23.02.1928
Neðri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (2381)

43. mál, aukastörf ráðherranna

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er aðeins örstutt athugasemd, til þess að leiðrjetta nokkur ummæli í síðustu ræðu hv. 1. þm. Reykv. (MJ). Hv. þm. talaði um lánstraustsspjöll, sem leiddu af festingu gengisins. En jeg vil benda hv. þm. á það, að þegar smáþjóðir taka erlend lán, þá er lánið miðað við þeirrar þjóðar gjaldeyri, sem lánið er fengið hjá, eða einhverrar stórþjóðar, svo um lántraustsspjöll vegna þess getur ekki verið að ræða. Og þegar ríki festir gengi, þá bætir það lánstraust sitt.

Í annan stað fullyrti hv. þm., að þegar gengi hefði tilhneigingu til hækkunar eða lækkunar, þá yrði svo að fara, án þess að gengisnefnd rjeði þar nokkuð við. Þessi algenga fullyrðing er á engum rökum bygð. Gengisbreytingar verða ekki á sama hátt og þegar loftþyngdarmælir stígur og fellur, heldur verða þær þráfaldlega að vilja og eftir stefnu þeirra, sem völdin hafa. Við hækkunartilhneigingu gjaldeyris má altaf ráða. Gengi hækkar ekki, meðan þjóðbanki heldur áfram að kaupa með óbreyttum „kurs“, af þeirri einföldu á stæðu, að sá, sem býður hæst í erlenda gjaldeyrinn, fær hann allan, og sje það stefna ríkisstjórnarinnar að verðfesta gjaldeyrinn, er það áhættulaust fyrir þjóðbankann að kaupa erlendan gjaldeyri með föstu verði, hversu mikið sem framboðið verður. Erfiðara er að ráða við lækkunartilhneiginguna, en hjá þeirri hættu ber að sneiða með rjettri útlánsstefnu seðlabankanna. Og fullyrða má, að nú mun ekki höfð sú útlánsstefna í Landsbankanum, sem skapi lækkunarhættu. Þessi bábilja, að þjóðirnar standi valdalausar gagnvart genginu, er hin hættulegasta og algengasta firra í þessu máli; hún er jafnalgeng og fáfræðin um eðli gengismálsins er útbreidd. En má jeg spyrja: hvaða vit er í því að vera hækkunarmaður, — og fullyrða um leið, að gengið dansi eins og norðurljósin, hátt fyrir ofan allan mannlegan mátt?

Þá sagði hv. þm., að vald gengisnefndar hafi eingöngu verið stílað gegn lækkunarhættunni. Nú, er þá til eitthvert mannlegt vald, sem spornað getur við gengisbreytingum? Það ugði mig, að ástæður hv. þm. mundu verða sjálfum sjer sundurþykkar. En þá getur málstaðurinn ekki staðist. Gengisnefndin hefir mikið vald, það er kjarni málsins, og því valdi á hún að beita gegn hækkun og lækkun til festingar á gjaldeyrinum. Svo er alþjóðarhagsmunum best borgið.

Þetta voru aðeins hinar nauðsynlegu leiðrjettingar við ræðu hv. þm., sem ekki varð hjá komist að gera.