30.01.1930
Efri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (815)

22. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 3. landsk. hefir nú haldið allítarlega ræðu og mun ég og svara á sama hátt. Hann segir, að rétt sé að segja, ef tveir menn eru bornir saman, að sá hærri þeirra sé hæstur. Ég ætla ekki að eyða orðum að þessari málfræðisvitleysu, sem hvert skólabarn getur rekið ofan í hann. En þetta var ekki óviðeigandi inngangur að ræðu hans.

Þá var hv. þm. að tala um að fleiri réttir væru til en undirréttur og hæstiréttur, t. d. gestaréttur. Því minntist ekki hv. þm. á stauparétt, sem aðstoðarmaður fyrrv. bæjarfógeta í Reykjavík hélt í tíð íhaldsins. Því fremur hefði hv. þm. átt að minnast þess, þar sem umræddur dómari stýrði þá aðalblaði flokks þessa hv. þm. og stýrir nú flokknum til hagsmuna blaðinu „Stormi“.

Hv. þm. leggst ákaft á móti því, að efsti dómstóll landsins beri þjóðlegt nafn. Þessi óþjóðrækni og skortur á sögulegri tilfinningu kemur alstaðar fram hjá honum. Hann getur ekki lengi skreytt sig með frelsisfjöðrum af Birni heitnum Jónssyni og öðrum, meðan hann vill ekki losa sig við orðskrípi af aðaldómstóli landsins, orðskrípi, sem myndazt hefir á mestu niðurlægingartímum þjóðarinnar. Af þessari sömu vöntun á þjóðræknistilfinningu er hann að sparka í Norðmenn fyrir þjóðernisvakningu þeirra. Að vísu býst ég ekki við, að Norðmönnum geri það mikið til, þó að maður með slíkan sögusmekk narti í þá. Þeir munu halda áfram baráttu sinni eftir sem áður og gera landið sterkara.

En það vantaði hinsvegar ekki þjóðrembinginn hjá hv. 3. landsk., þegar hann vék að okkar eigin sögu. Hann sagði, að við hefðum engu glatað á niðurlægingartímunum, alls engu. Ég gæti trúað, að sagnfræðingunum þætti þetta nýstárleg uppgötvun. Hvernig stóð þá á viðreisnarbaráttunni ? Hvaða erindi áttu þeir þá Fjölnismenn og Jón Sigurðsson? Hvernig stendur á því, að við áttum Hallgrím Pétursson einan stórskálda í margar aldir, en höfum eignazt 10–12 stórskáld síðan fór að rofa til í þjóðlífinu snemma á 19. öld og mörg ágæt skáld áður en vér glötuðum frelsi voru? Allt þetta hefir hv. þm. enga hugmynd um. Þetta var vegna þess að við vorum svo kúgaðir um tíma, að hæfileikarnir nutu sín ekki og sú kúgun spratt frá Dönum, sem á eymdartímum landsins gáfu buguðum íslenzkum stjórnmálamönnum þeirra Höjesteret. Hv. 3. landsk. hefir hér sýnt sig sem hinn fáfróðasta sleggjudómara, sem til er. Um smekkinn fyrir sögu landsins þarf ekki að tala, enda er það í minnum haft, hvílíkt ræktarleysi þessi hv. þm. hefir viljað sýna hinum forna alþingisstað.

