05.03.1929
Neðri deild: 14. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í C-deild Alþingistíðinda. (2888)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Flm. (Jón Ólalsson):

Þeir atburðir, sem hjer hafa gerst síðan á áramótum, að togaraflotinn hefir legið aðgerðalaus inni á höfnum vegna ósamkomulags þeirra tveggja aðilja, sem að þeim málum standa, og stórtjón það, sem af hefir hlotist, hefir hrundið frv. þessu af stað. Flm. hafa ekki talið þörf langrar grg. með frv. þessu, þar sem telja má víst, að hver hugsandi maður hafi myndað sjer rökfasta skoðun um það þjóðarmein, sem er á ferðinni, þegar stórvirkustu framleiðslutækin eru stöðvuð með kaupdeilum. Og síðustu dagana sýndi það sig, að slík kaupdeila getur átt sjer stað, ekki einungis af hálfu þeirra manna, sem lægri launin hafa, heldur kom það einnig fram áður en flotinn lagði úr höfn, sem öllum þótti ótrúlegast og flestum ofbauð, að þeir mennirnir, sem næst-hæst voru launaðir, hugðu að nota sjer tækifærið og sigla í kjölfar hinna með mjög svo ósanngjörnum launakröfum, þegar þeir hjeldu, að útgerðarmenn mundu verða að neyðast til að ganga að hverju sem væri.

Vjer Íslendingar erum nú að vísu, frá allra fyrstu tímum, orðnir vanir því að verða að mæta ýmsum áföllum frá náttúrunnar hendi. Eru þær plágur öllum kunnar, og þarf eigi að lýsa þeim hjer. En þess ber að gæta, að löggjöfin hefir gert sitt til að draga úr eða afstýra afleiðingum þeirra. En svo eru líka til aðrar þjóðarplágur, sem hvorki stafa frá ísum, eldgosum eða öðrum náttúruviðburðum. Og hjer er um eina slíka plágu að ræða. Á síðustu árum hefir löggjöfin líka komið auga á þetta, og talið sjer skylt að bæta úr. Og fyrsta sporið, sem stigið hefir verið til þess, eru lögin um sáttatilraunir í kaupdeilumálum, sem sett voru á Alþ. 1925. —

Jeg get gert ráð fyrir því, að fáir hafi gert sjer fulla grein þess, hver fjárhagsvoði fylgir verkföllum sem því, er hjer er á ferðinni, og hversu miklum tekjumissi allir þeir, er að einhverju leyti vinna við togaraflotann, bæði á sjó og landi, urðu fyrir í síðasta verkfalli. Til þess nú að geta gert mjer nokkra grein fyrir þessu, hefi jeg athugað hvað flotinn greiðir í kaupgjald, og er þá öllum öðrum gjaldliðum slept, sem flotinn greiðir, t. d. opinberum gjöldum og öðrum slíkum greiðslum, sem eru þó bæði margar og margvíslegar. Hefi jeg því aðeins talið kaupgjald það, sem togaraflotinn hefir greitt undanfarin ár, bæði á sjó og landi, við verkun og meðferð afla, netagerð o. fl., sem þessir forhötuðu menn, útgerðarmennirnir, gjalda. — Eftir rannsókn á árunum 1927–1928 greiddi togaraflotinn í kaupgjald um 1 miljón kr. á mánuði, miðað við 10 mánaða úthald á ári. En nú má gæta þess, að þá mánuði, sem fiskað er í salt, er nálega helmingi hærri upphæð greidd í vinnulaun heldur en þá mánuði, sem fiskað er í ís. Er því ekki of hátt áætlað, þótt gert sje ráð fyrir því, að á þeim tíma, sem hjer um ræðir, sjeu greidd 12–13 hundruð þúsund kr. í vinnulaun á mánuði, og að á þessum tveimur mánuðum hafi því allir starfsmenn við togaraflotann tapað í vinnulaunum nokkuð á 3. milj. kr.

