08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (1778)

135. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Gunnar Sigurðsson:

Hæstv. forsrh. tók vinsamlega í það, að útvega fje til stofnunar útvarpsstöðvar, ef frv. þetta yrði felt. Fyrir mjer og öðrum flm. er það auðvitað aðalatriðið, að fjeð fáist. En hvaða ágóði er þá í því, að fella frv.? Þá stöndum við ráðlausari eftir en áður, ef ekki tekst að útvega fjeð. Og þangað til hæstv. stjórn hefir bent á ráð til að útvega fje, verð jeg að halda fast við þetta frv.

Jeg geri lítið úr þeim röksemdum, sem hafa verið fram bornar móti frv. Þjóðleikhússjóðinn á aðeins að taka til bráðabirgða. Jeg benti á það í fyrri ræðu minni, og eins hv. þm. N.-Ísf., að það er langt frá því að vera heppilegt að byrja á byggingu þjóðleikhússins sem fyrst, og áður en nægjanlegt fje er fyrir hendi. Þvert á móti er útlit fyrir, að byggingarkostnaður lækki fremur en hækki. Fje það, sem lagt er í hálfgerða byggingu, gefur heldur enga vexti. Þingið hefir líka gert ráð fyrir því áður, að á byggingu leikhússins yrði ekki byrjað, fyr en nægjanlegt fje væri fyrir hendi.