Hv. 3. landsk. vitnaði í þau hógværu orð, þar sem segir í aths. við frv., að hæstiréttur hafi ekki notið alveg eins mikils trausts og æskilegt hefði verið. Var hann og að tala um, að sýslumaður Árnesinga hefði veitzt að hæstarétti. (JÞ: Ég nefndi hann ekki). Ég álít, að hv. þm. ætti að hefja heimatrúboð hjá sjálfum sér fyrst, því að ég ætla, að enginn hafi viðhaft skarpari áfellisdóma um hæstarétt en Lárus Jóhannesson, þegar hann sagði, að „ekkert réttlæti“ væri til í landinu, ef hæstiréttur dæmdi skjólstæðing hans sekan, eins og rétturinn gerði. Ef þetta er rétt, þá eru þetta stór orð. En ég álít nú, að þetta sé ekki rétt og að L. J. hafi tekið allt of mikið upp í sig. En að því leyti, sem hv. 3. landsk. var að tala um, að sýslumaður Árnesinga hefði rangt fyrir sér í skýringum um glæpamál, sem dæmt var í héraði og í hæstarétti, þá verð ég að segja það, að þeir, sem kunnugir eru brunamálinu á Stokkseyri, munu líta nokkuð svipuðum augum á það og sýslumaður. Þegar þessi sýslumaður sagði af sér embætti sínu eftir að hæstiréttur lét falla nokkur harðyrði í hans garð, — ég læt alveg ósagt, hvort hann sagði af sér út af því, — enda veit ég ekki annað en allt héraðið hafi sent sýslumanni traustsyfirlýsingu og beðið hann að vera framvegis sinn dómara. Það hafa ekki fleiri blandazt í það mál heldur en hæstiréttur og fólkið sjálft í Árnessýslu. Ég skal ekki segja, hvort fólkið var að svara hæstarétti eða ekki. En hitt vil ég láta hv. þm. vita, að ef sýslumaður Árnesinga hefir fengið einhverja hnútu frá hæstarétti, þá er mér ekki kunnugt um nokkurn dómara síðan Skúli Thoroddsen var uppi, er hafi fengið jafnmikið traust frá sínum sýslubúum eins og þessi sýslumaður einmitt fyrir góða framkomu í sínu héraði. Myndi það lítill sómi aðaldómstóli landsins, ef hann hefði skapað sér svipaða aðstöðu gagnvart Magnúsi Torfasyni eins og undirdómarar og landsyfirréttur hlutu í ofsóknarmáli íhaldsins gegn Skúla Thoroddsen. En um þessa hlið skal ekki orðræða meira hér. En þetta segi ég aðeins vegna þess, að hv. þm. fór að blanda inn óviðkomandi efnum. Of ef hv. 3. landsk. vill leita vitnisburða um dómara í landinu, þá get ég bent honum á ummæli Lárusar Jóhannessonar, samherja hans, í Júpítermálinu. Hvað hann hefir haft rétt fyrir sér, læt ég ósagt.

Þá kom hv. þm. að einstökum atriðum öðrum í frv. M. a. hélt hann fram, að með meðdómaraákvæðina væri verið að gera réttinn háðan umboðsvaldinu. Slíkur skilningur, — að fimmtardómur sé háður umboðsvaldinu, einmitt þessi réttur, sem velur sér meðdómendur og ákveður sjálfur, hvenær hann álítur málin svo stór og vandasöm, að þörf sé fleiri manna. Þetta er eitt af þeim sjálfsögðustu atriðum í frv., og sýnir það, að ætlazt er til, að rétturinn starfi óháður, en hafi fullan skilning á því, hvenær þörf sé á að auka við starfskröftum.

Sú skoðun hv. þm., að réttara væri að láta réttinn stækka í vissum málaflokkum, en ekki þegar rétturinn álítur þurfa, sýnir ókunnugleika hv. þm. á þeim málum, sem koma fyrir í hæstarétti. Við skulum segja, að í öllum þjófnaðarmálum ætti að kalla meðdómendur til. Það getur verið einfalt þjófnaðarmál, — eða þá ákaflega flókið. Allar tegundir mála geta verið þannig, og það er ómögulegt að flokka á nokkurn hátt betur en að dómarar geri það sjálfir. En ég hefi hvergi orðið var við meira vantraust á dómurum heldur en hjá hv. 3. landsk., því að hann álítur dómurum ekki treystandi til að segja til um það, hvort málið er stórt eða lítið. Hverjir eru það þá, sem eiga að tala illa um þá? Kannske einna helzt aðaleigendur Morgunblaðsins. Ég held það sé svo fátítt að tala illa um þá, að ekki kæmi að sök, þótt einhver talaði um, að nú eigi að fjölga í réttinum eða ekki fjölga.

Þá kom hv. þm. að prófuninni, sem hann sagði, að fallið hefði út úr þessu frv. Hann gætti þess ekki, að einmitt þetta próf var látið falla niður, þegar hæstiréttur var skipaður. Það er beint tekið fram í lögunum, að það nái ekki til fyrstu dómaranna. Hv. þm. ætti að skilja, að það, sem gat gengið 1919, það getur gilt 1929 og 1930. Veröldin hefir ekki breytzt það mikið síðan, að ný lögmál þurfi að koma til.

