08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3188 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

38. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Magnús Torfason:

Um þetta frv. hefir verið rætt fyr og þá talið rjettara að hafa frumritið í skjalasafninu. Verður því heldur ekki neitað, að svo er. Hv. allshn. hefir nú talið frv. þetta svo fullkomið, að þar væri engu hægt að breyta til hins betra, hvorki efni nje máli. Jeg skal nú ekki dæma um, hvort málið á frv. er gott eða gott ekki. En hálfóviðkunnanlegt þykir mjer þó, að í 4. málsgr. 4. gr. stendur orðið „sem“ þrisvar í sömu línu. Jeg held, að hjá því hefði verið hægt að komast. — Þetta minnir mig á frv., sem kom fram um aldamótin síðustu. Það frv. var 16 línur alls, en orðið „hlutaðeigandi“ kom þar fyrir 8 sinnum. Þetta frv. setur þá nýtt met.

Það sjest ekki ljóslega á frv., hversu langt er hugsað til að ganga í þeirri breytingu að hafa frumritin jafnan til staðar. Í Svíþjóð er sú regla, að þegar sala eða afhending á eign fer fram, þá verða öll frumrit að fylgja eða vera til staðar. Er þetta í sjálfu sjer skemtilegast, en getur náttúrlega orðið þröskuldur í vegi, þegar ákveða þarf eignarráð einhverrar eignar. Jeg býst varla við, að það hafi verið hugsun forgöngumanna þessa frv. að ganga svo langt. Enda myndi slíkt varla vera hægt hjer á landi, meðan ekki er um fastan bústað sýslumanna að ræða og þar af leiðandi brunahættu, því svo þyrfti fyrir að sjá, að skjölin væru alveg tryggilega geymd.

En þó ekki sje gert ráð fyrir því, að sænska reglan yrði tekin upp, þá hygg jeg, að fyrir þessu mætti sjá á haganlegri hátt en gert er ráð fyrir í frv.

Í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að skjöl þau, sem þinglýst eru, sjeu lögð í skjalahylki og síðan bundin inn í bók, þegar hæfilega mikið er komið. Á þennan hátt komast frumrit sömu eignar á tvístring hvert innan um annað. Verður því harla óaðgengilegt að þurfa að leita sömu eignarheimildar í mörgum bókum. En oft getur komið fyrir, að eftir slíku þurfi að svipast, til þess að afla nauðsynlegra upplýsinga um einhverja eign. Heppilegra myndi að raða eftir eign, líkt og gert er í veðmálaregistrum. En það kostaði vitanlega meira rúm, er fram í sækir. En jeg býst við, að hv. frsm. sje sammála mjer um það, að ekki sje sæmilegt, að embættisskjöl sýslumanna sjeu í þeirri hættu, að eyðileggjast af eldi eða slæmri meðferð, eins og nú er. — Jeg gæti sagt margar skemtilegar sögur um það, hvernig skjalasafn Árnessýslu leit út, þegar jeg tók við því. En þetta er tryggilegast og best, að raða eftir registri, og er registrið þá lykill að skjalasafninu. Jeg vildi geta þessa hv. nefnd til athugunar fyrir næstu umr.

Að því er snertir 11. gr., þá finst mjer, að þær skrár, sem þar er gert ráð fyrir, gætu að minsta kosti verið nokkru hentugri og nákvæmari en greinin ákveður, með því að greina eignirnar í flokka, meira en þar er gert. Í hverri skrá væri þá sjerstakur flokkur. Í fyrsta væru þá jarðeignir lögsagnarumdæmisins eftir jarðamati.

Eins og menn vita, eru margar jarðir Í kaupstöðum og þorpum margbitaðar niður, og verður því að hafa um þær sjerstakar skrár. Er því nauðsynlegt að gera sjerstakar lóða- og húsaskrár í þorpum eins og í kaupstöðum.

Ennfremur þarf að gera sjerstakar skrár yfir skip. Hjer í frv. er gerður greinarmunur á lögskráningarskyldum skipum, að stærð 5–12 smálestir, og þeim bátum, sem eru undir 5 smál. að stærð og fara skal um sem lausafje. Jeg hefði álitið hentugast, að öll skip væru í sömu skrá. Skránni mætti svo skifta í deildir og gera þannig þann greinarmun, sem fram kemur í annari málsgrein 4. greinar, og finst mjer það mundi ólíkt handhægara að finna öll skip í sömu skránni. Enn er ástæða til þess í kaupstöðum — og þá fyrst og fremst í Reykjavík — að hafa sjerstaka skrá yfir bifreiðar, því að í raun og veru eru bifreiðar ekki annað en skip á landi. Það verður, sem kunnugt er, að halda sjerstaka skrá yfir bifreiðar og bifreiðastjóra, og væri því heppilegast að hafa þær á einum stað. Loks þyrfti svo að hafa nafnaskrá.

Þá vil jeg vekja athygli á því, að í 13. gr., sem greinir frá því er skjöl eru afmáð, segir svo: „Nú er skjal afhent dómara til aflýsingar, og skal hann þá þegar afmá það úr afsals- og veðmálabókum með því að rita á skjalið í bókinni, að því sje aflýst, og tilgreina ár og dag og setja nafn sitt undir“. Mjer skilst, að ekki sje gert ráð fyrir, að skjal sje afmáð áður en það er fært inn í bókina, svo að þessi orð „í bókinni“ mættu þá falla í burtu, þar sem þetta er óþarfa nákvæmni.

Að síðustu býst jeg tæplega við því, að rjett sje, að lögin gangi í gildi 1. júlí 1928, þar sem gert er ráð fyrir, að dómsmrh. setji nánari reglur um skrárnar og fyrirkomulag bókanna eftir 10. gr.

Jeg hefi ekki komið með brtt. við frv. þetta, meðal annars af því, að í frv. er gert ráð fyrir, að dómsmrh. setji reglur um hitt og þetta. Þótt nefndin fjellist á, að eins gott væri að hafa skrárnar á þann veg úr garði gerðar og jeg benti á, þá þyrfti hjer engar verulegar breytingar, en gefa mætti dómsmrh. heimild til þess að setja reglur um ýms atriði nokkuð víðar. Hefi jeg því ekki borið fram brtt., sakir þess og að hv. frsm. hefir lýst yfir því, að hann muni taka málið til rækilegrar athugunar í nefnd, og nægir að vísa til þessa. En mjer mundi þykja vænt um að sjá skjalið, er það kemur frá nefnd.