10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3437 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

37. mál, verkamannabústaðir

Jón Ólafsson:

Jeg vil taka það strax fram, að jeg felst á brtt. hv. 1. þm. Árn., sem hann hefir borið fram við 1. brtt. mína. Jeg viðurkenni, að brtt. hans sje til bóta og með henni gengið betur frá þessu atriði en í minni brtt.

Aftur á móti get jeg ekki fallist á það, sem hv. þm. Ísaf. stakk upp á, að draga til baka 2. brtt., við 5. gr. Það veitir ekki af að setja hámarkskröfurnar svo lágt, vegna þess að hjer í Reykjavík safnast svo margir saman, að ekki verður hægt að fullnægja að neinu verulegu leyti. Það er misskilningur, þó að því sje haldið fram, að stórar fjölskyldur hafi hærri tekjur en þær, sem jeg vil miða við, og geti ekki fyrir þá sök orðið þessara fríðinda aðnjótandi. Því að væri um hærri tekjur að ræða, eða eins og ákvæði frv. er miðað við, þá er þið vegna þess, að börn, sem komin eru yfir 16 ára aldur, eru farin að vinna heimilunum inn; en jeg tel rjettara, að húsbóndinn telji ekki þeirra vinnu með tekjum heimilisins, og ætti því að vera auðvelt fyrir hann að falla undir það lágmarksákvæði, sem jeg vil setja. Þó að börnin vinni heimilunum eitthvert gagn, virðist óþarft að hækka heildartekjurnar fyrir það.

Mjer er ljóst, að ein hætta liggur fólgin í frv. þessu, og hún er sú, að ef ætlast er til með því, að allur almenningur eigi von á kostakjörum í því efni að eignast þak yfir höfuðið, þá muni það draga úr framtaki einstakra manna að byggja í bænum. Þess vegna hefði jeg kosið, að kjörin væru þrengd frekar en rýmkuð, því að það getur orðið bænum mjög örðugur hjalli yfir að komast, ef dregið verður úr framtaki einstakra manna um að byggja hann upp. Eina ráðið til þess að koma húsaleigunni niður er að byggja upp bæinn. Að reyna að setja hámarksverð á húsaleigu hefir sýnt sig, t. d. á stríðsárunum. að vera árangurslaust, og það skapaði þau vandræði, sem lítt var unandi við. Hvað vel sem gengið var frá samningunum, þá gátu húseigendur látið leigjendur sína greiða utan samninganna þá upphæð, er þeim sýndist, og án þess að byggja að neinu leyti á verðlagi húsaleigunefndar. Á meðan húsnæðisvandræðin eru ríkjandi í bænum, verður vitanlega ekki við neitt ráðið.

Að vísu er það von sumra, að úr þessu muni heldur rætast með væntanlegri lánsstofnun, er láni meira út á hús en áður. En það þarf allra krafta við að njóta í þessu efni. Fólkinu fjölgar jafnt og þjett, án þess þó að um sjerstakt aðstreymi sje að ræða, svo að altaf þarf að auka við íbúðirnar. Svo má líka benda á það, að nú eiga kjallaraíbúðirnar að hverfa, og þó að margur telji það vel farið, þá minka þó ekki húsnœðisvandræðin við það.

Það er því sama, hvernig maður veltir þessu máli fyrir sjer, að alt ber að sama brunni. Bærinn verður ekki bygður upp og úr húsnæðisvandræðunum verður ekki bætt á annan hátt en að ríkið hlaupi undir bagga að einhverju leyti, með lánsstofnun í þessu augnamiði og annari þeirri aðstoð, sem vænleg er til bóta í þessu efni.

Það var rjett tekið fram hjá hv. 1. þm. Skagf., að eins og frv. er borið fram, þá er hjer um mikla fjárhæð að ræða fyrir ríkissjóð, af því að gera má ráð fyrir, að eftirspurnin verði mikil. En hvernig sem um frv. fer, þá er jeg sannfærður um, að aldrei verður úr húsnœðisskortinum bætt, nema með allverulegri hjálp frá ríkissjóði.

Hv. 1. þm. N.-M. hjelt því fram, að reynast mundi ódýrara að hafa einhvern samvinnufjelagsskap við það að koma upp byggingunum. En jeg held, að lítið sje leggjandi upp úr því. Undanfarin ár hafa allar byggingar í bænum verið látnar í ákvæðisvinnu, og mjer er sagt, að þeir, sem hafa tekið þær að sjer, sjeu ekki ofhaldnir. Hitt er satt, að margar byggingar hafa orðið ódýrari en ella fyrir þá sök, að menn hafa haft aðhald í ákvæðisvinnunni og lagt mikið á sig þess vegna.

Með síðustu brtt. minni vil jeg fyrirbyggja, að vanrækt sje að hafa ríkt eftirlit með byggingarfjelögum þeim, er kunna að myndast samkv. frv. þessu.