07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3616 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg veit ekki vel, hvað fram hefir farið hjer í deildinni, því að jeg er rjett kominn inn. En mjer skilst, að beint hafi verið til mín fyrirspurn um það, hvort jeg liti svo á, að stjórnin ætti eða mætti láta verksmiðjuna af hendi, ef svo færi, að hún yrði reist fyrir fje ríkisins.

Jeg verð að segja það, að jeg álít, að orðalag 1. gr. frv. þýði það, að ekkert sje ákveðið um það, hvernig rekstrinum skuli hagað, þannig að stjórninni sje í sjálfsvald sett, hvort hún lætur ríkið annast hann eða selur síðar verksmiðjuna öðrum í hendur.

Í þessu máli verður því um þrjár leiðir að velja: Í fyrsta lagi, að verksmiðjan taki við hráefni af útgerðarmönnum og þeir njóti arðs þess, sem verður af vinslunni, en greiði hinsvegar kostnað við hana. Í öðru lagi, að síldariðnaðurinn verði hreinn ríkisrekstur, þannig að verksmiðjan kaupi hráefnið og ríkið hafi svo hag eða halla þann, sem verða kann af að vinna úr því. Í þriðja lagi álít jeg vel geta komið til mála, að verksmiðjan yrði á sínum tíma afhent fjelagsskap einstakra manna, ef það væri talið hyggilegt.

Nú sem stendur tel jeg alls ekki tímabært að ákveða, hver leiðin verði farin. Og jeg geri það ekki að neinu kappsmáli, hvort brtt. hv. 3. landsk. verður samþ. eða ekki. Raunar álít jeg hana óþarfa. Jeg sje ekki annað en að samkv. frv. standi allar þær leiðir, sem jeg nefndi, stjórninni opnar. En fyrirfram er ekki gott að segja, hver reynist heppilegust, og því ekki þörf að ákveða um það frekar en frv. gerir.