27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

11. mál, fræðslumálanefndir

Pjetur Ottesen:

Það mun vera rjett hjá hæstv. dómsmrh., að heimild mun vanta í fræðslulögin um það að veita fræðslumálastjóra og stjórnarráði rjett til að ákveða námsskrár, kenslubækur og hámarks- og lágmarksstundafjölda í barnaskólunum og samræma þá yfirleitt. Jeg get einnig fallist á það, að börnum muni nú ætlað fullmikið nám, miðað við þroska þeirra. Jeg get því fallist á það, að rjett sje að setja ákvæði um þetta. En jeg vil þá auka vald fræðslumálastjóra að þessu leyti; tel ekki þörf á að blanda fleirum inn í þetta en fræðslumálastjóra. Jeg álít, að fræðslumálastjórinn hljóti, stöðu sinnar vegna, að standa í svo nánu sambandi við stjórn barnakennarafjelagsins, að henni sje í lófa lagið að koma fram áhrifum um skipun þessara mála, að svo miklu leyti sem heppilegt álítst að taka þær tillögur til greina. Ennfremur ber þess að gæta, að með lögunum frá 1926 var aðstaðan milli fræðslumálastjóra og kennara gerð nánari. Ef því ástæða er til að auka valdið, þá tel jeg rjettara, að framkvæmdarstjórnin fái það í sínar hendur.

Þó kostnaður við þetta verði máske ekki mjög mikill, þá verður hann þó áreiðanlega meiri heldur en ef fræðslumálastjóra færi falið þetta einum.