16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (1649)

87. mál, bann á næturvinnu

Ólafur Thors:

Jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði áður, að það er rangt, að hjer sjeu kröfur verkamanna á ferðinni Ef hv. flm. vill sætta sig við það, að honum sje færður listi yfir nöfn nokkurra manna, sem þessa vinnu stunda, og hann vill beygja sig undir dóm þeirra, skal jeg vera honum hjálplegur um að útvega nokkur nöfn.

Hv. flm. sagði, að það væri algengt, að skip lægju á höfninni um nóttina, þótt þau næðu afgreiðslu fyrir miðnætti. Þetta kann að koma fyrir, t. d. ef viðgerð er að fara fram, sem ekki er hægt að ljúka við á skemri tíma. En það er hrein undantekning. Ef hann á við, að skip liggi hjer yfir nóttina að nauðsynjalausu, þá fer hann með rangt mál.

Hv. 3. þm. Reykv. hefir þegar svarað þeirri tilraun hv. flm. að sanna, að ekki skifti máli fyrir aflabrögð togara, hvort næturvinna er leyfð eða ekki, og þarf jeg því ekki að hrekja þær fullyrðingar hans aftur. En þegar hann segir, að fyrir geti komið, að skip geti ekki fengið afgreiðslu, vegna þrengsla á höfninni, þá er það ekki annað en bein sönnun fyrir því, að þörf er á næturvinnu, til að flýta fyrir því, að skipin geti komist að. Þetta er svo augljóst, að það hlýtur hver maður að skilja. Þá gaf hann og yfirlýsingu um það, að fleiri menn sæktust eftir þessari vinnu en að kæmust. Ef svo er, hvaða ástæða er þá til að ætla, að menn verði ofþjakaðir af þessari vinnu, gegn sínum eigin vilja? Ef menn vilja vinna þessa vinnu, held jeg að varhugavert sje fyrir löggjafarvaldið að stemma stigu fyrir því.

Hv. flm. vitnaði í aðrar þjóðir og hversu þetta horfði þar við. Jeg vil benda hv. deild á, að í þeim hafnarbæjum á Englandi, þar sem fram fer afgreiðsla fiskiskipa, hefst vinnan kl. 2 að nóttu til. Þetta sprettur þar eins og hjer af nauðsyn atvinnurekstrarins, svo að fiskurinn komist út um landið með járnbrautunum í tæka tíð og sala geti farið fram að morgninum.

Þá sagði hv. flm., að það væri þyngsti dómurinn um atvinnurekendur hjer, hve verkamenn litu illa út. Það sannaði, að vinna væri ónóg og illa borguð. Það má nú auðvitað þrátta um, hvort þessi vinna er illa borguð eða ekki. En ef miðað er við fiskverð nú og fyrir stríð, ætti kaupið að vera 52 aurar um tímann; ef miðað er við dýrtíðina í landinu, ætti það að vera 80 aurar um tímann, en er 1 kr. og 20 aurar.

Ef kenna á atvinnurekendum um það, að vinnan sje ónóg, þá vil jeg benda á það, að Alþbl. hefir þrásinnis kallað atvinnurekendur „blóðsugur, sem lifa á svitadropurn alþýðunnar“ (SÁÓ: Hvar stendur það í Alþbl.?) — það skal jeg finna fyrir hv. þm., ef hann óskar — fyrir það, að þeir skuli reka atvinnu og veita atvinnu. Nú er fundið að því, að við sjeum ekki nógu miklar blóðsugur. Þetta eru heilindin. Við atvinnurekendur erum að vísu orðnir þessu svo vanir, að við erum hættir að kippa okkur upp við það. Jeg hefi áður sagt, að jeg muni ekki leggjast á móti því, að þetta mál fari til nefndar. En jeg vona, að hv. nefnd sjái, að hjer er að ræða um ónauðsynlega kröfu, á kostnað þess atvinnurekstrar, sem ríkissjóði hefir dropið drýgst úr.