02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Sigurðsson:

Eins og tekið hefir verið fram og öllum mun kunnugt, skrifuðum við hv. þm. Borgf. undir nál. fjvn. með fyrirvara.

Það mun nú þykja hlýða að gera nokkra grein fyrir þessum fyrirvara frekar en gert er í nál., og það því fremur, sem annað stjórnarblaðið í höfuðstað landsins hefir gert hann að umtalsefni og skipað okkur í flokk fjárglæframanna þessa lands. Því frekar er og ástæða til þess, þar sem hæstv. fjmrh. hefir gert fyrirvara okkar að umtalsefni í síðustu ræðu sinni.

Fyrirvari okkar hv. þm. Borgf. er svo til kominn, að hv. meiri hl. fjvn. hefir samkv. tilmælum hæstv. stjórnar lýst því yfir, að hann mundi beita sjer á móti auknum samgöngubótum, þar til sjeð yrði, hvernig færi um tekjuaukafrv. stjórnarinnar. — Við Íhaldsmenn í fjvn. höfum ekki getað aðhylst þessa stefnu. Tekjuaukafrv. stjórnarinnar eru svo skamt komin, að tæplega verður sjeð um afdrif þeirra fyr en í þinglok.

Þegar litið er yfir fjárlagafrumvarp hæstv. stjórnar, rekur maður strax augun í það, að þar er miklum mun minna ætlað til verklegra framkvæmda og samgöngubóta heldur en í núgildandi fjárlögum. Til nýbygginga — jeg á þar við verklegar framkvæmdir til samgöngubóta, vega, brúa, vita, lendingabóta og slíks — eru áætlaðar 810 þús. kr. í núgildandi fjárlögum, en í stjfrv. 515 þús. kr. Það er með öðrum orðum tæpum 300 þús. kr. minna, sem hæstv. stjórn vill veita til þessara samgöngubóta. Allar þessar framkvæmdir verða að teljast bráðnauðsynlegar. Af þessari upphæð eru sveitirnar sviftar 200 þús. kr. Ef sveitabændur víðsvegar á landinu væru spurðir, hvers þeir óski helst, að fje sje veitt til úr ríkissjóði, þá mundu þeir nær undantekningarlaust svara: vegir, brýr, símar! Fyrir þessu er sjerstaklega áhugi í sveitunum. Og það er næsta eðlilegt; samgöngur á sjó hafa umskapast svo algerlega á síðustu 50 árum, að fáa mun hafa órað fyrir slíkri breytingu. Sjest það best, ef samgöngurnar nú eru bornar saman við samgöngurnar umhverfis land í kringum 1850, þegar sending hjeðan úr Reykjavík varð fyrst að bregða sjer til Kaupmannahafnar til þess að komast sem greiðlegast í hendur viðtakanda úti á landi. Öðru máli er að gegna um samgöngurnar í sveitunum. Í ýmsum sveitum eru enn notaðir sömu götutroðningarnir og sömu flutningatækin og fyrir 1000 árum. Þetta eru staðreyndir, sem við allir þekkjum.

En kröfur tímans aukast og margfaldast ekki síður á þessu sviði en öðrum. Er þá undarlegt, að sveitamenn krefjist dálítilla umbóta og úrlausnar á þeim örðugleikum, sem þeir eiga við að stríða hvað samgöngur snertir? Þarf nú nokkurn að furða, þótt bændur fari að verða óþolinmóðir og krefjist þess, að samgöngubótum á landi verði hraðað af alefli, svo að þeir geti lifað og starfað sæmilega, eftir því sem sá tími er þeir eru uppi á, gerir kröfu til? En stjórnin hefir ekki orðið við þessum tilmælum, eins og þegar er sýnt.

