06.03.1930
Neðri deild: 45. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í C-deild Alþingistíðinda. (1505)

212. mál, sundhöll í Reykjavík

Flm. (Jón Ólafsson):

Meðal hinna merkustu framfara hins nýja tíma eru efalaust þær, er lúta að eflingu íþrótta. Vil ég þar sérstaklega nefna þá íþrótt, sem fegurst er og nytsömust allra íþrótta, sundið. Hvaðanæfa af landinu berast fjárveitingarvaldinu beiðnir um styrki til þess að reisa sundskála og sundlaugar og til þess að halda uppi sundkennslu. Af þessu má sjá, að almenningur skilur nú til nokkurrar hlítar, hvers virði það er að kunna sund. Mönnum er nú almennt ljóst, að sundíþróttin er eitthvert öflugasta heilsumeðal kynslóðarinnar. Ekkert er betur fallið til þess að blása þjóðinni kjark og þor í brjóst en iðkun íþrótta. Auk þess ber á það að líta, að sundíþróttin kemur mörgum að liði í lífsháska, og það má ganga út frá því sem vísu, að ef sundíþróttinni er gaumur gefinn af hinu opinbera, þá mun hún gefa mörgum manninum líf á ókomnum öldum. Fyrir Reykjavík er þetta sérstaklega mikilsvarðandi mál, þar sem um útgerðarbæ er að ræða, þar sem meginþorri bæjarbúa sækir á sjó einhvern tíma æfinnar. Reykjavík má því sízt verða eftirbátur annara landshluta hvað sundíþróttina snertir. Þetta hefir mönnum skilizt, og því var það, að núv. hæstv. dómsmrh. flutti á þinginu 1928 frv. um sundhöll í Reykjavík. Þá lá fyrir þinginu áætlun um það, hvað slíkt fyrirtæki myndi kosta uppkomið, en áætlun þessi reyndist síðar mjög af handahófi og vanefnum ger og lítt á henni að byggja. Framkvæmd þessara laga var því frestað, í samráði við dómsmálaráðuneytið, sem þetta mál hefir til umsagnar og ráða, vegna þess að auðsætt þótti, að áætlunin væri of lág. Það kom sem sé í ljós við nánari rannsókn, að áætlunin 1928 var svo lausleg, að skakkaði fullum helmingi. Auk þess kom það á daginn, að ef hugmyndin um þrjár sundlaugar ætti að framkvæmast, þá færi hinn raunverulegi kostnaður langt fram úr tvöfaldri áætlun frá 1928. Stóð nú í nokkru þófi um þetta um hríð. Loks var áætlun bæjarstj. hrundið, og þegar ný áætlun var gerð vorið 1929, þá gerði hún ráð fyrir að kostnaðurinn næmi 400 þús. króna. Í þá áætlun vantaði þó eitt, sem hæstv. dómsmrh., og reyndar margir fleiri, hafa lagt mikla áherzlu á, nefnilega að veitt sé köldum sjó í laugina, byggð sjólaug í sundhöllinni. Sá aukakostnaður, sem af því leiðir, hefir verið áætlaður um 80 þús. króna, svo að heildarkostnaður sundhallarinnar er samkvæmt nýjustu áætlun 480 þús. kr.

Nú vil ég biðja menn vel að gæta þess, að það eru fleiri en Reykvíkingar, sem gagn hafa af þessari væntanlegu sundhöll. Í bænum er saman kominn fjöldi fólks af öllu landinu, og allir helztu skólar landsins eru í Reykjavík. Vitaskuld yrði sundhöllin notuð afarmikið af skólafólki og stæði því frjáls til afnota sem bæjarbúum. Ennfremur vil ég benda á það, að Reykjavík leggur svo mikið af mörkum til ríkisins, að sízt ætti að telja það eftir, þótt það legði þessu menningarmáli bæjarins nokkurn stuðning. Hygg ég, að Reykjavík sé vel að því komin að njóta dálítillar velvildar af hálfu þings og fjárveitingarvalds, þegar um slíkt stórmál er að ræða.

Eins og ég gat um áðan, gerir áætlunin frá því í fyrra ekki ráð fyrir þeim kostnaði, sem sjólaugin hefir í för með sér. Ennfremur hafa menn tekið eftir því, að í áætlunina vantar einnig klefa fyrir baðgesti til þess að klæða sig í, og áhöld til þess að hreinsa vatnið. Þetta eykur kostnaðinn töluvert. Sjóinn verður að leiða sunnan úr Skerjafirði, og er sá kostnaður lauslega áætlaður 70 þús. kr. ásamt lauginni sjálfri. Húsameistari ríkisins hafði ekki gert ráð fyrir nægilega mörgum baðgestum, að því er talið er, og því er álitið, að þurfi að fjölga klefunum. Bæjarstj. Reykjavíkur hefir falið okkur að fara þess á leit við Alþingi, að það veiti styrk til þess að koma sundhöllinni upp, sem nemi helmingi kostnaðar, eins og þegar reistar eru steyptar sundlaugar úti um land. Vonum við, að Alþingi sýni þann skilning á þessu mikla menningarmáli höfuðstaðarins. og reyndar alls landsins, að það sjái sér fært að leggja því það lið, sem fram á er farið. Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara fleirum orðum um þetta að svo komnu, en óska, að því verði vísað til 2. umr. og til fjvn. Hygg ég, að þar eigi það bezt heima, en annars geri ég það að engu kappsmáli. Þó skal ég geta þess, að mér virðist geta orkað tvímælis um það, hvort þessi 100 þús. kr. fjárveiting þarf ekki endurnýjunar við, til þess að ráðh. geti innt hana af hendi. Væntanlega tekur n. það sérstaklega til athugunar.