Þessir menn, sem fá kaup sitt frá flotanum, hafa því orðið að taka lífsframfæri sitt annarstaðar þennan tíma; í besta tilfelli eyða því, sem þeir höfðu sparað saman, eða þá að skulda fyrir því — eða svelta, fyrir þessar ráðstafanir. —

Eins og jeg gat um áðan, þá hefir löggjafarvaldið sjeð þörfina á því að taka þetta mál í sínar hendur. Og það má óhætt fullyrða, að lögin um sáttasemjara frá 1925, hafi komið miklu góðu til leiðar. Nægir að benda á samningana, sem voru gerðir á árinu 1925 og runnu út um síðustu áramót. Þeir sköpuðu fullkomna ró um þessa atvinnu þann tíma, er þeir giltu. — Flm. þessa frv. þykjast þó vissir um, að þau lög myndu reynast enn betur og koma að meira gagni, ef báðir aðiljar ættu von á endanlegri dómsúrlausn, að enduðum margítrekuðum sáttatilraunum. Og til skýringar þeirri skoðun okkar flm. vil jeg minna nokkuð á, hvernig þessir kaupsamningar hafa gengið til.

Það er reglan, þegar samningar hefjast, að báðir aðiljar stilla kröfum sínum svo fjarri hófi, að ekki má annað sjá, en að fyrirbygt sje, þegar frá upphafi, að nokkurt samkomulag geti náðst. Þetta getur maður sagt, að eigi sjer stað frá báðum hliðum. Nú er það þegar í upphafi sýnt, að ef nokkurt samkomulag á að nást, þá verða báðir aðiljar að slaka til, enda munu þeir báðir gera ráð fyrir því frá upphafi. Og þessi tilslökun verður að vera æðimikil frá fjarstæðum þeim, sem fyrst voru nefndar. En alt kostar þetta mikið karp og tíma, þótt saman dragi á endanum. Ef til væri, áður en vinnudeilan byrjar, endanleg dómsúrlausn óhlutdrægra manna um sanngjarnt kaup, þá væri þó fenginn grundvöllur, sem lægi nær hinum sanna heldur en öfgar þær, sem nú er byrjað á að tala um. Þá væru heldur ekki samningatilraunirnar vonlausar frá upphafi, eins og heita má, að þær sjeu nú. Og það er trú okkar flm., að lög sem þetta frv., myndi verða til þess, að samkomulag fengist áður en til dóms þyrfti að draga. Þetta, ásamt 1. frá 1925, myndi því í flestum tilfellum koma í veg fyrir langvarandi vinnudeilur og vinnustöðvun.

Með frv. þessu er nú ekki um neina áður óþekta nýjung í löggjöf að ræða. Í Noregi hefir verið um tíma löggjöf svipuð þessu frv. — Að vísu eru þau lög sett til bráðabirgða og munu falla úr gildi í næstk. ágústmánuði, ef þau verða ekki framlengd. Lög þessi hafa gert þar mikið gagn, svo að ekki hefir að ráði komið til úrslita um vinnudeilur, heldur hefir náðst samkomulag með samningum, og sanngirni ríkt og vinnufriður skapast vegna laganna. Er nú farið að ræða þar um framlengingu þessara laga af hálfu beggja aðilja, og er hinn sanngjarnari hluti þeirra beggja með framlengingu laganna. —

Annars er fróðlegt að athuga hverjir mest eru á móti slíkum lögum sem þessum í Noregi, en það eru undantekningarlaust auðhringirnir annarsvegar en æstustu hlutar verkamanna hinsvegar, eða þeir menn, sem fyrir þeim ráða. En millistjettirnar, sem eru friðsamar, telja nauðsynlegt, að til sjeu lög, sem hamli móti þeirri kúgun og tjóni, sem af vinnudeilum leiðir. Sanngjörnu mennirnir sjá nauðsyn þessa máls, en öfgamennirnir til beggja hliða leggjast á móti, þar sem þeir sjá, að það vald, sem þeir hafa, og sem er hið eina vald, sem leiðir til kúgunar, er lamað með slíkum lögum. Það er því von, að þeim sje illa við þetta.

Hjer á Íslandi er nú ekki hægt að tala um neitt auðvald, nema þá í blöðunum. Og ekki er heldur hægt að segja, að hjer sje til nein svartnættis eymd eða volæði. Hvorugt er til nema í æsingagreinum blaðanna. Hjer er mest um bjargálnamenn í hverri stjett eða grein þjóðfjelagsins sem er. Slíkri þjóð ætti því að vera þau lög kærkomin, sem fyrirbyggja þá allsherjar bölvun fyrir land og lýð, sem vinnudeilurnar hafa í för með sjer.

