði, geti nú fallið frá því. Ef kosningarrjettur á að vera hjer almennur, er nægilegt, að íslenskur ríkisborgari sýni, að hann vilji setjast að í landinu, en til þess er eitt ár nógu langur tími.

Þá er hitt atriðið ekki síður merkilegt, að kosningarrjetturinn verði jafn, þ. e. a. s., að hver einstaklingur þjóðfjelagsins fái jafnan kosningarrjett við hina. Orsökin til þess ójafnaðar, sem nú er kominn á í þessum efnum, er, að þjóðarhagirnir hafa breyst svo mjög, síðan þetta ákvæði kom inn í stjórnarskrána. Þá mátti heita, að allir landsmenn lifðu af landbúnaði og í sveitum, og er kjördæmaskiftingin enn bygð á þeim grundvelli. Síðan hefir sjávarútvegur og vaxandi verslun og iðnaður dregið menn til kaupstaðanna, svo að nú lifir rúmur helmingur landsmanna í kaupstöðum og kauptúnum. En kjördæmaskipunin hefir ekki breyst að sama skapi. Nú er svo komið, að Reykjavík hefir t. d. ekki nema helming þeirra þingmanna, sem hún ætti heimting á eftir fólksfjölda, en við annað verður ekki miðað. Það er ekki hægt að kjósa svo og svo marga þingmenn eftir fjölda nautgripa í kjördæminu eða fyrir báta í því o. s. frv., heldur verður að miða við mannfjöldann og hann einan. — Aftur á móti eru nú ýms kjördæmi, svo sem Austur-Skaftafellssýsla, Norður- Múlasýsla o. fl., sem hafa hlutfallslega alt of fáa kjósendur til þess að eiga rjett á sjerstökum þm.

Hægt er að hugsa sjer ýmsa möguleika til að bæta úr þessu ástandi. Þá er fyrst að halda áfram einmennings- og tvímennings-kjördæmunum, en með breyttum „landamærum“. Þessi leið gæti áreiðanlega ekki talist heppileg, því að sakir flutnings landsmanna úr einum stað í annan við breytt atvinnuskilyrði, mundi brátt sækja í sama horfið aftur. Á fám árum getur lítið kauptún verið orðið fjölmennur bær, og þá kemur gamla ranglætið á ný. — Af öðrum tillögum má t. d. nefna tillöguna um að skifta landinu í fjörðungakjördæmi, sem mig minnir að Hannes Hafstein hjeldi fram. Þá áttu innan þessara fjórðunga að vera hlutfallskosningar, og væri það stórt spor í rjetta átt. Innan hvers fjórðungs hefðu kjósendur altaf jafnrjetti, en flutningur gæti átt sjer stað í stórum stíl milli fjórðunganna, og gætu þeir þannig orðið misjafnlega rjettháir.

Til að forðast þessa galla er aðeins eitt ráð óbrigðult: að gera alt landið að einu kjördæmi, eins og nú á sjer stað t. d. á Írlandi. Þá stæði á sama um alla fólksflutninga innanlands. Hver kjósandi hjeldi jafnan sínum fulla rjetti gagnvart hinum, og hver flokkur kæmi mönnum á þing í rjettu hlutfalli við fylgi sitt í landinu.

Jeg býst við, að þetta landkjör verði ekki vinsælt hjá sumum hv. þm., sem hafa komist að sakir þess eins, að þeir eru að góðu kunnir í sínum hreppi. En með hinni nýju tillögu kæmu þeir einir til mála sem þingmenn, sem kunnir eru á stórum svæðum í landinu. Væri það trygging fyrir því, að hæfari menn væru kosnir. Þeir yrðu að standa reikningsskap gerða sinna frammi fyrir öllum almenningi, og mundi við það hreppapólítíkin hverfa.

Hverjir eru það, sem gjalda hins rangláta skipulags, sem nú er? Það stendur í greinargerð. frv. míns, og get jeg, ef óskað er, sýnt það reikningslega, að ef Alþýðuflokkurinn hefði sínum atkvæðum heppilega skift á kjördæmin, gæti hann náð meiri hluta í þinginu. Þetta sýnir það, að flokkur — sem hefir t. d. aðeins einn þriðja eða hluta atkv. í landinu — getur ráðið öllu, ef atkvæði hans eru í minstu kjördæmunum, en sá flokkur, sem meiri hluti landsmanna fylti, fengi engu ráðið. — Eins og nú er skipað, hefir Alþýðuflokkurinn aðeins tvo fulltrúa á Alþingi!!

Ef athugað er landkjörið í sumar, ætti Alþýðuflokkurinn að eiga 10 þingsæti. Þó hafa 35 ára menn og eldri einir kosningarrjett þar. En það er vitanlegt, að mest fylgi eiga jafnaðarmenn meðal yngri manna, frá 21–35 ára.

