14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af frv. þessu um gengisviðaukann vil jeg segja það, sem jeg hefi áður tekið fram, að ríkissjóði veitir síst af því að fá tekjuauka, fyrst og fremst vegna þarfa yfirstandandi árs, og í öðru lagi vegna örðugleika síðastl. árs. En þessi hv. deild hefir nú afgr. frá sjer frv., sem vænta má töluverðs tekjuauka af. Er því sennilegt, að halda megi fjárhagnum í horfinu á næsta ári, ef frv. þessi ná samþ. þingsins.

Eins og kunnugt er, er nú í ráði að taka öll skattamálin til athugunar á næstunni, og býst jeg við, að allir hv. þdm. geti verið sammála um, að þess sje full þörf. Og jeg held, að allir geti líka verið sammála um, að á meðan verið er í þessu millibilsástandi sje rjett að gera eitthvað í þá átt að ljetta þau gjöldin, sem tilfinnanlegast koma niður, ef jafnframt eru fundin ráð til að sjá fjárhag ríkissjóðs borgið. Mjer finst því, að komið geti til mála að ljetta 25% gengisviðaukanum af þeim tveimur vörutegundum, sem hjer er um að ræða og notaðar eru meira og minna á hverju einasta heimili í landinu. Í því gæti legið bending til þjóðarinnar, að verið væri að reyna að vinna í þá átt að ljetta henni skattabyrðarnar. Jeg hefi átt tal um þetta við þann mann, sem annast innkaup á ca. helmingi af neysluvörum landsmanna, og telur hann mjög æskilegt, ef þingið sæi sjer fært að ljetta eitthvað tollabyrðina á þeim vörum, og þá sjerstaklega gengisviðaukanum á sykurtollinum.