Hv. 3. landsk. sýnist vera um það hugað að skapa það alhættulegasta ástand, sem hægt er að skapa í réttarfari nokkurs lands, að dómsvaldið verði nokkurskonar klíka, alveg óháð þjóðlífinu að öðru leyti. Við skyldum gera ráð fyrir þeirri tilviljun, að allir dómarar í aðalrétti landsins væru adventistar. Hugsanlega myndu þeir þá — eins og góðum, trúuðum mönnum sæmir — fella hvern þann dómara, sem fylgdi ekki þeirra trúarstefnu. Ætli slík aðstaða yrði sérlega heppileg fyrir þjóðlífið? Þvert á móti er það stórhættulegt. Því að þegar allt kemur til alls, þá er það svo í öllum löndum og hefir verið á öllum öldum, að góður dómur er ekki annað en fræðilega framkvæmd og „krystalliseruð“ réttarmeðvitund almennings. Það er ekki til neins að reyna að aðskilja réttarmeðvitund almennings og dómara. Ég skal fræða hv. þm. um það, ef hann er eins illa að sér í sögu Dana eins og Íslendinga, að þegar hæstiréttur Dana dæmdi hvern dóminn af öðrum, pólitíska dóma eins og fangelsisdóm Bergs foringja vinstrimanna, þvert ofan í réttarmeðvitund þjóðarinnar, þá varð engu minni óánægja með réttinn heldur en með Estrup og stjórn hans. Ofsafengið, hatursfullt og blint íhald var að verki í báðum tilfellunum. Ég býst ekki við neinu svipuðu tilfelli hér, fyrr en ef sorgleg reynsla færir það í skauti sínu, sem ég tel ekki beinlínis líklegt, og útilokað, ef það skipulag verður upp tekið, sem hér er um að ræða. En þar sem slíkt hefir komið fyrir í landi, sem ekki er lakar menntað en Danmörk, þá er enginn kominn til að segja, að loku sé skotið fyrir slíkt hér, ef menn beinlínis leggja sig fram um það, að æðsta stofnunin verði utan við allt líf í landinu frá kynslóð til kynslóðar, án þess að vera nokkuð háð þróun mála í landinu. Nei, ég býst við, að hv. þm. eigi eftir að sjá og læra það við meðferð þessa máls, að þetta frv. er bæði í þessum efnum og öðrum í fullu samræmi við réttarmeðvitund menningarþjóðanna.

Þegar hv. 3. landsk. er í sinn hóp og talar við þá menn, sem hugsuðu eins og menn hugsuðu 1919, þegar menn líktu um alla þessa hluti eftir danska hæstaréttinum, þá er auðvitað hægt að látast vera vitur. En það geta komið þau augnablik, þegar hv. þm. stendur þannig að vígi, að það er ekki til neins fyrir hann að gera sig gildan af vanþekkingunni einni saman.

Þá kom hv. 3. landsk. að hinni opinberu atkvgr. Um það atriði hafði hann nokkurnveginn sómasamlegt orðbragð. Ég ætla nú ekki að fara langt inn á það, hvaða aðstöðu dómarar í æðstu stofnun landsins ættu að hafa opinberlega gagnvart almenningi. En þrátt fyrir aths. frv. um fyrirkomulag þessa atriðis hjá frændþjóð okkar, Norðmönnum, þá er ekki gengið eins langt í þessu frv., og það er gert til að skylda aðaldómstólinn til að leggja fram öll sín rök. Í Noregi er það þannig, að dómarar hlusta á málafærslumenn og koma síðan fram með sín rök. Áheyrendur hlusta á þau rök. Þegar þessu er lokið, er gengið til atkvæða, alveg eins og hér í deildunum. Þetta á sér nú stað í Noregi, sem mun þó ekki verða talinn minna menningarland en Ísland. En ég hefi, í samráði við einn af mestu lagamönnum þessa bæjar, sveigt í frv. inn á það, að við stigum þetta spor ekki til fulls, eins og er í Noregi, heldur er gert ráð fyrir, að atkvgr. og rökstuðningur fyrir henni sé opinber, en ekki innbyrðis umræður dómaranna. Það getur verið, að eitthvað megi umbæta orðalag á þessu í nefnd, enda eru nefndir til þess settar.