Það eru því kaupstaðabúar og einkum verkalýðurinn, sem geldur þessa rangláta skipulags. Með núgildandi stjórnarskrá er níðst á þeirri stjett manna. Ástandið hjer minnir á það ástand, sem var á Englandi nálægt 1830, þótt það væri enn verra. Af breytingu atvinnuveganna þar í landi var kjördæmaskipunin orðin þannig, að á einum stað kusu 21 kjósandi þingmann og á öðrum jafnvel einir 7 menn. Þetta leiddi auðvitað til margskonar ranglætis og spillingar, eins og uppboðs á atkvæðum í þessum litlu kjördæmum. Urðu þar miklar deilur út af kosningarrjettarmálinu, því að hin ráðandi stjett vildi ekki sleppa völdum sínum, sem á ranglætinu bygðust. Það var ekki fyr en lá við byltingu, að þessu var breytt.

Eftir frv. er ætlast til, að Alþingi sje ekki nema ein málstofa í stað tveggja, svo sem nú er. Tvær málstofur hafa víðast á þingum verið í upphafi þingræðisins og þá verið ætlast til þess, að efri deildin í hverju þingi hjeldi í við neðri deildina. Yfirráðastjettirnar, konungsvald eða aðall o. fl., sem orðið hafa að láta undan síga fyrir þingræðinu, hafa komið ár sinni fyrir borð, hjer sem annarsstaðar, að þær fengju neitunarvald í efri deild þingsins, eins og átti sjer stað fyrrum hjer, er hinir konungkjörnu þingmenn í efri deild áttu að stöðva framgang mála frá neðri deild, ef þau mál voru ekki svo vaxin sem yfirráðastjettinni, þá útlenda valdinu aðallega, líkaði. En á móti þessu skipulagi hafa lýðræðissinnar í öllum löndum barist og krafist þess, að neðri deild Alþingis rjeði ein, en efri deild hyrfi; þingið yrði ein málstofa, og er það nú víða í Norðurálfunni.

Hjer á landi hefir það oft og tíðum sýnt sig, að efri deild Alþingis hefir stöðvað framgang þeirra mála, er þjóðin sjálf hefir óskað að fram næðu að að ganga, og þó enn oftar tafið eða skemt málin.

Fækkun þingmanna verður og auðveldast að koma í framkvæmd, þegar ákveðið er, að Alþingi skuli aðeins vera ein málstofa. Jeg legg reyndar ekki mjög mikla áherslu á þetta atriði út af fyrir sig, en jeg hefi þó stungið upp á því, að með þessu fyrirkomulagi skuli þingmenn vera 25, og hefi jeg valið þar staka tölu, svo að altaf geti verið hreinn meiri hluti í þinginu, en flokkarnir ekki „vegið salt“.

Samkvæmt stjórnarskrám margra landa Norðurálfu, eru þingmenn friðhelgir algerlega, en samkvæmt gildandi stjórnarskrá hjer á landi getur meiri hluti þingsins, hvenær sem er, leyft að draga þingmenn fyrir lög og dóm. Hvar er þá friðhelgi þingmanna? Jeg sje enga ástæðu til þess að halda í þetta ákvæði, og allra síst, þegar núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) reyndi einu sinni að fá beitt undanþágunni frá því, að þingmenn væru friðhelgir, með því að sækja um leyfi þingsins til þess að hefja mál á móti þingmanni fyrir ummæli, er hann hafði látið falla í þingræðu, heimta hann framseldan í þinginu. (TrÞ: Hlutaðeigandi þingmaður óskaði sjálfur eftir málshöfðun.) Sjest af þessu, hvers mætti vænta í þessu efni, ef Íhaldsflokkurinn hefði meiri hluta á þingi. Jeg álít, að þetta fyrirkomulag sje ótrygt og þurfi bráðra bóta. Alþingi á að vera sá vettvangur, þar sem hver maður getur sagt og má segja afdráttarlaust sannleikann, án þess að hann verði þar fyrir dreginn fyrir lög og dóm.

Þá vil jeg minnast á ákvæðið um það, að milliríkjasamningar skuli birtir, svo að alþjóð viti jafnan, hvað verið er að gera fyrir hennar hönd. Reynsla erlendra ríkja sýnir í þessu efni, að sje hægt að gera samninga í laumi, þá sjeu oft og jafnvel oftastnær í þeim þau ákvæði, sem eru í trássi við þjóðarviljann og jafvel til stórtjóns fyrir alþýðuna í landinu. Þau lönd, sem í þjóðabandalaginu eru, eru skyld til þess að birta opinberlega alla milliríkjasamninga sína. Hjer er því ekki farið fram á annað en það, sem nú er heimtað af flestum þeim þjóðum, sem heiðarlegar vilja teljast um viðskifti við aðrar þjóðir.

