19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (475)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég tel rétt að svara nokkru ræðu hv. 2. þm. N.-M., þó að hún væri hógvær og að mestu leyti hugleiðingar um, hvernig það mundi taka sig út, ef horfið væri að því ráði að selja Eskifjarðarhreppi Hólma. Mikið af þeim atriðum, sem hann kom að í ræðu sinni, liggur fyrir utan málið sjálft. Fyrri hluti ræðu hans snérist mest um það, að sýna fram á, að not Hólma fyrir Eskifjarðarbúa væru erfið og óheppileg. Það er ekki neinum blöðum um það að fletta, að Hólmar liggja 7½ km. frá Eskifirði. En það stendur svo á, að nú hefir verið lagður bílfær vegur um þetta svæði. Auk þess er gamli vegurinn, sjóleiðin, mjög hæg, öll innfjarða, lending á báðum stöðum góð, og sú leiðin miklu styttri, svo að skilyrði til þess að notfæra sér Hólma eru fyrir hendi. En ég tek þetta mjög vel upp fyrir hv. þm., því að ég þykist vita, að hann vilji gera það eitt, sem Eskifjarðarbúum megi að beztu haldi koma.

Í þessu sambandi kom hann að notum Eskifjarðarbúa af jörðinni. Þeir verða sjálfir að sjá fram úr því. En ég geri ráð fyrir, að hún verði að einhverju leyti notuð á þann hátt, að einstaklingar geti fengið bletti, sem þeir geta unnið að í tómstundum sínum. Og þó að jörðin sé langt frá, þarf það ekki að valda vandkvæðum, þar sem bæði er þangað bílvegur og sjóvegur, og flestir Eskifjarðarbúar eiga einhverjar fleytur, smærri eða stærri.

Þá kom hann að öðru atriði, sem virtist vera stærra, að jörð lægi að Eskifirði, sem heppilegt væri fyrir hann að fá til afnota. Það er rétt, að þessi jörð liggur að Eskifjarðarkauptími. En hún liggur ekki hagkvæmara en það, að til þess að hafa not af landi hennar, þarf að leggja á km. langan veg, veg, sem er nærri eins langur og vegur sá, sem búið er að leggja til Hólma. Ég fer hér ekki með neina staðlausa stafi, því að þetta stendur í álitsskjali Pálma Einarssonar, sem hv. þm. las upp úr, þótt hann sleppti þessu. Ég sé því ekki annað en að aðstaða Eskfirðinga til að notfæra sér þessa jörð sé töluvert verri en til þess að notfæra sér Hólma. Því að auk þess, sem þarf að leggja langan veg, er sjóleiðin ekki fyrir hendi í þessu tilfelli. Ef farið er að líta á þá hlið, hvor jörðin liggi betur fyrir kauptúnsbúum til notkunar, þá eru það tvímælalaust Hólmar.

Auk þess er það, að þó að þessi jörð verði fullræktuð, hefir hún engin skilyrði til þess að gefa meira en 30 hektara af fullræktuðu landi, og 2/3 hlutar eru mjög erfiðir til ræktunar. Það er aðeins 1/3 hluti lands, sem er vel fallinn til ræktunar, en þó fylgir sá böggull skammrifi, að sá hluti liggur undir áföllum frá ánni. Allir, sem búa við vatnságang, þekkja, hvert tjón getur hlotizt af aur og leðju, sem árnar bera, og getur valdið afskaplegu vinnutjóni. Auk þess liggur þessi jörð, Eskifjörður, undir brattri hlið, sem er sundurskorin af lækjum, og frá þeim stafar líka hætta.

Svo er eitt enn, sem þarf að athuga, að allar bollaleggingar um að láta kauptúnið fá jörðina Eskifjörð stranda á því, að jörðin er einstaks manns eign, eins og hv. 2. þm. N.-M. tók réttilega fram, og henni er haldið í svo háu verði, að hv. þm. kannaðist sjálfur við, að hún fengist ekki fyrir lægra verð en Hólmar.

Það má segja, að eitt úrræði sé þó, sem sé að þingið samþykki heimildarlög um, að Eskifjarðarkauptún geti tekið jörðina eignarnámi. En ekkert slíkt liggur hér fyrir. Enda er þess að gæta: Er ekki nokkuð varhugavert að leggja út í slíka aðferð, þegar kostur er á að láta af hendi við sanngjörnu verði landsnytjar, sem verða kauptúnsbúum að öllu leyti hagkvæmari og sem tryggt er, að komi þeim að fullum notum? Ég tel það ekki rétta aðferð að byrja á því að taka jörð eignarnámi til þess að bæta úr þessari þörf, vitandi það, að aldrei verði það nema bráðabirgðaúrlausn. Ég held, að það muni að öllu leyti heppilegra að fara þá leið, sem frv. gerir ráð fyrir.

