14.04.1930
Neðri deild: 80. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (730)

359. mál, bryggjugerð í Borgarnesi

Bjarni Ásgeirsson:

Ég vil aðeins neita því, sem hv. þm. Barð. sagði, að þetta frv. væri meinlaust og gagnslaust. Það kann að vera, að frv. sé meinlaust, en það er ekki gagnslaust. Það er eina leiðin, a. m. k. sem hér liggur fyrir, til þess að gefa þeim þar efra nokkra aðstöðu til að ráða verulega um það, að ekki sé að óþörfu hlaðið á þá útgjöldum vegna upp- og útskipunar þar á staðnum. Það er ekkert annað, sem verið er að ákveða. Þó að höfnin sé komin, þá geta þau skipafélög, sem annast flutninga til þessa staðar og frá, vel haft nokkurskonar einveldi um verð á upp- og útskipun hér eftir sem áður. Ég sé því ekki, að neinu sé bættara að draga málið; og þótt komið hafi mótmæli frá sýslumanninum í Borgarnesi, þá verð ég frekar að skoða það svo sem frá „privat“-manni, heldur en svo, sem þarna komi í ljós almenningsvilji.

Þó að ég geti viðurkennt, að þetta mál gæti vel farið í verri stað en til hæstv. stj., þá álít ég þó betri stað fyrir það, ef það verður að lögum, og vil þess vegna eindregið leggja til, að það gangi fram.