17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í D-deild Alþingistíðinda. (3563)

440. mál, styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum

Flm. (Magnús Guðmundsson:

......2) 2) Upphaf ræðunnar vantar. M. G. Ég hefi ekki ástæðu til að vera óánægður yfir síðustu orðum hæstv. atvmrh. Hann tók það fram berum orðum, að hann mundi í þessu efni fara eftir því, sem hv. d. samþykkti.

Hitt var óþarfi af honum, að lesa hér upp þetta langa bréf. Ég hafði aldrei rengt hann um, að hann hefði heimild til þeirrar breyt., sem gerð var á styrknum síðastl. ár. En þegar hann ber fyrir sig stj. Búnaðarfélagsins, þá er því til að svara, að hann er sjálfur í stj. félagsins og formaður hennar, svo að það eru þá hans eigin ályktanir, sem hann er að bera undir sjálfan sig.

Það er að vísu rétt, að ýmiskonar efniviður hefir lækkað síðan 1924, en á síðastl. ári lækkaði efni þó ekki, en þá hækkaði kaupið til mikilla muna. Ef ástæða var til að taka tillit til lækkunar efniviðarins, þá átti líka að taka tillit til hækkunar kaupsins. En þessu hefir hæstv. ráðh. gleymt, og er það algerlega rangt af honum.

Þó að Magnús Þorláksson sé kosinn af sjálfstæðismönnum í stj. Búnaðarfélags Íslands, þá skiptir það ekki neinu í þessu máli. Og þó að hann með nýtízku vélum á Blikastöðum geti gert ódýrar jarðabætur, þá er það ekki sambærilegt við afköst fátækra bænda uppi til dala.

Með þessari breyt. á styrknum er bændum gert rangt til og jafnframt gerð erfiðari aðstaða þeirra til ræktunar, því að þeir munu hafa gert sér vonir um, að styrkurinn héldist óbreyttur eins og hann var ákveðinn 1924. Breytingin um að leggja meira í dagsverkið þýðir ekkert annað en lækkun styrksins; um það þarf ekki að deila. Mér finnst, að hæstv. forsrh. geri lítilmannlega tilraun til þess að skjóta sér í þessu máli bak við Magnús á Blikastöðum. Hann gat ekki ráðið þessu án samþykkis hæstv. ráðh., sem einn fellir úrslitaúrskurð um þetta.

Með tilliti til þess, að hæstv. atvmrh. sagði, að hann mundi fara eftir því, sem hv. d. samþykkti, þá vil ég vona, að hann reyni ekki að hafa áhrif á sína fylgismenn hér í hv. d. til þess að greiða atkv. á móti þáltill. eða sálga henni á annan hátt.