05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í C-deild Alþingistíðinda. (1785)

395. mál, fátækralög

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Hv. þdm. hafa haft tækifæri að kynna sér frv. til l. um breyt. á fátækralögunum, á þskj. 395, sem hér liggur fyrir. Það er borið fram samkv. ósk mæðrastyrksnefndarinnar. En sú n. er skipuð fulltrúum 15 félaga og hefir starfað nú allt að því heilt ár. Ég skal nefna félög þessi, svo að hv. þdm. geti séð, að það stendur æðimikill vilji bak við þessa breyt., sem frv. felur í sér. Þau eru: Kvenréttindafélag Íslands, Bandalag kvenna, Félag íslenzkra hjúkr­unarkvenna, Thorvaldsensfélagið, Hvíta­bandið, eldri deild, Hvítabandið, yngri deild, Hið ísl. kvenfélag, Lestrarfélag kvenna í Reykjavík, Ljósmæðrafélagið, Kristilegt félag ungra kvenna, kvenfé­lagið „Hringurinn“, Verkakvennafélagið Framsókn, Trúboðsfélag kvenna, Barnavinafélagið Sumargjöf, Hjúkrunarfélagið Líkn.

Nefndin hefir, eins og ég gat um áðan, starfað á annað ár og unnið aðallega að því að safna skýrslum um hag einstæðra mæðra víðsvegar á landinu, í því skyni að byggja síðar á þeim skýrslum till. um mæðrastyrk frá löggjafans hálfu. Vegna þess að þetta er stórt starf, hefir n. haft fasta upplýsingaskrifstofu í tæpt ár fyrir þessar einstæðu mæður. Hafa margar konur leitað til n., sem hafa verið í vandræðum, t. d. að fá barnsmeðlag greitt af barnsföður eða því um líkt.

Við þessa starfsemi hefir n. komizt að raun um, að einstæðum mæðrum er oft mjög erfitt að fá lögskipað meðlag greitt af barnsföður, sem getur m. a. stafað af því, að hann dvelji annarsstaðar, eða þá þrjóskist við að borga. Eins og nærri má geta, verður einstæðum og úrræðalitlum konum oft erfitt um að innheimta þetta gjald, þegar faðirinn vill ekki greiða það góðfúslega. Þurfa þá greiðslur meðlags­ins að fara gegnum hendur bæjar- eða sveitarstjórnar. Verður oft reyndin sú, að sveitar- eða bæjarstj. telur sér því aðeins skylt að greiða meðlagið, að móðir barnsins eða nánustu aðstandendur hennar, t. d. foreldrar, séu með öllu vanmegnugir að standa straum af uppeldi barnsins á eigin spýtur.

Nú sjá allir, hve mikil fjarstæða slíkt er á þeim tíma, sem við lifum á, að hafa slík fyrirmæli í lögum. Það getur tæplega talizt réttlæti, að heilsulítil móðir eða lúnir foreldrar hennar hafi allan tilkostn­að við uppeldi barnsins, en faðir þess losni við greiðsluskyldur sínar, ef telja má, að móðirin og hennar nánustu vandamenn geti séð barninu borgið.

Lög um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna frá 1921 mæla svo fyrir í 18. gr., að framfærslu og uppeldi óskilgetinna barna skuli svo hagað, sem hæfa þykir högum þess foreldris, sem betur er statt. Það virðist því auðsætt, að barnsföður ber að leggja fram sinn hluta til framfærslu barnsins, því að sjaldnast er barnsmóðir svo efnum búin eða aðstand­endur hennar, að ekki sé full þörf fyrir meðlag barnsföður til uppeldis og framfærslu barnsins.

Það hefir komið mjög greinilega í ljós, að við lögin frá 1921 um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna varð mikil breyt. á lífskjörum og lífsskilyrðum barnanna. Það er auðvitað með það fyrir augum, sem þessi nefnd hefir hafið starf sitt. Hún starfar aðallega á þeim grundvelli að reyna að tryggja það, að hinir ungu þjóðfélagsborgarar fái það uppeldi þegar frá byrjun, sem gefi þeim skilyrði til þess að verða nýtir og heilbrigðir menn.

Til sönnunar því, sem ég sagði um betri kjör barna nú, vil ég leyfa mér að lesa nokkur orð úr grg. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er eftirtektarvert, að dauðshlutfallstala óskilgetinna barna lækkar um helming á 4 ára tímabilinu 1920–25, eða fyrstu árin eftir að lög um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna eru í gildi, frá því sem var á næsta tímabili á undan, 1916–20, eða úr 111,5 af þúsundi niður í 63,5 af þúsundi. Á sömu tímabilum breyt­ist dánartala skilgetinna barna úr 62,5‰ niður í 50,6‰“.

Þetta er úr skýrslu, sem er allskostar ábyggileg og enginn getur rengt. Það er því greinilegt, að hin endurbætta löggjöf 1921 hefir stutt mjög að bættri heilsu þessara barna frá því, sem var á næsta tímabili á undan. Yngri skýrslur um þetta eru ekki til.

