16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (2214)

158. mál, útvarp

Jóhann Jósefsson*):

Jeg var að hinkra við með að kveðja mjer hljóðs, af því að jeg hjelt, að hæstv. forsrh. (TrÞ) vildi eitthvað segja út af þessari till. En fyrst svo er ekki; verður það ekki skilið á annan hátt en þann, að hæstv. stjórn hafi ekki mikinn áhuga fyrir að hrinda þessu máli áleiðis.

Jeg verð að taka undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. (MJ) hefir sagt um þetta mál. Bæði er svo miklu fje búið að verja til þess að koma útvarpinu á laggirnar, að mjer finst hæstv. stjórn þurfa að sjá til, að útvarpið falli ekki niður, og þótt jeg hafi hingað til ekki látið það mál til mín taka, þá finst mjer, um leið og ákveðið er, að ríkið taki útvarpsrekstur að sjer, þótt ekki sje sjáanlegt, að það komist á í náinni framtíð, að nauðsyn beri til, allra aðila vegna, að sjá um, að útvarpsstarfsemin hætti ekki á meðan. Fólk úti um land, sem vant er að fá frjettir með útvarpinu, og skip á hafi, sem vön eru að fá veðurfregnir, prjedikanir og fyrirlestra, missa af miklu við lokun útvarpsstöðvarinar. Jeg tel því illa farið, ef ekki takast samningar milli h/f. Útvarps og hæstv. landsstjórnar um það, að stöðin haldi áfram í millibilsástandinu, þar til fullkomnari útvarpsstarfsemi, rekin af ríkinu, verður sett á stofn. Jeg tala þar máli allra þeirra, sem hafa aðstöðu til þess, hvort heldur er í landi eða á sjó, að hlusta á útvarp, þótt sitthvað megi að því finna, sem það flytur. Sjálfur hefi jeg ekki útvarpstæki, en jeg veit af viðræðum við fólk, einkum sjómenn, að það er talsvert þýðingarmikið, að þessi starfsemi haldi áfram. Það verður stór eyða í lífi þeirra manna, sem útvarpi hafa vanist og eru nú alt í einu sviftir því.

Að endingu vil jeg líka leggja áherslu á það, að þetta mál eigi ekki að verða pólitískt, heldur sameiginlegt áhugamál allrar þjóðarinnar.

Jeg vildi óska, að hæstv. forsrh. (TrÞ) ljeti í ljós einlægan vilja til þess að leggja þessu máli það lið, sem hann má, til þess að skapa því þau skilyrði, sem þarf til þess, að það falli ekki úr sögunni. Færi hann þar að eindregnum óskum allra þeirra, sem geta haft gagn af því.

(* Óyfirlesið ræðuhndr.)