27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4770 í B-deild Alþingistíðinda. (3975)

100. mál, einkasala á áfengi

Halldór Steinsson:

Jeg á brtt. á þskj. 591 og aðra ásamt hv. 6. landsk. á þskj. 593.

Fyrsta brtt. mín er við 3. brtt. nefndarinnar á þskj. 565, við 4. gr. Þar stendur: „Lyfjadeildinni er skylt að útvega frá útlöndum lyf, umbúðir og hjúkrunargögn, er talin verða í lyfjaskránni, fyrir ríkissjóð, lækna, er rjett hafa til lyfjasölu, og sjúkrahús“. Í lyfjaskrá eru aðeins tekin upp þau lyf, er lyfjabúðum er skylt að hafa. En læknar nota og fjölda annara lyfja, og eru sum þeirra engu síður nauðsynleg. Það mun því frekar vera misgáningur hjá nefndinni, sem um málið hefir fjallað, að nota þetta orð, heldur en hitt, að útiloka lækna frá notkun þessara lyfja. En í lyfsöluskránni eru talin flest þau lyf, er nota þarf, og er því rjett að nota það orð hjer.

Næsta brtt. er um að fella síðasta málslið 4. gr. samkvæmt brtt. nefndarinnar niður. Hann hljóðar svo: „Sjúkrahúsum má þó ekki selja vín nje ómengaðan spíritus“. Mjer finst hjer kenna misrjettis milli sjúkrahúsa og hjeraðslækna. Læknum er heimilt að panta lyf og spíritus gegnum lyfjaverslunina, og þá er eðlilegt, að sjúkrahús njóti sömu kjara. Það er engin ástæða til að vantreysta sjúkrahúslæknum fremur en hjeraðslæknum til að fara með áfengið lögum samkvæmt. Að vísu munu sjúkrahús ekki nota áfengi mikið, en þó talsvert; þau brúka það til rannsókna, húðþvottar og ýmislegs annars. Læknar eiga kost á að fá lyf úr lyfjaversluninni, og það er engin ástæða til að láta þau sæta verri kjörum en þá.

Þá er síðasta brtt., sem jeg flyt með hv. 6. landsk., við 7. gr. Á eftir orðinu „læknum“ í fyrri málsgrein komi: og sjúkrahúsum. Með öðrum orðum, að sjúkrahús njóti sömu kjara og læknar.

Vona jeg, að hv. deild taki vel í brtt. þessar og telji þær sanngjarnar.