08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3526 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

113. mál, verðtollur

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Það er varla ástæða til þess fyrir mig að taka til máls að þessu sinni, úr því að hv. frsm. 1. minni hl. hefir tekið aftur brtt. minni hl. eða óskað, að atkvgr. um hana sje frestað til 3. umr. En mjer finst ekki rjett að gera mikið úr því, að þessi tollur eins og hann er nú orðinn komi mjög þungt niður á almenning. Það er þegar búið að undanþiggja þessu gjaldi svo afarmargar vörutegundir, að jeg held, að það sje búið að tína til og taka undan allar þær vörutegundir, er geta talist nauðsynlegar. Og í sjálfu sjer er ekkert athugavert við það, þegar þess er gætt, að það var þegar í upphafi gert ráð fyrir því, að þessi tollur kæmi helst niður á þeim vörum, sem ekki gætu talist nauðsynjavörur: Þetta veldur ekki ágreiningi, og er því ekki ástæða til að fjölyrða um það.

En jeg vil lýsa yfir því hjer, að jeg tel stefnu 2. minni hl. í þessu máli alveg eðlilega og rjetta.

Hvað snertir útreikning hv. frsm. 1. minni hl. á tekjuaukaþörf ríkissjóðs, þá tel jeg, ef áætlun hv. frsm. um tekjur og gjöld ríkisins væri rjett, að þá sje síður en svo, að hjer sje óhóflega í sakirnar farið, því að ríkissjóður ætti að þurfa 1 milj. kr. tekjuauka, ef honum ætti að vera vel borgið. Og þótt þetta frv. verði samþ. í þeirri mynd, sem það nú er, þá er það mjög hæpið, að þær tekjur náist, sem nauðsynlega þurfa. Það verður að gæta þess, að þetta eru ekki alt nettótekjur, því að það eiga sjer stað talsverðar endurgreiðslur á verðtolli. Auk undanþáganna eru ýmislegar vörutegundir, sem vafi er um, hvort komi undir tollinn, og þótt greiðsla sje heimtuð til bráðabirgða, þá upplýsist það oft eftir á, að nauðsynlegt sje að undanþiggja þær gjaldinu, og kemur það fram sem tekjurýrnun, þegar til reikningsskila kemur.

En hvernig sem menn líta á þetta mál, þá vænti jeg þess, að þetta frv. nái fram að ganga í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir, eins og hv. 2. minni hl. leggur til.