12.04.1928
Efri deild: 68. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4778 í B-deild Alþingistíðinda. (4001)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þó að jeg sje engan veginn ánægður með aðalatriði þessa frv., hefi jeg ekki tekið til máls fyr en nú, af því að jeg hefi ekki viljað leggja stein í götu þess að þessu sinni. En jeg vil taka það fram, að það ástand, sem verið hefir undanfarið, þar sem Íslandsbanka hefir hvað eftir annað verið leyft að fresta inndrætti seðla sinna, getur ekki haldist. Ef sú skipun kemst á, að hjer verði tveir bankar með hjer um bil jafnmikilli seðlaútgáfu, verður óviðunandi óreiða í þessum efnum og þverbrotin sú regla, sem gildir alstaðar í heiminum, að stærsti bankinn hafi seðlaútgáfuna á valdi sínu með þeirri ábyrgð, sem henni fylgja. Jeg vildi taka þetta fram og beina því sem minni skoðun til hluthafa bankans, ef einhver þeirra skyldi vera hjer, að þörf landsins krefst þess, að farið verði að framfylgja lögunum um inndráttarskyldu seðla. Til lengdar verður ekki hægt að taka tillit til þess, hvort bankinn geti staðið í skilum, og jeg vildi óska, að hluthafar Íslandsbanka kæmu ekki framvegis til stj. á síðustu stundu til þess að biðja hana að flytja slíkt frv., af því að óhjákvæmilegt væri að neita slíkri beiðni. Íslandsbanki verður að finna önnur ráð, þegar hann sjer, að þjóðfjelagið getur ekki sætt sig við þennan undandrátt.