06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2562)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Frsm. minni hl. (Hákon Kristófersson):

Það mætti ætla, að jeg hefði ekki mikið að segja, þar sem hv. frsm. meiri hl. hélt ekki lengri ræðu en raun var á. Það á líklega að skilja það svo, að rök meiri hl. sjeu í nál. hans. Nú vil jeg með leyfi hæstv. forseta fara nokkrum orðum um þennan smíðisgrip. Mun hv. frsm. sjálfur hafa samið það, en það hlýtur að vera, að þeir sem undir það hafa ritað með honum, hafi gert það í ógáti. Því hefðu þeir athugað, hvað þar er ritað, mundu þeir aldrei hafa undirritað það, svo greindir menn sem þeir eru að mörgu leyti að mínu áliti.

Þetta merkilega plagg byrjar á því, að n. hafi borist brjef frá sjera Stefáni Björnssyni. Hvað kemur það málinu við? Ekkert. En úr því hv. meiri hl. fór að geta þess, að hann hefði fengið brjef frá viðkomandi presti, þá vil jeg leyfa mjer að spyrja, því hann segi ekki nema hálfan sannleikann í þessu og það á þann hátt, að nærri lætur að það sjeu hrein ósannindi, sem hann fer með. Því það er svo, að þessi sami heiðursmaður, presturinn, tekur aftur öll þau ummæli sín, er stóðu í bréfi því er meiri hluti nefndarinnar bendir til í áliti sínu, í öðru brjefi, sem hann skrifar biskupi. Hefi jeg þar með slegið niður, að nokkurt rjettlæti sje í því að vitna til þess brjefs, er hv. meiri hl. vill telja sönnunargagn. Svo segir í þessu merkilega nál: „Í brjefinu er all-ýtarleg greinargerð á því, hve hlunnindi jarðarinnar af æðarvarpi og síldveiði í hafi rýrnað tilfinnanlega á seinni tímum.“ Hvað kemur þetta málinu við? Þetta er vitanlega hreint og beint aukaatriði, sem hv. frsm. er að reyna að fálma eftir, eins og maður, sem er að drukna, reynir að fálma eftir hálmstrái, sem hann sjer. Hjer er alls ekki verið að ræða um það að selja æðarvarpið. Og það kemur þessu máli því ekkert við, þó hv. frsm. sje að reyna að vitna til þess. Hann er þar aðeins að reyna að villa hv. dm. sýn, með því að draga þessi aukaatriði fram á sjónarsviðið til þess, ef verða mætti, að með því drægist athygli hv. þingmanna frá aðalatriðum málsins. Ef það væri verið að tala um að selja þessa varphólma, sem eru í nánd við þetta land, sem hv. meiri hl. vill selja, þá væri rjettlátt að vísa til þess, en nú er alt öðru máli að gegna.

Jeg vænti þess, að hv. dm. hafi lesið nál. minni hl., sem bygt er á sannindum en ekki blekkingum og krókaleiðum eins og nál. meiri hl., sem aðeins á að vera til þess að blekkja og villa mönnum sýn. Enda er þar farið í kringum málsatriðin og sannleikann eins og vissar skepnur fara kringum heitt soð. Einnig vænti jeg þess, að hv. dm. hafi lesið brjef biskups, sem prentað er í nál. minni hl., en í því er kafli úr brjefi því, er sóknarpresturinn reit biskupi. Er það þessi sami heiðursmaður, sem hv. frsm. meiri hl. er að vitna til, sínu ranga máli til stuðnings. Ef nú hv. dm. að öllu þessu athuguðu líta á þetta með athygli og góðgirni munu þeir sjá, að hjer er á ferðinni mál, sem ekki má samþ. Það er svo hatramlega af stað farið að ætla sjer að selja alt land þessarar jarðar á annan veginn alveg heim að túngarði prestsins.

Þá bendi jeg á það í nál. mínu, hversu þetta mál er illa undirbúið og upplýst. Hefir það. t. d. ekki verið talfært við íbúa þess hrepps, sem þessi jörð liggur í. Má vel vera, að ekki sje framin nein lagaleysa, þó það sje ekki gert, en hins vegar hefði það þó ekki verið nema kurteisi að leita álits þeirra.

Nú hefi jeg aflað mjer nokkurra upplýsinga um þetta, og hefi jeg hjer í höndum ummæli frá þrem aðiljum: sóknarnefnd, hreppsnefnd og hreppsstjóranum. Eru þeir allir á móti því, að Alþingi samþykki þetta. Hefi jeg fengið um þetta símskeyti frá þessum aðiljum, og getur hv. frsm. meiri hl. fengið að sjá þau, ef hann rengir mig.

Þá leyfði hv. frsm. meiri hl. sjer að segja, að jeg væri hlutdrægur í þessu máli. (GunnS: Nei, jeg sagði að biskupinn væri það). Þeir ættu ekki að kasta steini, sem búa í glerhúsi. En jeg tók ekki betur eftir, en að hv. frsm. segði þetta um mig áðan. En hafi hann átt við biskupinn, þá var það því meiri óhæfa að ráðast svo að manni, sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sjer hjer. Kemur það sjer vel að vera á þeim vettvangi að geta rekið slík ummæli ofan í þessa pilta, er þeir leyfa sjer slíkt.