Hv. þm. sagði, að umboðsvaldið gæti ekki vikið dómurum úr embætti. Þar tók hann réttilega fram, að það hefði ekki verið hægt fyrir Magnús Stephensen landshöfðingja að víkja dómara úr landsyfirréttinum frá, á sama hátt og Skúla Thoroddsen var vikið frá. En þetta útilokar alls ekki það, sem Jón Magnússon gerði 1919, er landsyfirréttur var lagður niður og nýr dómstóll skapaður. Í frv. um hinn nýja dóm og öllum umr. um það er alls ekkert talað um það, hvort dómarar úr landsyfirrétti ættu að vera sjálfsagðir inn í hæstarétt. Alveg eins er farið að hér. Spursmálið er látið vera opið. Það kemur ekki þinginu við, heldur þeirri stj., sem að völdum situr þegar nýbreytnin er gerð. Ef einhver dómari vill ekki halda áfram í nýjum rétti, þegar slík breyting er gerð, þá fer hann frá með fullum launum.

Hv. þm. hefir því enn einu sinni misskilið stjskr., þegar hann heldur, að það sé ekki hægt að breyta fyrirkomulagi dóma nú eins og verið hefir áður. Og þar á ofan misskilur hann stjskr. hvað laun dómara snertir. Það er einmitt nefnt í okkar stjskr., að maður, sem gegnir aðeins dómaraembætti — og það eru ekki aðrir en hæstaréttardómarar hér á landi — skuli halda fullum launum, er hann lætur af embætti. Þetta atriði snertir því ekki stjskr. neitt. Hv. þm. hefir máske veitt því eftirtekt, að það er ekki eitt orð um þetta í hæstaréttarlögunum; hér er stjskr. ætlað að gilda einni saman. Allar þær spilaborgir, sem hv. þm. reisti á því, að þessi nýju lög mundu setja dómara á vonarvöl, eru því gersamlega hrundar.

Þá er aldur dómaranna. Hv. 3. landsk. er oft nokkuð seinheppinn í röksemdum. Hann álítur nauðsynlegt, að dómarar gegni sínum störfum mjög fram á efri ár, og er yfirleitt á móti því að setja aldurshámarkið 60–65 ár. En þó sagði hann, að dómari, sem orðinn er sextugur og fer þá frá starfi — og fengi þó full laun —, færi út á vonarvöl. En er þetta ekki sterk röksemd með því, að óheppilegt sé, að gamlir menn haldi áfram starfi sínu svo lengi, að þeir verði ófærir til annara hluta. Hv. 3. landsk. hefir gefið dómurum það heilbrigðisvottorð, að þeir séu ófærir að vinna sér brauð á nokkurn annan hátt en í því vandasama starfi að kveða upp úrslitadóma, þegar þeir eru orðnir sextugir. Mér dettur ekki í hug að halda þessu fram. Ég skal lofa hv. þm. — ef við lifum saman — að minna hann seinna á þetta mat sitt á starfsþreki gamalla manna og leiðbeina honum, ef hann ætlar að treysta öldungum hættulega mikið framvegis.

Hv. 3. landsk. kallaði það stjórnarskrárbrot að gera ráð fyrir, að dómarar gætu hætt sextugir. Ég vil um það geta þess aðeins, að sá lögfræðingur þessa bæjar, sem hefir mest álit í sinni grein, er um þetta á alveg sömu skoðun og stj., en gagnstæðri skoðun við hv. 3. landsk. Ef ákveðið er um þetta embættisskilyrði, er það dómarans eins að ráða við sjálfan sig, hvort hann gengur að því eða ekki. Ég tók það fram í fyrstu ræðu minni, að ég skoði það ekki mjög stórt atriði, hvort dómari fari frá 60 eða 65 ára. Það myndi vera betra fyrir dóminn að hafa aldrei dómara, sem kominn er á hnignunarskeið, en það kostar meira. En fáir hafa undirstrikað betur en hv. 3. landsk. ófullkomleika gamalla manna.

Það vill nú svo vel til, að það er hægt að sækja mörg, sjálfsagt óþarflega mörg fordæmi um stjórnarskrárbrot til hv. 3. landsk. Í þessari hv. deild lagði hann fyrir frv. um fyrirkomulag Landsbankans, þar sem hann í einni af síðustu gr. skaut inn í almennri gr. um það, að bankastjórar mættu ekki sitja á þingi. Allir vissu, að þetta var ekki sagt út í bláinn. Það stóð svo á, að hv. 3. landsk. var mjög illa við, að hv. núv. þm. Dal. væri á þingi, og langaði til þess að bægja honum burt. Enda hefir hann máske órað fyrir, að hv. þm. Dal. yrði honum dýr. Því að hv. 3. landsk. er nú afdankaður úr sínum flokki sem formaður, en hans gamli andstæðingur kominn til metorða í flokknum. En þetta var aðeins krydd í súpuna. Aðalatriðið er það, að hv. 3. landsk. ætlaði með þessum lögum að banna bankastjórum þingsetu til að hefna sín á vissum manni. Krafa kom fram um að vísa málinu frá, af því að það fæli í sér stjórnarskrárbrot. Hv. þm. Snæf. kvað upp þann forsetaúrskurð, að málið mætti ganga til n. Auðvitað var þetta ákvæði um hefnd á hv. þm. Dal. fellt úr frv. Hv. þm. vildi ég minna á þetta, að þarna hefir hann af þessum tilgreindu ástæðum komið nokkuð nálægt stjskr., áreiðanlega nær en gert er með þessu frv. og tilefni hans ekki umhyggja fyrir almenningsheill. Þessi hv. þm. ætti því allra þm. sízt að skreyta sig með fjöðrum úr stjórnskipunarlögum vorum.