Því hefir verið opinberlega hreyft, gegn frv. þessu, að það tæki ákvörðunarrjettinn af þeim aðiljum, sem að þessum málum standa, og væri þess vegna kúgun. En jeg verð nú að segja það, að jeg veit ekki meiri kúgunarrjett en þann, sem þessir aðiljar taka sjer, og sem myndast hefir og beitt er við verkföllin. Þar ræður hvað lítill meiri hluti sem er, því þótt nær helmingur vilji vinna, þá fá þeir það ekki. Það má taka það dæmi, að ef 200 manns vilja vinna, en 201 ekki, þá eru þessir 200 menn kúgaðir af þessu 1 atkv. meiri hl. til þess að ganga með hendur í vösum og leggja sig og sína undir þá bölvun og tjón, sem af því leiðir, að fá ekki að vinna, þótt þörf og hugur heimti.

Jeg þekki ekki meiri harðstjórn en þá, sem hjer tíðkast, að jafnan sje hægt að kúga minni hl., hversu lítill, sem meiri hl. er.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara út í einstakar greinar frv. að þessu sinni. Þó vil jeg fara nokkrum orðum um 4 gr. frv., því verið gæti, að sú grein orkaði mest tvímælis.

Það sem við flm. höfðum aðallega fyrir augum við samningu þeirrar greinar, var það, að tryggja vinnudómi nægilega ró og festu. Samkvæmt því, sem við flm. leggjum þar til, álitum við, að dómurinn geti starfað í næði.

Mjer hefir verið sagt af merkum manni, sem oft hefir verið tilnefndur sem oddamaður í gerðardómum, að það sje næstum útilokað að starfa eða koma nokkru fram, þar sem tveir aðiljar fá sífelt að þrátta og rífast. Þessvegna höfum við flm. álitið, að þrír menn af þeim, sem dóminn skipa, yrðu fyrst og fremst að vera óvilhallir í deilunum. Við höfum í fyrsta lagi gert ráð fyrir, að hjeraðsdómarinn í hverju hjeraði yrði dómstjóri eða oddamaður dómsins. Það er álit okkar, að enginn maður hafi aðstöðu til að þekkja betur hag almennings í sínu hjeraði en hann. Til þess að sjá honum fyrir rólegri aðstoð, viljum við láta Hæstarjett skipa 2 menn í dóminn og 2 til vara. Teljum við, að þá sje sæmilega sjeð fyrir ró í dóminum og öðru, sem ætla má að komi honum að mestu liði. En svo má deila um, hvernig eigi að skipa þá tvo menn, sem auk þeirra eiga sæti í dóminum. Jeg get sagt það fyrir hönd okkar flm., að fyrir okkur er það ekkert aðalatriði, hver útnefnir þá, hvort deiluaðiljar gera það eða dómstjórinn. En við teljum, að ruðning úr dóminum sje nauðsynleg, því að þaðan þarf að útiloka alla hávaðamenn beggja megin.

Í 8. grein er gert ráð fyrir, að hvor aðili megi skipa sjer talsmenn til sóknar og varnar, eins og við aðra rjetti.

Það hefir flogið fyrir, að hvorutveggju aðiljar muni efast um, og ekki alveg að ástæðulausu, að þeir fái rjettan og óhlutdrægan dóm. Samt hefi jeg hvergi orðið verulega var við þann ótta, nema hjá mönnum, sem eru að einhverju leyti riðnir við æsingar. Og af minni löngu reynslu og nánu þekkingu á einstaklingum þessarar þjóðar, dreg jeg þá ályktun, að ekki þurfi að óttast að órjettlæti verði beitt í þessum efnum. Og sjerstaklega tel jeg það alveg útilokað, að rjettur hinna smáu verði þar fyrir borð borinn. Við flm. erum þess fullvissir, að sú hætta er svo lítil, að ekki þarf að taka tillit til hennar í þessu máli. Fyrir okkur er það aðalatriðið, að við teljum, að þetta frv. hafi blessun vinnufriðarins í för með sjer.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. Jeg vænti þess, að hv. deild taki því vel, og legg til, að því verði að lokinni umræðu vísað til hv. allshn.