14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (1881)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Jón Auðunn Jónsson:

Það mátti altaf búast við, að máli þessu yrði á einhvern hátt vikið frá, þannig, að það næði ekki afgreiðslu. Þess var varla að vænta, að núverandi Alþingi bæri giftu til að samþykkja jafngott og gagnlegt mál og hjer er á ferðinni.

Hv. þm. S.-M., sem vill vísa málinu til stjórnarinnar, sagði, að það væri flausturslega undirbúið, og væri þess ekki að vænta, að það kæmi að notum, eins og það væri úr garði gert. Hann benti þó ekki nema á einn galla, sem væri á frv., að hans dómi. Hann var sá, að efnaminni mönnum væri gert erfiðara með að fá lán en nú er. En þetta er hreinasta fjarstæða. Jeg er kunnugur því, að þar sem hreppar hafa gengið í sjerstakar kaupfjelagsdeildir, með ótakmarkaðri ábyrgð, hefir það verslunarfyrirkomulag reynst vel. Þeir efnaminni hafa fengið að vera með. Jeg veit af eigin þekkingu, að svo er þetta í kaupfjelagi Norður-Ísfirðinga; þar var hver hreppur í fullri ábyrgð innbyrðis. Það fjelag leysti upp lánsverslun við Ísafjarðardjúp að miklu leyti. Meðan þetta kaupfjelag starfaði í sinni upphaflegu mynd, þá var samið við kaupmenn um skuldirnar og fengin eftirgjöf á nokkrum hluta þeirra, en afborgun á hinu. Það var svo langt frá, að þeir efnaminni yrðu útundan, að það var þvert á móti. Það voru helst þeir, sem ráku útgerð í stærri stíl, sem urðu utan við þennan fjelagsskap. Nú mun verslunarskuldaverslun Norður-Ísfirðinga vera minni en nokkurstaðar annarstaðar. Aðeins í bæjum og kauptúnum mun vera um skuldaverslun að ræða, en hjá bændum yfirleitt ekki.

Hv. 1. þm. N.-M. sagði, að hjer væri verið að innleiða tvennskonar rjett. Þetta er að vísu rjett, að því leyti sem ætlast er til þess, að þeir, sem fá lán eftir þessu frv. greiða lægri vexti en bankar eða aðrar lánsstofnanir taka af öðrum. Í frv. er aðeins ætlast til þess, að tekið verði fyrir ómök við lánin, en ekki gert ráð fyrir gróða til handa lánsstofnunum. Þetta næst með því, að svo verður um búið, að engin hætta geti fylgt lánunum. Það er álitið, að bankar þurfi í vanalegum lánaviðskiftum að taka 1½–2% fyrir áhættu, auk reksturskostnaðar. Þetta er því eðlileg afleiðing af því, að ekki þarf að borga áhættuvexti, þar sem vel á að búa um lánin og tryggja það, að þau borgist á rjettum tíma. Að þetta sporni ekki á móti lánsverslun, fæ jeg ekki skilið. Lánsverslunin er einmitt í algleymingi, af því að ekki er kostur á rekstrarlánum. Bændur eiga svo ógreiðan aðgang að lánsstofnunum, að þeir hafa orðið að sætta sig við lán kaupmanna eða kaupfjelaga, og við það hefir skuldaverslunin myndast. Það er algild regla, að menn greiða frekar upp skuldir sínar við peningastofnanir, en við verslanir. (LH: Þeir borga, sem geta.) — Já, að vísu er það svo um flesta, en þeir láta þó peningastofnanirnar ganga fyrir. Peningalán eiga líka, að áliti almennings, fyllri rjett á sjer, heldur en vörulán með álagi. — Að þetta fje verði aðeins notað til að greiða með eldri skuldir og sem vasapeningar, eins og hv. 1. þm. N.-M. sagði, er ótrúlegt. Menn verða að hafa í huga, að þar sem menn verða í samábyrgð fyrir lánunum og setja meðábyrgðarmönnum sínum tryggingar og fjelagssvæðið er svo lítið, að hver þekkir annan og hver lítur eftir öðrum, þá er þessi hætta engin.