Þó það sje dálítið örðugt að fara inn á þá hlið þessa máls, er snýr að prestinum persónulega, verður varla hjá því komist, því þar er sá upprunalegi grundvöllur þessa máls. En hann er sá, að presturinn var að reyna að selja Eskifjarðarkaupstað húseignir sínar, en kaupstaðurinn vildi helst ekki kaupa nema að landið fylgdi með. En svo slitnaði upp úr þessum samningaumleitunum, og þá gerðist presturinn strax andvígur þessari sölu. Sönnun þessa er að finna í þeim kafla af brjefi sóknarprestsins, sem tekinn er upp í fylgibrjefi biskups, er jeg hefi látið prenta með nál. mínu. Það er því svo, að þó það megi rjett vera, að búskapur allur sje mjög erfiður á jörð þessari, þá var það ekki aðalástæða þess, að presturinn var sölu þessari meðmæltur til þess að byrja með, heldur hitt, sem jeg hefi áður getið um. En nú er sá möguleiki úr sögunni, og er því óþarfi fyrir hv. frsm. að vera að skírskota til þess. Þá get jeg og getið þess, að mjer er kunnugt um það, að viðkomandi kaupstaður á kost á að fá jörð, sem liggur miklu nær honum heldur en þessi hjer um ræddi landshluti. (Svo kveður sjer hljóðs). Jeg þykist vita, að hinn virðulegi upprunalegi flm., er nú kveður sjer hljóðs, muni vegna þess er hann hefir nýlega gert í öðru máli, afturkalla hluttöku sína í flutningi þessa máls. Því hjer er ekki um meira rjettlæti að ræða en í því máli, er hjer var á dagskrá næst á undan.

Vænti jeg þess, að hv. dm. ljái máli mínu fylgi. Og til þess að sannfæra þá enn betur, ætla jeg að lesa upp símskeytin, sem jeg fjekk frá hlutaðeigendum. Hreppstjórinn segir svo:

„Þar eð mjer eru kunn einróma mótmæli hreppsbúa Reyðarfjarðarhrepps um sölu á Hólmalandi eða hluta úr því til Eskifjarðarhrepps, þá leyfi jeg mjer fyrir hönd hreppsbúa að mótmæla því til sölu. Oddur Bjarnason hreppstj. Reyðarfjarðarhrepps.“ (GunnS: Merkilegt plagg þetta!!). Það er merkilegra heldur en plögg hv. frsm. meiri hl., og að það, sem hann segir. (GunnS: Jeg á eftir að tala).

Já, og jeg er ekkert hræddur við það, þó að hv. þm. tali á eftir mjer, því honum er margt betur gefið en að verja rangt mál.

Þá kemur umsögn hreppsnefndarinnar, er hljóðar svo: „Á fundi hreppsnefndar Reyðarfjarðarhrepps, sem haldinn var á Búðareyri 3. apríl, voru samþykt mótmæli gegn sölu á Hólmalandi. Einn hreppsnefndarmaður veikur í Reykjavík, annar gat eigi mætt sökum þess, að fundurinn var boðaður fyrirvaralaust. Í hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps: Sigurjón Gíslason, Jón Pálsson, Þorsteinn Jónsson.“

Báðar undirskriftirnar eru staðfestar af stöðvarstjóranum. Svo ef hv. frsm. ætlaði sjer að mótmæla þessum skeytum á þeim grundvelli, að þau væru óstaðfest, þá hrek jeg það hjer með.

Jeg hafði litið svo á, að ef brýn nauðsyn væri til þess að selja jörðina, þá gæti þó komið til mála að selja hana alla. En slík nauðsyn var alls ekki fyrir hendi. En að ætla sjer að fara að selja þennan stóra hluta af henni, það nær vitanlega engri átt, og treysti jeg hv. deild til þess að samþ. það aldrei. Heldur vænti jeg þess, að hún geti fallist á þá rökstuddu dagskrá, er jeg ber hjer fram og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að mál þetta virðist að ýmsu leyti ekki nægilega undirbúið, enda eindregin mótmæli frá ýmsum aðiljum fram komin gegn sölunni, virðist deildinni ekki ástæða til að samþykkja lög um þetta efni að svo vöxnu máli og tekur hún því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Sjerstaklega er það með tilliti til málsins, sem hjer var afgr. næst á undan þessu, að jeg vona að hv. deild geti fallist á þessa dagskrá mína. Þessi tvö mál eru svo skyld, að það væri altof áberandi ósamræmi hjá hv. d., að afgreiða þau sitt með hvorum hætti.

Með því að jeg vil unna öllum sannmælis og rjettar, skal jeg geta þess, að það er rjett hjá hv. frsm. meiri hl., enda stendur það og í niðurlagi nál. meiri hl., að álits biskups hafi verið leitað, og hafi hann verið mótfallinn sölunni. En þetta er líka hið eina, sem er fullkomlega rjett hjá hv. frsm. Hitt er alt villandi, og það svo mjög, að það líkist óþægilega ósannindum, sjerstaklega með tilliti til þess, að presturinn tekur alt aftur, er hann hafði skrifað n., í síðara brjefi sínu til biskups.

Jeg veit, að hv. frsm. er svo lögskýr maður, að hann skilur það, að þó gerð hafi verið drög að samningum, en svo ekkert orðið úr því, þá má ekki líta svo á, að það er til orða kom, sje bindandi fyrir aðilja. Svo er það og í þessu máli.

Jeg held að jeg láti hjer nú staðar numið og gefi hv. upprunalegum flm. frv. orðið, svo honum gefist kostur á að segja álit sitt í þessu máli. Vænti jeg þess, að ef hv. d. ekki fellir þetta alveg, þá vísi hún því sömu leið og næsta máli á undan, og sem hv. flm. stakk þá upp á í því máli. En vissast teldi jeg þó, að hv. d. fjellist strax á dagskrá mína, sem prentuð er á þskj. 274 og jeg las upp rjett áðan.