Þó að fleiri ástæður kunni að vera til þessarar lækkunar, þá má telja víst, að lögin um rétt óskilgetinna barna hafi átt sinn þátt í að minnka barnadauðann, og þá einkum það ákvæði, að mæður skulu eiga skilyrðislausan rétt til að fá meðlag greitt af dvalarsveit sinni. Það hefir orðið þyngst á metunum til að bæta lífsskilyrði barnanna.

Það er á þessum óræku tölum byggt, þegar mæðrastyrksnefndin leggur ein­dregið til, að fátækralögunum verði breytt í samræmi við áðurnefnd lög, þannig að mæðrum sé tryggður skýlaus réttur til að fá meðlag samkvæmt lögleg­um meðlagsúrskurði greitt af dvalarsveit sinni, sem svo auðvitað á kröfu til að fá það endurgreitt af barnsföður eða framfærslusveit hans. Þetta er það, sem n. leggur mesta áherzlu á. En að sjálfsögðu vakir fyrst og fremst fyrir n., að sem bezt sé séð fyrir velferð barnanna. Það er öllum ljóst, að heilsa og þroski barnanna fer svo að segja algerlega eftir því, við hvaða lífskjör þau eiga að búa fyrstu ár æfi sinnar. Þetta frv. er í 3 greinum, og það, sem ég nú hefi sagt, snertir 1. gr.

Þá kem ég að 2. gr. frv., sem er breyt. á 36. gr. fátækralaganna. Fyrsta málsgr. er óbreytt frá núgildandi lögum. Önnur málsgr. sömuleiðis, að öðru leyti en því, að við hana er aukið orðunum: og ekki er fátækrastjórn o. s. frv. Vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa nokkur orð úr frv., sem að þessari breyt. lúta: „Ekki er fátækrastjórn heimilt að taka sveitabörn frá góðum heimilum, þar sem vel fer um þau, þótt lægra meðlag fáist greitt með þeim annarsstaðar“.

Þetta er ekki nema örlítil breyt., en reynist oft örlagarík. Eins og kunnugt er, þá eru hér á landi engin sérstök heimili enn sem komið er fyrir umkomulaus börn, sem sveitar- og bæjarstjórnir geta ráðstafað börnum til. En eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, þá hefir alla tíð reynzt tiltölulega auðvelt hér á landi að útvega slíkum börnum góðan samastað. Og heimili, sem taka slík umkomulaus börn, gera það langoftast af mannkærleika, en ekki vegna meðlags, sem oft er býsna lágt, eins og allir vita.

Þess eru óteljandi dæmi, bæði fyrr og síðar, hverju ástfóstri fósturforeldrar umkomulausra barna hafa tekið við þessi börn. En margar þessara fósturmæðra eða foreldra eru ekki svo efnum búin að geta tekið börnin meðgjafarlaust; það er líka á allra vitorði. Það kemur oftlega fyrir, að útvega má börnum samastað fyrir eitthvað lægri meðgjöf en á því góða heimili, þar sem bezt fer um barnið, en það er með öllu óverjandi að taka tillit til þess, bæði vegna barnsins og eins fósturforeldranna, enda er það algerlega gagnstætt fátækralögunum. 34. gr. mælir svo fyrir, að ekki megi halda undirboð á framfærslu þurfalings. Vil ég með flm. þessa frv. leggja mikla áherzlu á, að lögbannað verði að taka barn úr góðra manna höndum, þótt hægt sé að spara eitthvað á lægra meðlagi með því að flytja það.

Um 3. málsgr. 2. gr. get ég verið fáorð. 36. gr. fátækralaganna mælir svo fyrir, að ekki megi skilja hjón samvistum, nema með samþykki þeirra. Ennfremur mælir sama gr. svo fyrir, að fátækrastj. þurfi leyfi foreldra til þess að taka barn frá þeim, nema heimilið sé siðspillandi fyrir barnið og illa fari um það. 3. málsgr. 2. gr. frv. er því eðlileg viðbót við 36. gr. fátækralaganna, eins og hún nú er orðuð.

4. málsgr. 2. gr. frv. er í samræmi við 64. gr. fátækralaganna, þar sem ákveðið er, að dvalarsveit, sem vanrækir að framkvæma fátækraflutning, missir rétt til endurgreiðslu frá framfærslusveit á styrk þeim, sem þurfamaður þiggur frá þeim tíma, sem flutningur hefði átt að fara fram og þangað til hann er framkvæmdur.

5. málsgr. 2. gr. frv. er til þess að taka af allan efa um það, að þegar ekki verður af fátækraflutningi fjölskyldu eða móður og barna eða barns, vegna þess að framfærslusveit getur ekki útvegað henni dval­arstað á sama heimili, þá skuli dvalarsveit ekki missa endurgreiðslurétt sinn.

Ýmislegt af því, sem ég hefi sagt, er tekið fram í grg. En ég hefi lagt minn skilning í grg. og leitast við í sem fæstum orðum að skýra betur efni frv. og þær kröfur, sem í því felast. Vona ég, að hv. þdm. geti léð því fylgi sitt og sjái, að hér er um sannarlegt mannúðarmál að ræða.

Ég vænti þess svo, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.