29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (1025)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Pétur Ottesen:

Þó að margt hefi verið býsna sundurleitt í þeim umr., sem hafa orðið um þetta mál, þá hafa þó allir, sem talað hafa, lýst yfir, að þeir væru sammála um að verða við óskum og kröfum manna um, að stutt sé að því á allan hátt að greiða götu þess, að almennt verði hægt að nota það mikla afl, sem liggur óbundið í fossunum á Íslandi.

Það er alkunnugt, að við lifum á þeim stað á hnettinum, þar sem veðráttan oft og tíðum fer ómjúkum höndum um landsbúa. Þó að góðæri og mildir vetur hafi verið nú í nokkur undanfarin ár, þá eru Íslendingar of miklir sögumenn til þess að láta það villa sér sýn. Allir vita, að kuldinn í híbýlum manna hefir jafnan valdið okkur miklum erfiðleikum og á áreiðanlega mikinn þátt í því, hvað við höfum lítið mótstöðuafl gagnvart hinum ýmsu sjúkdómum, sem hafa herjað hér upp á síðkastið.

Það er svo um sveitirnar, að einmitt samfara bættri húsaskipun hefir hitaþörfin aukizt stórkostlega. Þessari hitaþörf í steinhúsunum er ekki hægt að fullnægja með öðru móti en því víðast í sveitum en annaðhvort að brenna þeim áburði, sem fellur mest til af, sauðataðinu, eða kaupa til þess kol frá útlöndum. Það hagar víða svo til, að ekki er um það að ræða að grafa mó úr jörðu. Hitt er alkunnugt líka, að nú er minna um hrísvið en áður, enda standa hugir landsmanna frekar að því að rækta skógana og láta þá blómgast heldur en að höggva þá niður og brenna. Við erum búnir að verða svo áþreifanlega fyrir barðinu á þeirri vangeymslu landsmanna. Sú illa meðferð skóganna hefir valdið okkur miklu tjóni.

Þar sem þetta stendur nú þannig, og þar sem allir, er talað hafa um þetta mál hér í dag, virðast vera mjög sammála um, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, þá þykir mér það harla undarlegt, hvað hefir slæðzt inn í þessar umr. Eftir því, sem fram hefir komið, ber ekkert á milli um stefnuna, — að hér sé takmark framundan, sem við eigum að keppa að.

Mér hefði því þótt eðlilegast, að umr. hefðu að mestu snúizt um þá hliðina á þessu máli, er að framkvæmdum lýtur, og hver ætti að verða þátttaka ríkissjóðs í að hrinda þessu máli í framkvæmd. En á það mál hefir ekki nokkur af þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað, neitt minnzt.

Eftir þessu ætti að mega líta svo á, að enginn hafi neitt sérstakt að athuga við ákvæði frv. hvað þetta snertir. Rétt er það, að samkv. þingsköpum á ekki að ræða sérstakar gr. frv. nú við þessa umr.; en hitt er jafnkunnugt, að ef menn finna eitthvað sérstakt athugavert við ákvæði frv., þá þykir gott og rétt að taka það fram nú þegar, til athugunar fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar. Og þetta hefir aldrei þótt keyra það úr hófi, að hæstv. forseta hafi þótt ástæða til að taka fram í.

Því hefir verið lýst yfir af stuðningsmönnum þessa máls, að um fjárframlög úr ríkissjóði og stuðning að öðru leyti til að hrinda þessu máli í framkvæmd fer vitanlega eftir getu og bolmagni ríkissjóðs á hverjum tíma. Það liggur því vitanlega mjög nærri — eins og gert hefir verið — að líkja þessu við þá ráðstöfun, sem gerð var í öndverðu um það, að verja fé úr ríkissjóði til þess að leggja vegi, byggja brýr, leggja síma og reisa vita og til annara verklegra framkvæmda. En slíkar framkvæmdir hafa verið gerðar frá ári til árs samkvæmt því, sem þingið hefir álitið um getu ríkissjóðs til þeirra hluta í hvert skipti. Þetta hefir verið lagt til grundvallar, auk þess sem lán hafa verið tekin í einstaka tilfellum til slíkra framkvæmda, sem ég nefndi.

Um þetta mál er það svo, eigi síður en vegi og brýr, að ekki getur verið um neina áætlun að ræða nema á mjög takmörkuðu sviði. Þess vegna virðist mér þetta mál horfa eingöngu þannig við, hvort nú eigi að leggja grundvöll að því, að ríkissjóður, þegar þessi skilyrði eru fyrir hendi, láti fé af mörkum í þessu augnamiði, — samkv. þeim lögum, sem gerð eru um þetta, og eftir óskum landsmanna sjálfra um þetta og bolmagni þeirra til að leggja fram fé á móti ríkissjóði. Mér finnst þetta vera svo afareinfalt mál, að ekki þyrfti um það að deila, og að allar deilur, sem hér hafa risið, séu utan við málið.