Hv. 3. landsk. spurði seinast, hvernig þessi embætti verði veitt, ef til kæmi. Ég álít alveg ótímabært atriði að tala um veitingu í fimmtardóm nú við 1. umr. Ég vil benda hv. þm. á það, að við samningu hæstaréttarlaganna var slíku ekkert hreyft. Ég skoða þessa spurningu sem fjarstæðu eina, — að spyrja um þá hluti, sem liggja í framtíðinni og ómögulegt er að svara ennþá. En þessi spurning sýnir ofurvel, að hann getur ekki hugsað um málið almennt. Hann hugsar ekki um það, hvort við eigum sem beztan og fullkomnastan æðsta dómstól landsins, — hann er að hugsa um, hverjum verði veitt embættin, hverjir fái feita bita.

Allra síðast sagði hv. þm., að honum fyndist ekki skemmtilegt að nota þúsund ára afmæli þingsins til þess að breyta æðsta dómstól landsins eins og hér er gert ráð fyrir. Ég bið hv. deild að athuga það, að hv. 3. landsk. hefir ekki getað á nokkurn hátt hnekkt orðum mínum um það, hvað léttúðlega var stofnað til laganna um hæstarétt 1919. Það var í raun og veru einn einasti maður, sem undirbjó þau; þingið samþykkti þau í flýti með lítilli athugun og litlum umr. Að því leyti, sem landsyfirrétturinn var spurður ráða, var hann hundsaður.

Vegna þessa danska menningarstigs, sem þessi forgöngumaður málsins stóð á, og þá ekki síður stjórnarforsetinn, Jón Magnússon, datt honum ekki í hug að leita að neinu á þeim sterka og heilbrigða grundvelli, sem liggur í þróun þessa lands og allsherjarþróun heimsins. Ég álít ekkert illa viðeigandi, að á þessu þúsund ára afmæli sé gerð alvarleg tilraun til að bæta úr þessu. Það ber vott um, að þjóðin hefir vaxið á þessum tíu árum síðan hún fékk æðsta dómstólinn heim til sín, — að hún hugsar stærra um sín mál, ef hún vill gera sinn æðsta dómstól þannig úr garði, að hann geti orðið fullkomnari dómstóll að allri gerð og í vinnubrögðum heldur en sá, sem stofnaður var 1919. Allt þetta eru aukaatriði fyrir hv. þm. Hann hugsar um embættin sem bein fyrir kunningja, eftir því sem virðist. Hann virðist tala um þetta á sama hátt og með þeim sama móði og hann talaði fyrir því, að Reykjavík brunatryggði hjá því danska félagi, sem hann tók lán hjá í húsið sitt, enda þótt það væri miklu dýrara fyrir almenning í bænum.

Það er komið svo, að það eru farnir að koma fram straumar, sem ekki beinlínis stafa frá þeirri stjórnvizku, sem ljómar frá hv. 3. landsk.; það hafa fingur komið og skrifað á vegginn stafi, sem ekki er víst, að hv. þm. sé alveg ugglaus við. En það er annars furðulegt að heyra þann mann vera að tala um 1000 ára afmælið, því að hvað hefir hann lagt til um þúsund ára hátíðina? Það, að við skyldum reyna að græða á gestunum. Aldrei hefir kotungshugsjón kramarans komið betur fram en í þessum nýársboðskap þm. Það er þess vegna ekki óeðlilegt, þótt hv. þm. kunni ekki við það, að við hnýtum aftur böndin við söguöldina, maðurinn, sem segir, að við eigum að græða á gestunum árið 1930.