05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Dómsmrh. (Jónas Jónason):

Ég vil segja nokkur orð viðvíkjandi því, sem hv. 3. landsk. sagði. Við höfum áður átt samleið um úrlausn þessara mála. En í augum hv. þm. er þetta brot á formi þess kerfis, sem hugsað var. En þetta er ekki alveg sambærilegt, því svo stendur á, að Eyfirðingar hafa haft ungmennaskóla kostaðan af ríkinu í 50 ár, og því ekki þótt hæfilegt að taka hann af þeim.

Það hefði verið einfaldara og mörgum kærara, hefði mátt sníða burt alþýðuskólann á Akureyri. En eins og Nd. hefir breytt þessu, þá á að vera reglugerðarákvæði um það, hvernig skólinn er starfræktur. Verði það hlutskipti mitt að eiga þátt í að ákveða þá reglugerð, þá mun ég miða fyrirkomulagið sem mest við hinn gamla Möðruvallaskóla og sníða það eftir þörfum Eyjafjarðarhéraðs og í fullu samræmi við það, sem verið hefir tilætlun Ed. Ég tel það sanngjarnt, að Eyfirðingar, sem engan héraðsskóla hafa, fái skóla, er sé hliðstæður Laugaskóla, Eiðaskóla og öðrum alþýðuskólum, og sem á engan hátt er miðaður við það að vera undirbúningsskóli fyrir menntaskóla.