18.03.1929
Efri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2657 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

75. mál, kirkjugarðastæði í Reykjavík o.fl.

Jón Þorláksson:

Það er sjálfsagt ekkert óeðlilegt að reyna að fá einhverja aðra skipun en þá, sem verið hefir, á kirkjugarðsmálefni Reykjavíkur, og þar getur verið um það að ræða fyrir ríkisstj., sem nú hefir að lögum á sínum höndum að leggja söfnuðunum til kirkjugarð, að leita eftir samkomulagi, annaðhvort við sóknarnefnd þjóðkirkjusafnaðarins eða bæjarstj.

Þetta frv. fer frekar í þá átt, að leitast verði við að fá bæjarstj. til að taka málið að sjer; það er að því leyti eðlilegra heldur en hin leiðin, að það er ekki nema nokkur hluti bæjarbúa í þjóðkirkjusöfnuðinum, en mjer þykir dómsmrh. hafa mistekist heldur hrapallega smíðin á 1. gr. þessa frv. — Jeg hefi altaf haldið að 63. gr. stjskr. verndaði eignir sveitarfjelaga jafnt og einstaklinga gegn því að verða frá þeim teknar endurgjaldslaust, þar sem svo er ákveðið, að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína, nema fult verð komi fyrir. En hjer setur hæstv. ráðh. í 1. gr., að þetta skuli látið af hendi án endurgjalds, sem mjer sýnist vera alveg gagnstætt tilsvarandi ákvæðum stjskr., og jeg verð að segja það, að ef á að leita samkomulags við einhvern af hálfu ríkisstj., sem miðar að því að ljetta af ríkinu skyldum, sem það nú hefir og sem því eru heldur óþægilegar og erfiðar, þá sýnist mjer það vera æðióheppileg byrjun á slíkum samkomulagsumleitunum að flytja lagafrvgr., sem fer beinlínis fram á það að svifta aðilann rjetti, sem honum er trygður samkv. stjskr.

Alt fyrir þetta ætla jeg ekki að setja mig á móti því, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og n., sem þá væntanlega lagfærir þennan galla.