25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

29. mál, jarðræktarlög

Sveinn Ólafsson:

Það er aðeins örlítil athugasemd, sem jeg vildi gera út af fyrirspurn hv. 1. þm. N.-M., sem hann að vísu beindi til frsm. landbn. (JörB), en sem mjer virtist ekki vera leyst úr að fullu með svörum hans, og sem jeg held að hv. þm. geti ekki búist við, að verði leyst úr fyllilega, vegna þess að mjer fanst spurningin ekki allskostar ljós.

Eftir því sem mjer skildist, spurði hv. þm. (HStef) um það, hvort afgjald opinberra jarðeigna mundi hækka í rjettu hlutfalli við þann styrk, sem ríkið legði fram til jarðabóta, í því að gefa upp landsskuldir eða við að taka jarðabætur gildar upp í þær. Út af þessu finst mjer eiga vel við að benda á það, sem sjálfsagt mörgum er kunnugt, að þegar ábúendaskifti verða á slíkum eignum, þá eru þær boðnar upp, nærri því eins og á venjulegu uppboði. Þær eru auglýstar lausar til ábúðar, og hver sem vill hefir rjett til þess að bjóða í þær; það fer svo eftir því, hver býður hæst og hver þykir álitlegastur ábúandi, hver hreppir þær. (HStef: En hvernig fer þá um prestssetur?). Þau falla ekki undir þessa reglu, því að þar stendur öðruvísi á; en þetta gildir um þjóðjarðir og kirkjujarðir sömuleiðis. Það fer því eftir áliti á hverri jörð, hvort afgjaldið hækkar í hlutfalli við umbætur eða ekki, og það má alls ekki líta svo á, að það geti orðið nein regla fyrir hækkun á afgjaldi, hvað lagt hefir verið fram úr ríkissjóði til jarðabóta, því að í hvert skifti fer það svo, að hæstbjóðandi hreppir, ef ekki er þá eitthvað alveg sjerstakt, sem mælir með einhverjum öðrum.

Með þessu virðist í raun og veru ekki vera neitt tillit tekið til þess, sem ríkið hefir lagt af mörkum, og það leggur fram fje, þegar svona stendur á, auðvitað í þeirri von, að jarðirnar verði verðmætari eftir en áður, en án tillits til þess, hvort framlagið fæst greitt, hvort eftirgjaldið hækkar eða ekki, og getur alls ekki ráðið neinu um það, vegna þess að um ábúandann fer eftir því, sem boðin segja til hverju sinni, enda dæmi þau til, að eftirgjald hefir lækkað eftir að margra ára skyldujarðabætur höfðu verið unnar og nýr ábúandi tekið við.