Þá kemur að ákvæðinu um eignarrjett einstaklingsins. Núgildandi stjórnarskrá mælir svo fyrir, að enginn sje skyldur að láta af hendi eign sína, nema fult verð komi fyrir. Með þessari brtt. minni ákveður Alþingi, hvaða verð skuli goldið, ef eignarnám er framkvæmt. Þessi breyting er rjettmæt, því að oft má taka tillit til fleira en þess, er matsmenn ákveða. Almenningsþörfin setur og hlýtur ávalt að setja í stjskr. takmörkin fyrir eignarrjetti einstaklinganna. En fulltrúaþing þjóðarinnar metur, hvenær eignarrjettur einstaklinga brýtur í bág við almenningsheill, og þá er Alþingi rjetti dómstóllinn um, hvaða endurgjald skuli greiða fyrir eignarnám, enda ætti því best að vera trúandi til að gera rjett í málinu, ef það er sannur spegill þjóðarviljans.

Síðasta atriðið í brtt. mínum, er máli skiftir, er þess efnis, að þjóðaratkvæði um hvaða þingmál sem er skuli fram fara, hvenær sem 3500 kjósendur óska þess. Í ýmsum lýðfrjálsum löndum gilda slík ákvæði eigi einungis um þau mál, er heyra undir þing og stjórn, heldur einnig um þau mál, er heyra undir bæja- og sveitastjórnir. Jeg skal til dæmis nefna það, að svo er þessu háttað í Sviss og Ástralíu, og jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að svona sje það í Finnlandi líka. Slíku ákvæði er vitanlega ekki beitt, nema um stórmál sje að ræða. Þjóðaratkvæði þekkist nú hjer í stjórnarskránni um breytingu á sambandslögunum og hefir verið beitt um bannlögin, en hjer er lengra gengið, þar sem kjósendunum er leyft frumkvæði um atkvæðagreiðslu um málin, ef þau eru þingmál. Styðst þetta við það, að meiri hluti þjóðarinnar eigi að ráða fram úr stærstu vandamálunum og hafa æðsta úrskurðarvaldið þar, eins og í fornöld var hjá öllum germönskum þjóðum. Þetta ákvæði miðar að því, að styrkja lýðræðið í landinu og er holt aðhald fyrir þingmennina, til þess að nota ekki umboð sitt til að greiða atkvæði á þingi þvert ofan í vilja kjósendanna.

Ákvæði frv. um, að almennar kosningar skuli fram fara 1929, þarf jeg ekki að skýra. Nái till. mínar fram að ganga, þá er ekki nema sjálfsagt, að þeir, sem fá kosningarjett samkvæmt þeim, fái sem fyrst að njóta hans.

Áður en jeg skil við þetta mál, vil jeg minnast örfáum orðum á frv. það til stjórnarskrárbreytinga, sem hæstv. stjórn ber nú fram í hv. Ed., og verð jeg þá fyrst að lýsa yfir því, að jeg undrast stórlega, að slíkt frv. skyldi eigi vera borið undir hv. Nd. fyrst. Það er ákveðið, að stærstu mál hvers þings, svo sem fjárlagafrv. og fjáraukalagafrv. skuli fyrst berast fram í Nd. Stjórnarskráin er það stórmál, að hún er á borð setjandi með hinum stórmálunum, og hefði því að sjálfsögðu átt að leggjast fyrst fyrir þessa hv. deild, er hefir meiri hluta fulltrúa þjóðarinnar á að skipa, enda þótt það sje hvergi lögboðið, að stjskr. skuli fyrst lögð fram í hv. Nd. Alþingis. En svo að jeg hverfi frá þessu, þá vil jeg geta þess, sem rjett er, að þetta frv. hæstv. stjórnar er í einu og öllu gagnstætt frv. því, sem jeg ber hjer fram. Frv. hæstv. stjórnar fer fram á það, að draga úr valdi þjóðarinnar gagnvart Alþingi og draga úr valdi og áhrifum þingsins gagnvart stjórninni. En frv. það, sem jeg hefi lagt fram, er til þess að auka vald þjóðarinnar gagnvart þingi og stjórn og koma inn í stjórnarskrána mannrjettindakenningum nútímans.

Það sje fjarri mjer að halda því fram, að frv. mitt sje fullkomin breyting á stjskr., eins og verður, er jafnaðarstefnan sigrar. Það er borið fram til þess, að lýðræðiskenningarnar, sem við jafnaðarmenn, ásamt ýmsum frjálshuga mönnum aðhyllumst, komist inn í stjórnarskrána. En ætti að breyta stjórnarskránni að öllu leyti í samræmi við stefnuskrá og kenningar jafnaðarmanna, þá þyrfti mörgu fleira að breyta en hjer er gert.

Jeg skal engu spá um það, hverjar undirtektir eða afdrif þetta frv. fær hjer í þessari hv. deild, en sannfærður er jeg um það, að flestar brtt. mundu samþyktar verða með þjóðaratkvæði, ef það rjeði. Víst er það og, að frv. þetta vísar veginn, sem farinn verður síðar í stjórnarskrármálinu.

Eftir meðferð málsins í hv. Ed., sem hefir kosið sjerstaka nefnd í það, vil jeg leggja til, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og sjerstakrar nefndar, skipaðri 7 mönnum.