Hæstv. forsrh., sem talaði mikið og margt í þessu máli, hefir gert eitt orð að slagorði sínu. Ég nefni það eitt, af því að hann hefir lagt alveg sérstaka áherzlu á það. Þegar maður rekur nagla, fer það nokkuð eftir atvikum, hvað hart maður reiðir hamarinn að hausnum á naglanum. Þetta orð kom fram hjá hv. aðalflm. þessa máls, nefnilega að komið gæti til mála, að leggja það fé til þessa, sem yrði afgangs á hverju ári. Þetta þótti hæstv. forsrh. ákaflega einkennilega um mælt, (Forsrh.: Alveg rétt.) og hann dró af því þá ályktun, að hér fylgdi ákaflega mikil léttúð. Náttúrlega er það alveg rétt, að búskapur ríkissjóðs stendur oft höllum fæti, og hefir rekið að því — síðast að ég hygg 1923 —, að það hefir orðið að skera niður mikið af þeim verklegu framkvæmdum, sem ætlað var að vinna á því ári. Hinsvegar er líka alkunnugt, að hagur ríkissjóðs stendur sum árin það vel, að mikill afgangur verður. Vil ég benda á það, að hvorki meira né minna en fimm undanfarin ár hefir afgangurinn orðið 3½ millj. kr., sem varið hefir verið til ýmsra hluta, þ. á. m. til að inna af hendi ýmsar verklegar framkvæmdir. Svo að það þarf sannarlega ekki að vera hæstv. atvmrh. nein hneykslunarhella, þótt það yrði hv. flm. fyrir að tala um þetta afgangsfé. En það sé fjarri mér að álíta, að slíkar framkvæmdir sem frv. fer fram á, ættu að draga úr því framlagi, sem varið hefir verði undanfarið til verklegra framkvæmda. En hitt er víst, að af afgangsfénu hefir ekki verið varið nema nokkrum hluta til slíkra framkvæmda.

Um það þýðir ekki að deila, að allmiklum upphæðum af afgangsfé er nú þessi árin varið til ýmislegs, sem ekki kemst í nokkurn námunda við að vera eins nauðsynlegt og að lýsa hús í sveitum og hita þau. Ég hefi athugað það, að eftir ræðu hæstv. fjmrh. hefir verið greitt utan fjárlaga af þeim afgangi, sem varð á síðastl. ári, 3 millj. 88 þús. kr., eða þar um. Það, sem varið hefir verið til verklegra framkvæmda af þessum afgangi, er ekki nema 854 þús. kr., eða rúmlega það. Er það ekki nema dálítill hluti af þeim mikla afgangi. Ég býst við, að það orki mest tvímælis, hvernig afganginum hefir verið ráðstafað að ýmsu leyti fyrir utan þetta.

Það orkar oft tvímælis hvernig þessu afgangsfé er varið utan fjárlaga, og get ég í því efni bent á ýmislegt. Til óvissra útgjalda var á síðastl. ári varið 176 þús. kr. fram yfir það, sem áætlað var. Ég held, þegar þetta er athugað, að það sé fullkomlega réttmætt að tala um, að tekjuafgangi ríkisins á hverju ári væri vel varið í slíkar framkvæmdir, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Við skulum vænta þess, að Alþ. beri giftu til að áætla tekjurnar jafnan svo varlega, að í sæmilegu árferði verði alltaf nokkur tekjuafgangur, og jafnframt vænta þess, að vakað sé yfir því, að tekjuafganginum sé varið til jafnþarflegra fyrirtækja og þeirra, sem hér er um að ræða. Hinsvegar er það engan veginn meining flm. þessa frv. að byggja framkvæmd þessa frv. eingöngu á væntanlegum tekjuafgangi, — síður en svo, því að þegar búið er að samþykkja þetta mál á Alþingi, verður að sjálfsögðu farið eins að um þetta og um aðrar verklegar framkvæmdir, að áætla í fjárlögum ákveðna upphæð til þeirra árlega; enda talaði hv. 1. flm. um það í fyrstu ræðu sinni, að það yrði að ætla fé til þess í fjárlögum. Ég vænti þess, að nú sé þegar kominn sá skriður á þetta mál, að stjórnarvöld og Alþingi hafi það ekki að hornreku og að veitt verði til þessara framkvæmda árlega fé í fjárlögum eins og gert er nú til annara verklegra framkvæmda. Ég vænti þess ennfremur, eftir því sem fram hefir komið við þessa umr., að í svo stóru máli og hér er um að ræða hverfi aukaatriðin og hinir smávægilegu agnúar í skuggann, og að allir taki nú höndum saman um að hrinda því til framkvæmda; það verður til mikillar blessunar fyrir þjóðina.