31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

24. mál, hegningarlög

Frsm. (Jón Þorláksson):

Allshn. hefir yfirfarið frv. þetta nákvæmlega, og þó að hún viðurkenni, að það í ýmsum atriðum orki tvímælis, hvað eigi að taka með í slíka bráðabirgðabreytingu á hegningarlögunum sem þessa, þá leggur hún þó til, að frv. þetta verði samþ. í aðalatriðunum.

Það eru aðeins tvær brtt., sem nefndin ber fram, eins og sjá má á þskj. 631. Fyrri breytingin er við 5. gr. frv., um að orðið „ævarandi“ falli burt, þar sem í frv. segir svo: „Hver, sem annars vísvitandi stofnar frelsi ríkisins eða ævarandi hlutleysi í hættu“. Við álítum ekki viðeigandi að láta orðið „ævarandi“ standa í hegningarlögunum í þessu sambandi. Það er að vísu svo, að í hlutleysistilkynningu þeirri, sem Ísland hefir sent út samkvæmt sambandslögunum, er lýst yfir ævarandi hlutleysi landsins, en við getum breytt því hvenær sem er og lýst yfir hlutleysi á venjulegan hátt, og það yrðum við t. d. að gera, ef við vildum ganga í þjóðbandalagið, því að slík yfirlýsing kemur í bága við lög þess. Breyting þessi mun snerta atriði, sem ekki var í frv. eins og stj. lagði það fyrir þingið, heldur atriði, sem sett var inn í frv. í Nd.

Þá er önnur brtt. nefndarinnar. Hún er við 7. gr. frv. og um afstöðu til 231. gr. hegningarlaganna. Við höfum getað fallist á uppástungur frv. um refsingar fyrir þjófnað, og sjerstaklega að því leyti, sem það gefur dómurunum frjálsari hendur með að skamta hegninguna. Í hegningarlögunum er gerður greinarmunur á almennum þjófnaði og stórþjófnaði, og fjallar 230. gr. hegningarlaganna um hinn minni háttar þjófnað og hegninguna við honum. Þessa grein á nú að fella niður, og í stað hennar kemur 6. gr. frv. En í 231. gr. hegningarlaganna er talið upp í 5 liðum, hvað teljist stórþjófnaður, og þó að nefndin telji þessari upptalningu vera ábótavant, þá vill hún ekki fella hana niður án þess að neitt ákveðið komi í staðinn, og leggur því til, að hún komi undir ákvæði 7. gr. frv. þessa, meðfram af því, að hún telur ekki hægt að meta þetta eftir 7. gr., nema með fylstu hliðsjón af því, sem mótast hefir í rjettarmeðvitund manna út af framkvæmd 231. gr. hegningarlaganna. Við viljum því láta sitja við upptalninguna í þessari 231. gr. hegningarlaganna, hvað teljist til stórþjófnaðar, til leiðbeiningar fyrir dómarana.

Síðasta brtt. nefndarinnar er bein afleiðing af þessum brtt.