26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

Þingvíti

Pétur Ottesen:

Hv. form. fjvn. hefir gert grein fyrir, hvernig á því stóð, að við, sem sæti eigum í þeirri nefnd, mættum ekki á þingfundi í gær. Tafir þær, sem við urðum fyrir þá, hafa þannig orðið þess valdandi, að tekið var til þess, sem ég minnist ekki, að gert hafi verið áður, a. m. k. ekki síðan 1916, er ég kom fyrst á þing, að setja þdm. í þingvíti, sem þannig hafa verið forfallaðir. Ég verð því að líta svo á, að með þessu tiltæki hafi sérstaklega verið stefnt að þeim mönnum, sem hér áttu hlut að máli, fyrst ekkert hefir verið gert þessu líkt í svipuðu tilfelli áður.

Hæstv. forseti hefir nú lýst því yfir, að hann taki aftur eða afturkalli þann dóm, sem hann felldi yfir okkur í gær. Þar með er tekin aftur sú ákvörðun, sem hæstv. forseti gerði, að við yrðum sviptir þingkaupi þann dag. En form. fjvn. hefir lýst því yfir fyrir hönd n., að við munum ekki taka á móti þingkaupi fyrir þennan dag, hvernig sem dómur hæstv. forseta fellur nú. Það, sem hafzt hefir þá upp úr þessu, er það, að ríkissjóði sparast þessar krónur, og ber að virða hverja tilraun, sem ráðamenn Alþingis gera til þess að spara fé ríkissjóðsins. — En þess verður að krefjast, að fylgt verði uppteknum hætti um það að beita þessum ákvæðum þingskapa í fleiri tilfellum en þeim þegar fjvn. á í hlut.