11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (2547)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Í grg. þessa frv. er tekið fram flest það, sem máli skiftir í sambandi við frv. Það er svo ástatt um Eskifjarðarkauptún, að landkostir eru þar minni en í nokkru öðru kauptúni á Austurlandi, og er það þó með fjölmennustu kauptúnum þar. Landið, sem kaupstaðurinn stendur á, er nærri alt eign einstakra manna, og eru það 2 gamlar hjáleigur úr landnámsjörðinni Eskifirði. Báðum megin kauptúnsins eru jarðir, sem tilheyra Reyðarfjarðar- og Helgustaðahreppum. Þorpsbúar hafa því orðið að leita á náðir granna sinna um landsnytjar og aldrei fengið eins mikið og þeim er þörf á, síst til ræktunar. Í nánd við kauptúnið er engin opinber eign nema prestssetrið Hólmar. En land staðarins er stórt, og mikið af því beitiland, sem nú er aðeins notað að litlu leyti, síðan fráfærur lögðust niður.

Í frv. er farið fram á að selja kauptúninu meiri hluta Hólmalands þegar við víðáttu er miðað. Undanskilið er talsvert af engjum, alt tún og varplandið, og þar að auki allmikið af beitilandi og að sjálfsögðu öll hlunnindi og ítök staðarins. Ætti presturinn ekki að þurfa á meira að halda til búreksturs. En með því að selja þann hluta, sem hjer er farið fram á, mundi Eskifirði vera borgið með landsnytjar í næstu framtíð.

Jeg skal geta þess, að beiðni hreppsnefndarinnar á Eskifirði var upphaflega á þá leið, að fá alt landið keypt, og var sú beiðni studd af núverandi sóknarpresti, sem boðið hafði hreppsnefndinni kaup á öllum húsum og mannvirkjum símun á jörðinni. Jeg vildi þó eigi ganga svo langt, en hefi nú leitað álits um frv., eins og það er borið fram, bæði hjá biskupi og hreppsnefndinni. Þykist jeg mega fullyrða, að biskup sje því eigi mótfallinn, og að hreppsnefndin muni láta sjer það lynda.

Á undanförnum þingum hefir verið samþ. sala nokkurra prestssetra eða hluta úr þeim; og það þó að eigi hafi borið eins brýna nauðsyn til og í þetta sinn. Vænti jeg því, að hv. deild liti með velvild á þetta nauðsynjamál Eskifjarðar og samþykki frv. Að lokinni umr. óska jeg að því verði vísað til hv. landbn.