09.03.1927
Efri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (3172)

70. mál, rannsókn á akvegarstæði

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg get verið hv. flm. þessarar till. þakklátur fyrir að hafa komið fram með hana, því með því hafa þeir að nokkru leyti tekið af mjer ómak.

Á Alþingi 1925 bárust mjer tilmæli frá bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar um það, að jeg hlutaðist til um, að Alþingi legði fyrir stjórnina að láta rannsaka á komandi sumri vegarstæði milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshjeraðs og gera jafnframt áætlun um kostnað við að leggja akveg þar á milli.

Jeg átti þá þegar tal um málið við hæstv. atvrh., sem tók vel í, að rannsókn yrði framkvæmd.

Skrifaði jeg því næst atvinnumálaráðuneytinu brjef, dags. 11. apríl 1925, og beindi þeirri fyrirspurn til þess, hvort bæjarstjórnin myndi ekki mega vænta þess, að rannsóknin og kostnaðaráætlunin yrði framkvæmd sumarið 1925, þótt engin þáltill. þar að lútandi lægi fyrir. Þessu brjefi mínu svaraði atvinnumálaráðuneytið 9. maí 1925 á þá leið, að vegamálastjórinn eða aðstoðarmaður hans myndu athuga þetta vegarstæði þá um sumarið, þegar færi gæfist. Þetta svar ljet jeg mjer svo nægja.

Á síðasta þingi fjekk jeg svo að vita, að rannsókn þessi hefði ekki farið fram sumarið 1925, og að engin kostnaðaráætlun hefði heldur verið gerð. En þá var aftur talið sjálfsagt, að rannsóknin færi fram sumarið 1926.

En þrátt fyrir þetta mun engin ábyggileg rannsókn á vegarstæðinu hafa farið fram síðastliðið sumar. Hefði jeg því orðið að bera fram þáltill. um málið á þessu þingi, ef hv. flm. hefðu ekki borið fram till. á þskj. 103.

Áhugi manna á Seyðisfirði fyrir málinu fer mjög vaxandi. Verslunarmannafjelagið þar tók það fyrst að sjer og skipaði nefnd í það. Þessi nefnd skilaði ítarlegu nefndaráliti, sem fjelagið fjelst á. Gekst það síðan fyrir því, að almennur borgarafundur var haldinn um málið nú í vetur. Skoraði sá fundur svo aftur á bæjarstjórnina að beitast fyrir málinu. Bæjarstjórnin tók það síðan fyrir á fundi, og hefir nú snúið sjer til mín með kröfur sínar. Fer hún ekki aðeins fram á, að vegarstæðið á Fjarðarheiði verði athugað næsta sumar og áætlun gerð um kostnað við byggingu akbrautar yfir hana, heldur fer hún líka fram á, að veitt verði fje í fjárlögum fyrir 1928 til vegarins.

Skjöl þessa máls hefi jeg lagt fram í lestrarsal Alþingis, og nú eru þau hjá hv. fjvn. Nd. til athugunar. Jeg tel hinsvegar þáltill. eins og hún liggur fyrir nú óþarflega víðtæka og er hræddur um, að það verði til að tefja framgang málsins. Hún fer fram á, að rannsakað verði vegarstæði bæði yfir Fjarðarheiði og Vestdalsheiði, og að áætlun verði gerð yfir kostnað við byggingu akbrautar yfir þær báðar.

Það eru nú fyrst og fremst engin líkindi til, að vegarstæði yfir Vestdalsheiði myndi reynast betra en yfir Fjarðarheiði, síst ef ætlast er til, að vegurinn liggi niður að Eiðum. Þegar um það hefir verið rætt að leggja akveg yfir Vestdalsheiði, hefir verið gengið út frá því, að hann komi niður Hjeraðsmegin við Tókastaði, en sá bær er nokkuð langt fyrir innan og ofan Eiða, svo vegur að Eiðum þessa leið mun vera lengri en frá Seyðisfirði yfir Fjarðarheiði að vegamótum Austurlandsvegar og akbrautarinnar yfir Fagradal.

Vestdalsheiði er, ef jeg man rjett, að minsta kosti 200 fetum hærri yfir sjávarmál en Fjarðarheiði, og enginn vafi er á, að viðhald akvegar yfir hana yrði miklu dýrara en viðhald vegar yfir Fjarðarheiði, sem er flöt brúna á milli.

Eftir vegalögunum frá 1924 telst vegurinn yfir Vestdalsheiði til fjallvega, en vegurinn yfir Fjarðarheiði til þjóðvega. Og samkvæmt vegalögunum hvílir ekki önnur skylda á ríkissjóði, að því er fjallvegi snertir, en að þeir sjeu gerðir reiðfærir og varðaðir, sem nauðsyn ber til. Hinsvegar má samkvæmt þeim gera þjóðvegakafla akfæra á kostnað ríkissjóðs, þegar það er álitið gagnlegt, og ef sjerstakar ástæður eru fyrir hendi, gegn framlagi á ákveðnum hluta kostnaðarins frá hlutaðeigandi sveitarfjelögum eða sýslufjelögum.

Þess er því síst að vænta, að Alþingi myndi fáanlegt til þess að leggja fram nokkra verulega upphæð til akvegar yfir Vestdalsheiði, en Austfirðingum væri um megn að leggja veginn að mestu á sinn kostnað. Hinsvegar er ríkissjóði skylt að kosta akveg yfir Fjarðarheiði, því enginn vafi getur leikið á því, að sá vegur er nauðsynlegur, bæði fyrir Seyðisfjarðarkaupstað og Fljótsdalshjerað, og ný rannsókn mun sýna, eins og rannsókn Sigurðar Thoroddsens verkfræðings, sem gerð var nokkru eftir síðustu aldamót, að vel er gerlegt og hlutfallslega ekki dýrt að leggja akveg yfir heiðina og halda honum við.

Þá er og þess að gæta, að væntanlegur akvegur yfir Fjarðarheiði kemst í samband við Fagradalsbrautina og Austurlandsveginn, sem aftur stendur í sambandi við Norðurlandsveginn, en hann við Vesturlandsveginn, sem nær að vegamótunum við Ártún í Mosfellssveit. Akvegur yfir Vestdalsheiði myndi hinsvegar ekki komast í samband nema við sýsluveginn um Eiðaþinghá og hreppavegi og því vera allsendis ófullnægjandi, bæði fyrir Seyðisfjarðarkaupstað og Fljótsdalshjerað.

Loks myndi rannsókn á tveim leiðum og tvær kostnaðaráætlanir verða helmingi dýrari fyrir ríkissjóð en á annari leiðinni og spurning um, hvort hægt væri að framkvæma undirbúninginn á næsta sumri, ef um báðar leiðirnar væri að ræða. Hinsvegar er enginn vafi á því, að hægt er að rannsaka aðra heiðina á einu sumri og útbúa kostnaðaráætlun um verkið.

Af þessum ástæðum hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt. á þskj. 116, sem fer í þá átt, að rannsóknin nái aðeins til Fjarðarheiðar. Vænti jeg þess, að henni verði vel tekið af hæstv. stjórn, flm. þáltill. á þskj. 103 og af hv. deild og tekin til greina af hæstv. stjórn, svo að frekari dráttur verði ekki á þessu máli.