09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Vegna þess, að hv. 1. landsk. (JJ) er eindreginn andstæðingur minn, þá þykir mjer vænt um, að hann hefir nú lýst afstöðu sinni til skattamálanna fyrir þessari hv. deild á þá leið, að hann vill lækka toll á munaðarvörum, svo sem tóbaki og vínföngum, en kvartar um leið undan því, að lækkaður var tollur á öðrum eins nauðsynjavörum og kolum og salti. Og jeg get sagt honum það, að jeg er alveg eins ánægður með mína afstöðu í þessu efni eins og hann með sína afstöðu.

Um lækkun útflutningsgjalda af landbúnaðarafurðum, eða það frv., sem kom fram um það efni, er það að segja, að það kom í bág við þann samning, sem gerður var um tekjur ræktunarsjóðs í hitteðfyrra og kostnað við varðskipin. Þá var af hálfu nefndar í þinginu borið fram frv. um að hækka útflutningsgjaldið úr 1% í 11/2%, og það væri ekki rjett að ganga á þann samning.