07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

420. mál, verðtollur

Haraldur Guðmundsson:

Ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv., og það þegar við 1. umr. þess. Fyrir þetta þing hafa verið lögð allmörg ný frv. um skattamál, og hefði vel mátt ná að afgreiða þau. Tel ég því alveg ástæðulaust að framlengja lög eins og þau, sem hér er um að ræða, lög, sem upphaflega voru sett aðeins til bráðabirgða og fyrir löngu átti að vera búið að fella úr gildi. Ef hæstv. stj. vill sinna þeim skattalagafrv., sem liggja fyrir deildinni, er auðvelt fyrir hana að fá þau afgreidd enn. Verðtollslögin eru svo ranglát og óskynsamleg, að það er óverjandi að framlengja þau eftir að bent hefir verið á aðrar leiðir til tekjuöflunar.