Þó að með nokkrum árafjölda megi rækta allt ræktanlegt land Eskifjarðar og koma því upp í 30 hektara, sjáum við, að það fullnægir ekki þeirri mjólkurþörf, sem nú er á Eskifirði. En á Hólmum er stórt mjólkurbú, ég hygg að túnið muni vera 8 ha., og það er tiltækt til þess að bæta úr hinni bráðustu þörf. Hitt, að vísa Eskifjarðarbúum á jörðina Eskifjörð til ræktunar, það er að gefa þeim steina fyrir brauð.

Þá kom hv. þm. að ýmsum annmörkum á því að selja Hólma. Fyrst varð það fyrir honum, að Hólmar lægju í öðrum hreppi. Þetta er rétt, en þess ber að gæta, að Eskifjörður liggur það líka. Svo að það tilefni til slæmrar sambúðar milli hreppanna, sem mér virtist hv. þm. óttast, gæti alveg eins komið fram, þó að Eskifjörður yrði tekinn handa kauptúninu.

Hann benti á, að ekki lægi fyrir þinginu umsögn hreppsbúa Reyðarfjarðarhrepps, sem Hólmar liggja i, um þetta mál. Þetta er rétt; en þess ber að gæta að þetta mál er ekki nýtt. Það kom fyrir þingið í fyrra, en var þá stöðvað, þótti víst vanta upplýsingar. En mér virðist, að þegar málið hefir verið fyrir tveimur þingum, og hreppsbúar í Reyðarfjarðarhreppi ekki látið eitt einasta orð til sín heyra, þá bendi það til þess, að þeir hafi ekki neitt sérstakt við það að athuga. Ég geri ráð fyrir, að ef þeir teldu sig feikilegu misrétti beitta, hefðu þeir látið til sín heyra.

Þá kom hann að því, að Hólmar væru prestssetur, og það væri varhugavert að selja prestssetur frá afnotum presta. Ég veit fyrir víst, að sá prestur, sem hefir þjónað á Hólmum á undanförnum árum, er einn af líklegri prestum landsins til þess að notfæra sér búskap. Þó fór svo um hann, að hann gafst upp við að búa á Hólmum og fluttist til kauptúnsins. Hvað mundi þá mega ætla um stúdenta, sem sæktu um þetta brauð? Hvort mundu vera meiri líkur til þess, að þeir óskuðu að setjast að á stórri jörð eða í kauptúni? Eins og nú er ásatt um búnað allan, hygg ég, að flestum félitlum ungum prestum mundi reynast búskapurinn þar fremur harmabraut en léttir.

Hv. þm. vék að því, að hann teldi prestum hollara að búa í sveit en kaupstað. Ég skal ekki fara mikið út í þær hugleiðingar. En ég hefi sjálfur þá trú á kauptúnum, að þau séu ekki sá spillingarakur, að prestarnir geti ekki búið þar. En ef svo væri, teldi ég miklu meiri ástæðu til þess að setja þangað prest, til þess að vita, hvort hann gæti ekki bætt úr ástandinu. Ef við finnum ágalla á menningunni í kauptúnum, ber okkur skylda til þess að vinna að því, að hún komist í betra horf. Og ég tel eitt bezta meðalið til þess að tryggja menningu kauptúnanna, að þau eigi aðgang að nægilegu ræktanlegu landi. Ég hygg, að við hv. 2. þm. N.-M. getum orðið samferða í því aðleggja okkar litla lóð í þá skál, að menningin í kauptúnunum mætti vaxa svo, að hinni gömlu góðu sveitamenningu þyrfti engin hætta að vera búin af henni.

Hv. þm. kom að lokum að því, að hann teldi óheppilegt að seilast inn í miðja aðra sveit eftir jörð til þessara nota. Það er rétt, að farið er inn í annan hrepp, en það er langt frá því, að farið sé inn í miðjan hreppinn, því að þetta verður að teljast á öðrum enda hans. Vegalengdin milli Eskifjarðar og Búðareyrar er 15 km., en 7½ km. milli Eskifjarðar og Hólma; fyrir innan Búðareyri nær hreppurinn 5 km., og svo 20 km. út með firðinum að sunnanverðu; svo að það er ekki alveg rétt að segja, að hér. sé farið inn í miðja sveit. Hefði hér verið um Kollaleiru að ræða, hefði það verið nær sanni, því að Kollaleira er Reyðfirðingum miklu meira virði heldur en Eskfirðingum geta orðið Hólmar.

Ég held, að sú þögn, sem um þetta hefir verið frá báðum hreppum, bendi til þess, að þessir aðiljar kannist við það, þótt það sé e. t. v. nokkurt metnaðarmál að láta ekki plokka jarðir út úr hreppnum, að þetta er Eskfirðingum hið mesta nauðsynjamál, og þess vegna ekki fundizt ástæða til andmæla.

Ég vænti þess, að hv. d. sýni þessu máli sömu sanngirni og hún hefir sýnt samskonar málum áður og samþykki þetta frv.