Jeg gæti þó skilið afstöðu hæstv. stjórnar, ef hún liti svo á, að alt væri að sökkva fjárhagslega. Jeg mundi ekki ámæla henni, þótt hún gripi til slíkra neyðarúrræða í því skyni að forða landinu frá fjárhagslegu hruni. Þá verður ýmislegt að gera, sem ekki er sársaukalaust, en stjórnin virðist ekki líta þannig á. Samtímis því, sem hæstv. stjórn sker niður fjárveitingar til svo sjálfsagðra hluta sem vega, brúa, síma o. fl., sje jeg, að hún ber fram fjölda af lagafrv. um heimild fyrir fjárveitingum til ýmsra framkvæmda, sem hljóta að baka ríkissjóði útgjöld, sem nema margfaldri þeirri upphæð, sem feld er niður. Jeg skal nefna nokkur dæmi: letigarður 100 þús. kr., til sundhallar 100 þús., til byggingar fyrir opinberar skrifstofur 170–200 þús. kr., til byggingar nýs strandferðaskips 700 þús., og auk þess er óumflýjanlegt, að af því stafi talsverður tekjuhalli, líklega um 200 þús. kr. á ári. Jeg hefi nefnt nokkurt hrafl af því, sem hæstv. stjórn ætlar að láta framkvæma. Það er alls engin tæmandi upptalning — hæstv. fjmrh. (MK) nefndi ýmislegt fleira og jeg nefni þetta aðeins sem dæmi.

Jeg skal taka það fram, að hjer er aðeins um heimild að ræða. En samkvæmt venju er litið á fjárveitingar til verklegra framkvæmda aðeins sem heimild. Stjórnir hafa litið svo á, að þær væru ekki meira bindandi en svo, að heimilt væri að fella þær niður að öllu eða nokkru leyti, ef fje væri ekki fyrir hendi. Það er því enginn eðlismunur, heldur formsmunur, á miljónatillögum hæstv. stjórnar, sem hún ber fram í heimildarlagaformi, og á fyrirhuguðum till. okkar hv. þm. Borgf. um auknar verklegar framkvæmdir í fjárlögum. Og enn má benda á, að hæstv. stjórn hefir ekki þótt ástæða til með þessu að tilskilja, að því aðeins yrði í þessar stórframkvæmdir ráðist, að tekjuauki fengist. En þegar hún er beðin að verða við sanngjörnum kröfum okkar sveitamannanna, þá er afsvar á reiðum höndum nema tekjuauki komi til skjalanna.

Enn má benda á það, að ef áætlað væri, að tekjur ríkissjóðs yrðu líkar og árið 1927, sem alment er viðurkent, að hafi verið eitt hið tekjurýrasta fyrir ríkissjóð, og því hægt með fullum rjetti að taka það til samanburðar í þessu tilfelli, þá er áætlunin samt svo varleg, að tekjuafgangur verður talsvert á 9. hundr. þús. kr.

Það er að vísu rjett, að landsstjórnin þarf jafnan að hafa talsvert fje handa í milli til ýmsra útgjalda, sem ekki standa í fjárlögum, bæði vegna hækkandi útgjalda, sem ekki verður gert ráð fyrir, og einstakra laga, er útgjöld hafa í för með sjer.

Ef einhver tekjuafgangur verður, sem ekki þarf til þess að greiða það óumflýjanlega, þá krefst jeg þess, að sá tekjuafgangur verði notaður til samgöngubóta.

Við háttv. þm. Borgf. höfum þrátt fyrir þennan ágreining ekki flutt neinar brtt. við frv. að þessu sinni. Er við sáum undirtektir nefndarmanna, vildum við heldur doka við og sjá til, hvort ekki næðist samkomulag við meiri hlutann.

Við höfum hugsað okkur að setja þau skilyrði með útgjaldatill. þeim, er við legðum fram til samgöngubóta, að þær kæmu því aðeins til framkvæmda, að fje væri fyrir hendi, til þess að tryggja, að þessar framkvæmdir yrðu látnar sitja fyrir ýmsum öðrum framkvæmdum, sem hæstv. stjórn hefir verið að sækja um heimild fyrir, af því að við álítum þær svo miklu meira áríðandi.

Jeg þykist þá hafa gert grein fyrir afstöðu okkar tveggja fjvn.manna. Vænti jeg, að mönnum sje það ljóst hjer eftir, hafi þeim ekki verið það áður, að hvorki sjeum við, eins og segir í stjórnarblaðinu, landráðamenn nje þeir fjármálaafglapar og glæframenn, að um fram alt verði að slá okkar spiltu kenningar niður. Hv. deild mun á sínum tíma fá tækifæri til að fella sinn dóm.