29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Háttv. þm. Borgf. beindi til mín tveim fyrirspurnum. Sú fyrri var út af launum hæstarjettarritarans. Eins og menn muna, kom hv. 3. landsk. þm. (JÞ) því fram í fyrra á þinginu með stuðningi Íhaldsflokksins, að 2500 kr. væru borgaðar fyrir það starf. Eftir áramótin skrifaði svo dómstjóri hæstarjettar mjer brjef um málið, þar sem hann lagði til, að sami maður gegndi ritarastarfinu og áður hafði gert það. Vitnaði dómstjórinn í ummæli hv. 1. þm. Skagf. í þessu sambandi, en þau hnigu í sömu átt. Nú var embættið svo illa launað, að þessi maður gat ekki unað við það og hafði í hyggju að sækja um annan starfa. Jeg trúði hæstarjetti um það, að maðurinn væri nauðsynlegur, þar til starfinu yrði öðruvísi skipað, og rannsakaði þetta ekkert frekar. Hækkaði jeg því að nokkru launin fyrir ritarastarfið, en það er einungis bráðabirgðaráðstöfun, sem þingið getur tekið af skarið um.

Síðari fyrirspurn hv. þm. gekk út á það, hvort starfsmönnum ríkisins hefði verið fjölgað. Líklega á háttv. þm. við eftirlitsmenn með vínsmyglun, sem teknir hafa verið og verða látnir starfa fram eftir vetrinum. Nú stendur svo á, að síðan jeg tók við ráðherrastörfum, hefir 9 mönnum verið sagt upp við vínverslunina, en hinsvegar starfa 3½2 maður að eftirliti með tollum og áfengi. Einn í Vestmannaeyjum, annar á Austfjörðum, þriðji á Norðurlandi, og sá fjórði á Ísafirði, en hann vinnur upp á tímakaup og telst því ekki nema hálfur maður. Það er rjett hjá háttv. þm., að þetta er aðeins tilraun og fær fyrst gildi, ef sú áfengislöggjöf, sem nú er fyrir hv. Ed., nær fram að ganga. Jeg býst ekki við, að kostnaðurinn, sem af þessu leiðir, verði talinn mikill. Fastamennirnir fá 250 kr. á mánuði hver, en hinsvegar hefir landssjóður töluvert upp úr starfi þeirra. Á einum mánuði hefir t. d. fengist 2000 kr. í auknum tolli og slatti af tóbaki, sem nam 1100 kr. Það var í Vestmannaeyjum.

Upprunalega eru þessir tollgæslumenn settir af því, að forstjóri Eimskipafjelagsins kvartaði yfir, að hann rjeði ekki við áfengissmyglunina í skipum fjelagsins. „Lagarfoss“ Seldi t. d. 400 flöskur í einni ferð. Brytinn á honum er nú undir rannsókn. Forstjóri fjelagsins sagði, að þetta væri stórhættulegt, því að ef smyglunin kæmist upp í Englandi, gæti vel svo farið, að skipunum yrði bannað að koma þar við. Jeg er þess fullviss, að aukið eftirlit hefir mikið að segja til að þurka skipin, auk þess hagnaðar, sem meira tolleftirlit hefir í för með sjer fyrir ríkissjóð. Jeg játa, að hjer er að vísu aðeins um tilraun að ræða, en hún er gerð eftir ósk Eimskipafjelagsins, meðal annars, og hefir borið góðan árangur.