14.03.1929
Efri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í C-deild Alþingistíðinda. (2768)

6. mál, hveraorka

Jón Þorláksson:

Hv. 6. landsk. vildi gera það úr brtt. minni við 1. gr. frv., að jeg vildi fella burt eignarrjett landeigandans að jarðhitanum. Þetta er misskilningur. Jeg held því fram, að rjettur jarðeigandans eigi, samkv. löggjöfinni, að halda áfram að vera sá sami og hann nú er, og get ekki fundið neina ástæðu til breytinga á þessum grundvallaratriðum, þó að tekið sje fyrir að greiða fyrir hagnýtingu jarðhitans. En rjettur landeigandans er ákveðinn í vatnal. frá 1923. Þau lög voru undirbúin af milliþinganefnd á árunum 1917–19, og þó að þá nefnd greindi á um margt, var öll nefndin sammála því, að telja hveri, laugar og ölkeldur til landsgæða. Um jarðhitann tók nefndin ekkert sjerstakt fram. Sú stj., sem lagði vatnalagafrv. fyrir þingið, naut stuðnings þess flokks, sem hv. 6. landsk. þm. taldi sig til þá, og frv. var samþ. óbreytt, hvað þetta atriði snertir, af þinginu. Þetta var árið 1923, og hefir síðan haldist óbreytt. En smátt og smátt hefir mönnum orðið ljósara, að hægt er að hagnýta jarðhitann betur, og bæta þannig úr brýnni þörf, sem ekki hefir verið hægt að fullnægja alt frá landnámstíð. Það, hve mikla þýðingu það hefir, að allur fjöldi manna geti hagnýtt sjer þennan hita, sýnir, að ekki er rjett að gera rjett landeigandans ríkari en hann er nú. Jeg skil ekki þann hugsunarhátt hv. 6. landsk., að ekki megi veita einstökum mönnum rjett til borunar, af því að þeir muni þá taka upp á því að gera það í gróðaskyni, vegna þess, að ef rjettur landeigandans er aukinn frá því, sem nú er, mundi hann auðvitað gera þetta sama, og taka þannig rjettinn frá almenningi, sem hefir brýna þörf fyrir þennan hita. Ef landeigandinn aftur á móti hefði þennan rjett nú, mundi jeg beygja mig undir það, en á frv. er bersýnilegt, að hjer er um aukningu á rjetti hans að ræða.